132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Kynbundið ofbeldi.

195. mál
[15:19]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir þessa fyrirspurn. Ég tel að hún ætti einfaldlega að vera ánægð með að hafa ýtt við ráðherrunum með fyrirspurn sinni á sínum tíma. Ég tel að ég hafi gert það í fyrra þegar ég lagði fram þingmál um að ráðherra dómsmála ætti að setja fram lagafrumvarp sem lýtur að sérstöku lagaákvæði um heimilisofbeldi en viku eftir að ég lagði þá þingsályktunartillögu fram fór hæstv. dómsmálaráðherra af stað í þá vinnu. Fljótlega kemur afraksturinn inn á þing sem við í allsherjarnefndinni og þingheimur munum skoða.

Ég held að þetta sé málaflokkur sem margir aðilar þurfa að leggjast á eitt við að vinna að. Við þurfum að gera nauðsynlegar lagabreytingar. Við þurfum að huga að leiðum eins og opinberum ákærum í þessum málaflokki og hinni svokölluðu austurrísku leið, og við þurfum að efla félagsleg úrræði eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir nefnir en við þurfum líka að huga að þætti menntakerfisins varðandi fræðslu um heimilisofbeldi, bæði í námskrá grunnskóla og námskrá Kennaraháskóla Íslands. Við þurfum þá að huga að þætti heilbrigðiskerfisins. Ég var með fyrirspurn í fyrra varðandi neyðarmóttöku fyrir fórnarlömb heimilisofbeldis. (Forseti hringir.) Þetta er átak sem allir aðilar eiga að koma að, bæði ríki, sveitarfélög og félagasamtök.