132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Kynbundið ofbeldi.

195. mál
[15:10]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég lagði þessa fyrirspurn fram á þingskjali við upphaf þings, sennilega 1. október. Hún var sett á dagskrá miðvikudaginn 19. október. Vegna kringumstæðna og umræðna um störf þingsins þann dag og fleira komst hún ekki á dagskrá þann daginn. Ég verð að játa það úr þessum stóli að ég var hálffúl þennan dag líka yfir því að daginn áður, þann 18. október, hafði ríkisstjórnin gefið út forláta fréttatilkynningu um aðgerðir gegn heimilisofbeldi og kynferðislegu ofbeldi. Þar með hafði hæstv. félagsmálaráðherra svarað öllum liðum fyrirspurnarinnar í fréttatilkynningu. Mér þótti að mér vegið og fannst að þingmaðurinn hefði átt að fá svarið í þingsalnum áður en hlaupið væri í fréttir daginn áður en fyrirspurnin mín var á dagskrá. Þegar ég sá að hún var aftur komin á dagskrá — ég var búin að gleyma henni, eins og maður gleymir yfirleitt því sem leiðinlegt er — hugleiddi ég að afturkalla hana. En svo hugsaði ég: Nei, auðvitað á ég ekki að afturkalla hana. Við skulum bara taka smáorðaskipti um aðgerðir ríkisstjórnarinnar héðan úr þessum ræðustóli.

Ég fagna því sem fram kemur í fréttatilkynningu ríkisstjórnarinnar frá 18. október sl. um að búa eigi til heildstæða aðgerðaáætlun gegn heimilisofbeldi og kynferðislegu ofbeldi í landinu. Þetta er upphaflega gert vegna beiðni og þrýstings frá frjálsum félagasamtökum sem efndu til 16 daga átaks á síðasta ári gegn heimilisofbeldi og kynbundnu ofbeldi almennt. Nú líður að því að sams konar alþjóðlegt átak sé aftur að fara í gang, 16 daga átak, gegn kynbundnu ofbeldi. Yfirskrift átaksins er Heilsa kvenna, heilsa mannkyns: Stöðvum ofbeldið. Markmið átaksins er hið sama og í fyrra, afnám alls kynbundins ofbeldis. Það er ánægjulegt að geta sagt frá því hér að í þetta sinn fjölgar umtalsvert félagasamtökunum sem að átakinu standa. Ég held að við eigum von á mjög kraftmiklu starfi og sýnilegu þessa daga, frá 25. nóvember næstkomandi til 10. desember.

Fyrirspurn mín til hæstv. ráðherra stendur sem sagt. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra svari því á hvern hátt hann ætli að verða við tilmælunum sem komið hafa frá félagasamtökunum um aukin félagsleg úrræði, fyrst og fremst, til fórnarlamba heimilisofbeldis og þeirra sem beita slíku ofbeldi. Það sem ég er með í huga er áskorunin frá félagasamtökunum sem óska eftir því að sérstaklega verði skoðuð aðgerðaáætlun bæjar- og sveitarfélaga gegn kynbundnu ofbeldi, að fórnarlömb kynferðisofbeldis verði að hafa kost á því að eiga einhvers konar afkomu að fjárhagslegum stuðningi, meðferðarúrræði fyrir ofbeldismenn verði að styrkja og konum verði að kynna réttindi sín og úrræði.