132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Kynbundið ofbeldi.

195. mál
[15:25]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka alveg sérstaklega undir með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur í þeim efnum að ég tel að það sé fyrst og fremst að þakka þeim sjálfboðaliðum, þeim félagasamtökum, því fólki sem hefur lagt á sig mjög mikla vinnu við að koma einmitt á framfæri þeim viðkvæmu málum sem við hér ræðum. Það varð ekki síst hvati þess að ríkisstjórnin ákvað að ráðast í þetta verk sem hér hefur orðið að umfjöllunarefni, sú mikla opinbera umræða sem varð einmitt á þessum tíma, sá mikli kjarkur sem einstaklingar sýndu með því að stíga fram og segja sögu sína og við öll þekkjum. Þegar allt leggst á eitt — hv. þm. á sinn þátt í því líka — getur útkoman stundum orðið ágæt. Vonandi verður hún það í þessu tilviki.

Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir spurði hvort fram hefði farið á því sérstök athugun hversu margir drengir eða karlar verði fyrir ofbeldi inni á heimilunum. Ég veit ekki til að slík athugun hafi farið fram. Þótt áherslan í aðgerðaáætluninni verði gegn ofbeldi á börnum og konum er þetta eitt þeirra atriða sem við ætlumst til að þar verði tekið til kostanna.

Mér finnst líka full ástæða við þessa umræðu til að við minnum á það að rannsóknir hafa sömuleiðis sýnt að drengir standa oft höllum fæti innan skólakerfisins, verða þar fyrir ofbeldi, bæði andlegu og líkamlegu, þannig að ekki er síður ástæða til að horfa til þeirra hluta.

Hæstv. forseti. Að lokum þakka ég þessa umræðu. Ég tel að með samhentu átaki getum við unnið þar gagn sem vissulega er ástæða til enda okkar dýrmætasti fjársjóður undir, börnin okkar.