132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Íslenskir friðargæsluliðar eða hermenn í Afganistan.

161. mál
[13:53]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Hér er nú eins og stundum áður notuð stóryrði af litlu tilefni. Ég tel mig vera búinn að útskýra það mál, sem hér er um spurt. Það er þannig að íslenskir friðargæsluliðar sinna eingöngu borgaralegum verkefnum þó þeir þurfi að bera tignarheiti og klæðast einkennisbúningum og bera vopn til sjálfsvarnar. Það hefur orðið ákveðin breyting á þessum málum í Afganistan eins og hv. þingmaður og fyrirspyrjandi fagnaði í umræðunum hér fyrir viku í þessum efnum. Hins vegar hefur það líka legið fyrir að það er nauðsynlegt að skilgreina betur mörg atriði í kringum friðargæsluna. Sennilega verður það best gert með því að setja lög um þá starfsemi þó slíkt sé ekki komið á ákvörðunarstig. En verkefni friðargæsluliðanna eru náttúrulega margs konar. Þau eru m.a. aðgerðir til að koma á friði með viðveru og starfi sínu. Aðgerðir til að halda hættuástandi á átakasvæðum í skefjum. Aðgerðir til að tryggja stöðugleika og starf með heimamönnum á átakasvæðum í því skyni að koma í veg fyrir að átök brjótist út. Verkefni borgaralegra sérfræðinga sem stuðla að uppbyggingu stjórnmála- og efnahagslífsins í þeim tilgangi að koma á varanlegum friði. Mannúðar- og neyðaraðstoð við flóttafólk og fórnarlömb átaka eða náttúruhamfara. Ég held að við hljótum að geta verið sammála um það að hérna hefur Ísland verkefni að vinna. Þarna getum við lagt eitthvað af mörkum. Og það gerum við með okkar borgaralegu sérfræðingum, hvort sem það eru læknar, hjúkrunarfólk, slökkviliðsmenn, flugumferðarstjórar, lögreglumenn eða aðrir slíkir. Fólk sem hefur borgaralega sérþekkingu og reynslu og þjálfun til að taka að sér slík verkefni, en við verðum að sætta okkur við að þau séu unnin með hermönnum annarra þjóða eftir því hvernig skipulag þeirra er á þessum málum.