132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Sjúkraflug til Ísafjarðar.

274. mál
[14:15]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Herra forseti. Nýtt fyrirkomulag á sjúkraflugi til Vestfjarða var ákveðið í haust og samningar þar að lútandi undirritaðir með gildistíma til ársins 2009. Sú breyting verður með nýjum samningi að sjúkraflugvél mun koma frá Akureyri þar sem miðstöð sjúkraflugs verður staðsett en ekki verður staðsett flugvél á Ísafirði eins og áður.

Nú háttar þannig til á Ísafjarðarflugvelli að þar er hvorki hægt að lenda eftir að dimma tekur né við erfið veðurskilyrði. Staðsetning flugvélar á Ísafirði var því talin forsenda þess að öryggi Vestfirðinga væri tryggt. Forsenda þess að talið var óhætt að beita þessu fyrirkomulagi var að endurbótum yrði lokið fyrir veturinn á flugvellinum á Þingeyri en hann er ætlaður sem framtíðarvaraflugvöllur fyrir norðanverða Vestfirði. Ekki tókst að ná því marki fyrir snjóa. Sá flugvöllur er því ekki nothæfur í því skyni. Auk þessa ályktaði bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, þegar breytt fyrirkomulag var í farvatninu, að tilteknar breytingar við Fjórðungssjúkrahúsið á Ísafirði væru forsenda þess að óhætt væri að breyta fyrra fyrirkomulagi sjúkraflugs. Þó var reiknað með að flugvöllurinn á Þingeyri yrði tilbúinn og hægt að fljúga þangað því næst hvenær sem er sólarhringsins, nema hugsanlega í allra verstu veðrum. Vestfirðingar búa því í dag við mikið óöryggi varðandi sjúkraflug.

Ég spyr því hæstv. ráðherra:

1. Hvaða ráðstafanir hyggst heilbrigðisráðherra gera varðandi sjúkraflug til Ísafjarðar nú þegar ljóst er að Þingeyrarflugvöllur verður ekki tilbúinn til notkunar í vetur?

2. Hafa verið gerðar þær úrbætur á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði sem sveitarstjórn Ísafjarðarbæjar taldi meðal forsendna fyrir breyttu fyrirkomulagi sjúkraflugs?