132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Kynbundið ofbeldi.

195. mál
[15:13]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga efni á Alþingi og ekki síður að halda sig við fyrirspurnina. Ég tek undir það með hv. þingmanni að það er full ástæða fyrir okkur til að ræða þessi mál í þessum sal.

Ofbeldi gegn konum og þá einkum ofbeldi í skjóli einkalífs er því miður staðreynd, í öllum samfélögum væntanlega. Rannsóknir og opinber umræða benda svo sannarlega til að vandamálið sé til staðar hér á landi. Okkur ber að horfast í augu við það og taka á því eftir því sem nokkur kostur er, en þar þurfa margir að koma að. Eins og þingheimi er kunnugt samþykkti ríkisstjórnin í októbermánuði sl. að tillögu minni og dómsmálaráðherra að hafin yrði athugun á því með hvaða hætti mætti standa að gerð og framkvæmd heildstæðrar aðgerðaáætlunar gegn heimilisofbeldi og kynferðislegu ofbeldi hér á landi. Gert er ráð fyrir að verkefnið fjalli aðallega um aðgerðir gegn ofbeldi þar sem konur og börn eru þolendur. Einkum verði skoðað hvernig styrkja megi barnaverndaryfirvöld, félagsþjónustu, skóla, heilbrigðiskerfi, lögreglu o.fl. með það að markmiði að efla fræðslu og samhæfa vinnubrögð, verklag og úrræði þessara aðila.

Þessi mál hafa verið til umfjöllunar á vettvangi samráðsnefndar félagsmálaráðuneytisins. Í henni eiga sæti, auk fulltrúa þess ráðuneytis, fulltrúar dómsmála, heilbrigðis- og tryggingamála og menntamálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Nefndin hefur einbeitt sér að heimilisofbeldi frá því að hún tók til starfa, kallað til sín fjölda fulltrúa, kynnt sér umfjöllun um þessi mál á alþjóðavettvangi og beitt sér fyrir einstökum verkefnum. Ríkisstjórnin ákvað að fela þessari samráðsnefnd að taka til umfjöllunar útfærslu á heildstæðri aðgerðaáætlun hér á landi á grundvelli samþykktar ríkisstjórnarinnar.

Lagt hefur verið til að við framangreinda vinnu verði sjónum sérstaklega beint að börnum sem eru þolendur kynferðisafbrota. Ég vil undirstrika við þessa umræðu að það er ekkert mikilvægara í þessum efnum en börnin okkar. Ekkert. Þau eru svo varnarlaus í samskiptum við sér eldra fólk og einmitt þess vegna þurfa þau á sterku öryggisneti að halda. Það er sárt til þess að vita að á meðal okkar séu einstaklingar sem ekki geta litið glaðan dag vegna þess að einhver fullorðinn beitti þá einhvern tímann ofbeldi. Það sem er enn verra er að sýnt hefur verið fram á að einstaklingar sem búa við slíkt í uppvextinum eru líklegri en aðrir til að verða brotamenn gagnvart börnum, jafnvel eigin börnum.

Nú þegar hefur verið unnið að margvíslegum verkefnum á vegum stjórnvalda sem og frjálsra félagasamtaka sem láta sig þessi mál varða, eins og hv. þingmaður rakti. Það er álit mitt að samvinna stjórnvalda og frjálsra félagasamtaka sé mikilvægt svo að við náum markvissum framförum. Þar á meðal hefur stjórnvöldum borist ítarlegt yfirlit frá fulltrúum Samtaka um kvennaathvarf, Stígamótum, Íslandsdeild Amnesty International, Mannréttindaskrifstofu Íslands og UNIFEM á Íslandi.

Í tillögum hinna íslensku samtaka um aðgerðaáætlun eru nefnd fjölmörg mikilvæg atriði sem hafa það meginmarkmið að fyrirbyggja að kynbundið ofbeldi eigi sér stað í samfélagi okkar. Ég legg mikla áherslu á að leitað verði samstarfs við þessi samtök við gerð framangreindrar áætlunar og mér er kunnugt um að til standi að halda samráðsfund með þeim í næsta mánuði um þetta efni.

Eins og fram hefur komið bind ég miklar vonir við aðgerðaáætlun stjórnvalda þar sem verkefni í þessum málum muni vera að finna á einum stað ásamt markmiðum. Jafnframt veit ég að þegar eru mörg verkefni í vinnslu og jafnvel á lokastigi, t.d. voru gefin út á sumarmánuðum upplýsingakort sem fara haganlega í veski með símanúmerum hjá þeim aðilum er veita þolendum ofbeldis aðstoð. Þessi kort eru bæði á íslensku og ensku. Þá hefur verið samþykkt að ráðast í gerð handbókar um heimilisofbeldi fyrir ólíkar starfsstéttir sem hafist verður handa við á næstu vikum. Flestir eru einmitt sammála um að fræðsla fagstétta er koma að málum þolenda og jafnvel ekki síður gerenda sé eitt af lykilatriðum þess að unnt verði að draga úr kynbundnu ofbeldi.

Ég tel mjög mikilvægt að úrræði séu fyrir hendi fyrir þá sem beita ofbeldi inni á heimilunum. Ég hef því beitt mér fyrir því að verkefnið Karlar til ábyrgðar verði endurvakið á næsta ári. Er í fjárlagafrumvarpinu gert ráð fyrir að því verði tryggt 6,5 millj. kr. framlag á fjárlögum. Ég vil segja það hér að ég tel að með því að styrkja og endurreisa hið ágæta verkefni Karlar til ábyrgðar verði ráðist að rótum vandans með því að hjálpa þeim sem beitt hafa ofbeldi.

Þar sem fyrirspurn hv. þingmanns beinist fyrst og fremst að félagslegum úrræðum og almennri fræðslu fjalla ég hér ekki sérstaklega um mikilvæg verkefni sem dómsmálaráðherra vinnur að og varða bæði breytingar á löggjöf gagnvart m.a. heimilisofbeldi og nýjar verklagsreglur fyrir lögregluna sem þegar liggja fyrir.

Hæstv. forseti. Það er ljóst að betur má ef duga skal. Ég get ekki á þessari stundu fullyrt hvaða verkefni verða tiltekin í væntanlegum tillögum að aðgerðaáætlun gegn heimilisofbeldi og kynferðislegu ofbeldi hér á landi. Ég get hins vegar fullyrt að um forgangsmál er að ræða hjá okkur. Sérstakur starfsmaður hefur þegar verið ráðinn til starfa í félagsmálaráðuneytinu til að starfa með umræddri samráðsnefnd í fjóra mánuði, til loka febrúar 2006, að gerð tillagna um verkefni í aðgerðaáætluninni. Hún á að liggja fyrir til umfjöllunar í ríkisstjórn eigi síðar en 3. mars næstkomandi. Þegar heildstæð áætlun um aðgerðir verður kynnt mun ég ekki láta mitt eftir liggja til að tryggja að verkefni sem skynsamlegt þykir að ráðast í og samþykkt verða njóti forgangs.