132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Kjarabætur til vistfólks á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

159. mál
[14:08]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér fer fram. Hins vegar verð ég að viðurkenna að það kemur mér verulega á óvart ef þær upplýsingar eru réttar að aðeins 1% aldraðra sem eru inni á stofnunum sé eingöngu með dagpeninga. Ég hélt að hlutfallið væri miklu hærra. Einnig kemur mér á óvart í skýrslu Ríkisendurskoðunar eins og fram kemur í réttmætri athugasemd frá hv. þm. Ástu Möller um hve mikið misræmi er á milli stofnana varðandi þjónustu og greiðsluþátttöku þeirra sem þar dvelja. Það segir sig sjálft að það er mjög dýrt fyrir þá sem hafa eingöngu vasapeninga að greiða fyrir þjónustu eins og þvott eða að þurfa jafnvel að sjá sér sjálfir fyrir húsgögnum í herbergið. Þetta misræmi er ein af meginathugasemdunum sem gerðar eru í skýrslu Ríkisendurskoðunar um aðbúnað aldraðra, og skortur á reglum og samhæfingu á milli stofnana varðandi þjónustuna og síðan eftirlitið.