132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Sjúkraflug til Ísafjarðar.

274. mál
[14:23]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra ágæt svör. Það er augljóst að sá flugvélakostur sem tekinn verður í gagnið verður mun betur til þess fallinn að sinna sjúkraflutningum en áður. Einnig er fagnaðarefni að það skuli eiga að vera læknir í flugvélinni en ekki að jafnvel þurfi að senda lækni af viðkomandi stað eins og áður hefur þurft í vissum tilfellum. Þetta eru því góðar breytingar. Hins vegar þurfa ákveðnar forsendur að vera fyrir hendi til þess að þær nýtist. Þar er ég enn að tala um flugvöllinn. Nú heyrist mér að fram að því sem hann kemst í gagnið eigi að nota þyrlu. Það gerir það auðvitað að verkum að viðbragðstími verður mun lengri en áður hefur verið.

Ég lagði í fyrra fram fyrirspurn um hve oft hefði þurft að fella niður áætlunarflug til Ísafjarðar vegna veðurfars. Ég held að öllum hafi komið á óvart hve oft það var. Þar var þó verið að tala um ferðir að degi til. Eins og ég sagði áðan er ekki hægt að lenda á Ísafirði eftir myrkur. Hins vegar er hægt að taka á loft frá Ísafirði eftir að dimma tekur. Mér sýnist því að öryggi íbúa norðanverðra Vestfjarða verði ekki eins vel tryggt, þar til Þingeyrarflugvöllur verður tekinn í gagnið, og það var á meðan flugvél var staðsett á Ísafirði, því miður.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að athuga hvort ekki er ástæða til að hafa flugvél á flugvellinum á Ísafirði á meðan Þingeyrarflugvöllur er enn í því ástandi sem hann er en þar vantar lítið upp á en í því verður ekki unnið (Forseti hringir.) fyrr en næsta sumar.