132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Löggæsla á skemmtunum í Skagafirði.

277. mál
[15:06]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Það er náttúrlega mjög einkennileg hagfræði í þessu, að eingöngu ferðakostnaðurinn sé 170 þús. kr. Það væri mjög fróðlegt að fá að bera saman hver útgjöldin yrðu fyrir embættið á Sauðárkróki ef menn þaðan væru kallaðir í þessi verkefni, fá samanburðardæmi til að geta metið stöðu sérsveitarinnar. Það er mjög sérstakt að efla einhverja sérsveit á meðan verið er að draga saman almenna löggæslu, sérstaklega þar sem við erum að tala um löggæslu á almennum friðsömum dansleik, að kalla til menn úr meira en 100 km fjarlægð.

Þetta leiðir hugann að framtíðarverkefnum sem eru ekki langt undan, þ.e. að hestamannamóti næsta sumar. Það er spurning hvernig hæstv. dómsmálaráðherra mun beita sér þá. Mun hann kalla til sérsveitarmenn alla leið úr Reykjavík til að sinna löggæslu eða munu almennir lögregluþjónar sinna störfum á hinum friðsömu mótum? Mun hann jafnvel efla þá lögregluna á Sauðárkróki þannig að hún geti sinnt þessum verkefnum, lendi ekki í vandræðum þegar upp koma svona viðburðir sem eru nánast annað hvert ár, hestamannamót og héraðsmót ungmennafélaganna, svo að ekki sé verið að búa til pressu?

Það verður að taka á atburðum úti á landsbyggðinni þar sem embætti eru lítil og fjárvana, einhvern sjóð þarf til að veita úr í þessi störf. Það sjá allir í hendi sér að það er ekkert vit í því að flytja sérsveitarmenn hringinn í kringum landið til að sinna svona skemmtanahaldi. Nær væri að gefa löggæslunni á staðnum meira svigrúm. Öllum finnst það eðlilegt, sérstaklega lögreglumönnunum á Sauðárkróki. Ég endurtek að þeim finnst óeðlilegt á friðartímum að kalla sérsveit á böllin.