132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Tæknifrjóvganir.

276. mál
[14:31]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. þingmenn, tíundi þingmaður Reykjavíkur suður, Ágúst Ólafur Ágústsson, og fjórði þingmaður Reykjavíkur suður, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, hafa beint til mín fjórum fyrirspurnum um tæknifrjóvgun.

„Hyggst ráðherra tryggja fé til að hægt verði að greiða niður tæknifrjóvganir uns samningur við Art Medica rennur út?“

Þjónustusamningur, sem var gerður hinn 12. nóvember 2004 milli Landspítala – háskólasjúkrahúss og Art Medica, var til eins árs og rann því út þann 11. nóvember sl. Í sumar var ljóst að Art Medica hafði lokið þeim meðferðafjölda sem samningurinn kvað á um á styttri tíma en ráð var fyrir gert og voru á þeim tímapunkti ekki lengur fjármunir fyrir hendi til niðurgreiðslu meðferða af hálfu Landspítala. Af því tilefni óskaði ég eftir því við Landspítalann að hann lyki samningum við Art Medica um greiðslur vegna þeirra sjúklinga sem höfðu hafið meðferð en féllu utan við þann fjölda meðferða sem samið var um í þjónustusamningnum frá 12. nóvember 2004. Auk þess óskaði ég eftir því við Landspítalann að gerður yrði viðbótarsamningur til bráðabirgða við Art Medica þannig að svigrúm gæfist til að undirbúa samning til lengri tíma. Landspítalinn gekk í framhaldi af því frá viðbótarsamningi við Art Medica til eins mánaðar og gildir hann til 12. desember 2005. Markmiðið með þeim samningi var að tryggja að ekki yrði truflun á þjónustu við tæknifrjóvgun meðan unnið væri að gerð nýs samnings. Auk þess hef ég falið Landspítala að ljúka gerð nýs samnings sem tæki mið af viðbótarsamningi um tæknifrjóvganir. Gert er ráð fyrir að þeirri samningsgerð ljúki fyrir 12. desember 2005.

Í öðru lagi hyggst ráðherra koma til móts við þá sem ekki geta notið niðurgreiðslu slíkrar þjónustu á samningstímanum. Þeir sem ekki hafa notið niðurgreiðslu ríkissjóðs vegna tæknifrjóvgana falla í tvo hópa. Annars vegar er sá hópur sem mætir ekki skilyrðum um greiðsluþátttöku ríkissjóðs, ekki eru nein áform um að koma til móts við þann hóp enda ekki heimilt að óbreyttu. Hinn hópurinn mætir framangreindum skilyrðum en er umfram þann fjölda meðferða sem kveðið er á um í samningi Art Medica við LSH. Kostnaður vegna þessa hóps er áætlaður um 7,5 millj. kr. og verður hafður til hliðsjónar við endurskoðun samningsins en stefnt er að því að undirrita endurnýjun samnings fyrir 12. desember nk. Undirbúningur og samningsgerð stendur nú yfir milli LSH og Art Medica og er því ekki unnt að gera grein fyrir niðurstöðunni. Það er vert að geta þess hér að samningur við Art Medica frá 12. nóvember 2004 var tilraunasamningur. Við framkvæmd hans hafa komið í ljós annmarkar sem þarf að lagfæra við gerð nýs samnings. Erfitt hefur reynst að fá upplýsingar um starfsemina sem leiddi til að greiðslur til þeirra sem nutu þjónustunnar stöðvuðust. Verið er að vinna úr þessu og stefnt að því við gerð nýs samnings að búið sé svo um hnútana að starfsemi geti gengið snurðulaust fyrir sig. Hér er um að ræða viðkvæma starfsemi sem mikilvægt er að stöðvist ekki í miðjum klíðum. Til að svo megi verða þarf að auka eftirlit með starfseminni og tryggja upplýsingaflæði um fjölda og tegund meðferða á hverjum tíma.

Ég vil fullvissa fyrirspyrjendur um að ég mun áfram leitast við að tryggja þeim sem ekki njóta niðurgreiðslna úr ríkissjóði vegna tæknifrjóvgana eins snurðulausa afgreiðslu og unnt er. Ég hef haft ágætt samstarf við fulltrúa þessa hóps og þekki vel til sjónarmiða þeirra.

„Hversu mörg pör eru nú á biðlista eftir tæknifrjóvgun?“

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ráðuneytið hefur aflað sér hjá Art Medica eru 100 pör á biðlista eftir glasafrjóvgun og biðlistinn nær því fram í mars 2006.

„Hversu mörg pör hafa ekki notið niðurgreiðslu á tæknifrjóvgun á samningstímanum og því greitt þjónustuna fullu verði eða frestað því að fara í slíka meðferð?“

Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið hefur aflað munu 58 pör greiða þjónustuna að fullu þar sem þau kusu að bíða ekki með meðferðina. Þetta er frá 13. september – 11. nóvember 2005. Um 20 pör kusu að fresta meðferðinni vegna óvissu um greiðsluþátttöku ríkisins.

Virðulegi forseti. Ég hef nú svarað þingmönnum eftir því sem kostur er. Eins og fram kemur í svari mínu verður málið unnið áfram og við leggjum áherslu á það og stefnt er að gerð nýs samnings um tæknifrjóvganir fyrir 12. desember nk. Ég vona að svar mitt hafi varpað ljósi á það mál sem er til umræðu.