132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Kjarabætur til vistfólks á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

159. mál
[14:05]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Þetta er ágæt umræða og mig langar aðeins að leggja orð í belg varðandi einmitt þann hóp á öldrunarstofnunum sem eingöngu er með vasapeninga. Þetta er ekki mjög há upphæð, rúmar 20 þús. kr. sem þurfa að standa undir persónulegum kostnaði. Fram kom hjá fulltrúum stjórnenda öldrunarheimila í heilbrigðisnefnd í morgun að það er afar mismunandi á milli heimila hversu mikið heimilismenn þurfa að taka þátt í kostnaði, t.d. við þvott á fatnaði, hárgreiðslu og fótsnyrtingu. Það kom m.a. fram að á Hrafnistu þurfa menn ekki að greiða neitt fyrir þvott á fatnaði en á Grund þurfa þeir ekki að taka neinn þátt í kostnaði við hár- og fótsnyrtingu. Það er því ljóst að þegar vasapeningar verða teknir til endurskoðunar þarf jafnframt að fara eftir ábendingum Ríkisendurskoðunar, en fram kom í nýlegri skýrslu um þjónustu við aldraða að stjórnvöld hafa ekki sett fram lágmarkskröfur um magn á gæðaþjónustu. (Forseti hringir.) Þetta þarf að skoða samhliða.