132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Tæknifrjóvganir.

276. mál
[14:44]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram um málið. En greiðsluþátttaka ríkisins helgast vissulega af því að gefa öllum kost á umræddri þjónustu óháð efnahag og stöðu. Spurt var hvort mat hefði verið lagt á gæði eða hagkvæmni. Eins og fram hefur komið hér hefur þessi þjónusta verið góð svo ég hef engar athugasemdir hvað gæði snertir. Hvað hagkvæmni varðar hefur það ekki sýnt sig að þjónustan sé ódýrari en á Landspítalanum. Einnig var spurt hvaða annmarkar væru á þjónustunni. Ég nefndi að við þurfum að bæta upplýsingaflæðið og koma á skilvirkara eftirliti með starfseminni og ég efast ekki um að úr því verður bætt. Um tilraunaverkefni var að ræða og það var sett upp sem slíkt á sínum tíma. Það er ekkert óeðlilegt við það. Varðandi samkynhneigða þá munum við að sjálfsögðu fara yfir þá þörf sem þar yrði væntanlega til staðar þegar samningurinn verður endurnýjaður. Hvað spurninguna um Landspítalann varðar hefur umrædd stofa mikil samskipti við hann af mörgum ástæðum: vegna kennslu, vegna geymslu, vegna innlagna hugsanlega o.s.frv. Það þótti af þeim ástæðum rétt að Landspítalinn annaðist þetta. Og varðandi lyfjamálin og tæknisæðingar (Forseti hringir.) þá tek ég þær ábendingar sem hv. fyrirspyrjandi nefndi til skoðunar og mun fara yfir þær.