132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[10:35]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil eiga orðastað við forseta áður en umræðan um fjárlög hefst að mjög gefnu tilefni vegna þess hvernig umræður um þetta dagskrármál hafa þróast undanfarin ár. Það varðar viðveru ráðherra við umræðu um fjárlagafrumvarp.

Það hefur verið að keyra um þverbak, frú forseti, hvað það varðar að hæstv. ráðherrar hafa að því er virðist alls ekki talið sér skylt að vera hér til staðar við umræðu um fjárlög og svara fyrir sína málaflokka. Ítrekaðar tilraunir í fyrra og hittiðfyrra til þess að fá fagráðherra til að mæta, þó ekki væri nema undir einhvern hluta umræðunnar þannig að hægt væri að bera fyrir þá spurningar og heyra svör þeirra og málsvörn fyrir þá meðhöndlun sem málaflokkar þeirra fá við fjárlagaafgreiðsluna, voru árangurslausar. Heldur var þunnskipaður ráðherrabekkurinn hér í dag þegar þessi fundur hófst þó það hafi heldur farið batnandi með því að hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra trítlaði í salinn og sömuleiðis hæstv. fjármálaráðherra, og stendur það auðvitað allt til bóta.

En hér vantar marga fleiri hæstv. ráðherra og þó svo einhverjir þeirra kunni að vera erlendis þá gegna einhverjir embættum fyrir þá. Ég vil spyrja hæstv. forseta hvort það hafi verið kerfisbundið kannað hvort allir ráðherrar sem gegna embættum og eru á landinu verði hér í dag og undir allri umræðunni sem auðvitað er lágmarkskrafa. Það er ekki oft nú orðið sem til þess er beinlínis ætlast og uppi er höfð um það krafa að ráðherrar séu við. Ég hef a.m.k. reynt að þrjóskast við með þá hefð að þetta væri ekki látið leka niður líka hvað varðar fjárlagaumræðuna sjálfa.

Ég fer fram á að forseti fari yfir þetta, afli upplýsinga um hvort allir ráðherrar sem eru staddir á landinu verði hér við og það sé þá skýrt hverjir gegna fyrir þá sem staddir eru erlendis þannig að umræðan fari fram í dag að fullmönnuðum ráðherrabekkjum. Ef ekki, ef það verða veruleg brögð að því að ráðherrar verði hér ekki viðstaddir þá fer ég fram á að þessari umræðu verði frestað og hún skipulögð þannig að ráðherrarnir verði við. Það er ekki nokkur hemja að horfa upp á þetta fara aftur á bak ár frá ári og svipurinn á því er auðvitað fyrir neðan allar hellur. Það er til vansa og lítils sóma fyrir Alþingi sem slíkt að láta bjóða sér þetta svo maður tali náttúrlega ekki um ríkisstjórnina sem með þessu gefur sjálfri sér og metnaði sínum fyrir hönd eigin verka tiltekna einkunn. Það verður auðvitað að vera þeirra mál. En það varðar þingið hvað það lætur bjóða sér í þessum efnum og ég nenni því satt best að segja ekki að þurfa að standa í þessu þrasi hér og stappi á hverju ári og vera sjálfur alltaf að krefjast þess þegar maður er að flytja sína ræðu að tilteknir ráðherrar komi þannig að hægt sé að bera fyrir þá spurningar. Mér finnst þetta vera skipulagsatriði, þetta varði okkur öll og það eigi að ganga frá þessu í upphafi umræðunnar. Auðvitað (Forseti hringir.) ætti þetta að vera vel og vandlega undirbúið fyrirfram og tryggt að þetta sé í lagi.