132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Löggæsla á skemmtunum í Skagafirði.

277. mál
[15:00]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Spurt er:

,,Hversu oft hefur sérsveit ríkislögreglustjóra tekið að sér löggæslu á skemmtunum í Skagafirði og hver er kostnaður ríkisins vegna þessa?“

Aflað var upplýsinga hjá embætti ríkislögreglustjóra og sýslumanninum á Sauðárkróki vegna fyrirspurnar hv. þingmanns. Samkvæmt þeim kemur fram að lögreglan á Sauðárkróki óskaði eftir aðstoð sérsveitarmanna sem staðsettir eru á Akureyri í tengslum við dansleik 2. september sl. og vegna skemmtanahalds í tengslum við Laufskálaréttir í Hjaltadal þann 24. september sl. Ástæðan fyrir því var það mat lögreglunnar á Sauðárkróki að þörf væri fyrir aukna löggæslu í tengslum við þessa viðburði.

Eins og kunnugt er var fyrirkomulagi við sérsveitina á Norðurlandi breytt fyrr á þessu ári með það að markmiði að styrkja og efla löggæslu á því svæði. Fólst það bæði í því að sérsveitarmennirnir voru leystir undan vöktum hjá embætti sýslumannsins á Akureyri og fjórir lögreglumenn ráðnir þar til starfa í þeirra stað og um leið í því að sérsveitarmennirnir skyldu vera tiltækir fyrir lögregluliðin öll á Norður- og Austurlandi ef þörf skapaðist fyrir aukna löggæslu. Sé ég ekki betur en að þessi dæmi úr Skagafirðinum sýni vel hvernig þessi breyting hefur skilað sér með öflugri löggæslu.

Umframkostnaður við aukningu löggæslunnar í tengslum við þessa viðburði var enginn en sá kostnaður sem fólst í ferðum og greiðslum til umræddra sérsveitarmanna kemur frá þeirri fjárveitingu sem til rekstrar hennar er varið. Miðað við fjölda vinnustunda sérsveitarmanna og akstur væri þessi kostnaður í útseldri vinnu um 170 þús. kr. samtals. Löggæslukostnaðurinn var innheimtur vegna umræddra dansleikja vegna aukins viðbúnaðar lögreglunnar á Sauðárkróki og nam hann um 35 þús. kr. í hvort skipti.