132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[10:46]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Hér eru ýmsar áhugaverðar kenningar uppi eins og þær að það komi ráðherrunum ekkert við eftir að fjárlagafrumvarpið er komið til þingsins hvernig það er síðan meðhöndlað og hvaða fjárveitingar verða til að standa straum af rekstri málaflokka næsta ár. Ætli það komi ekki framkvæmdarvaldinu eitthvað við? Ætli það sé ekki þannig að þingmenn hafi fulla ástæðu til og stjórnarskrárvarinn og lögvarinn rétt til að ráðherrarnir standi reikningsskil sinna málaflokka fyrir þinginu? Þetta snýst um það að fagráðherrarnir séu hér til staðar, t.d. hæstv. heilbrigðisráðherra til að útskýra hvernig hann ætlar að reka almannatryggingakerfið á næsta ári með þeim fjármunum sem hann fær. Hvaða áhrif hefur það á afkomu og kjör þeirra sem í hlut eiga? Hvernig ætlar samgönguráðherra að standa að málum o.s.frv.? Það þarf vonandi ekki að taka upp kennslu í stafrófinu í þingsköpum og því hvernig framkvæmdarvaldið í þingræðislandi starfar.

Ég verð að segja alveg eins og er, frú forseti, að mér finnst það slök frammistaða og losaralegt hjá hæstv. ríkisstjórn að 5 af 12 ráðherrum ætli að vera algerlega fjarstaddir í dag. Þrír erlendis, látum það vera ef þeir hafa allir átt brýn erindi til útlanda og ekki hefur verið hægt að haga því á annan veg en þann að þeir væru í burtu á löngu, löngu ákveðnum degi fyrir 2. umr. fjárlaga. En mér finnst það nokkuð langt gengið að tveir ráðherrar þar til viðbótar skuli vera með fjarvistarleyfi og ég spyr: Eru það svo ríkar og óumflýjanlegar ástæður að efni séu til að þessir tveir fagráðherrar, sem mögulega gegna líka fyrir einhverja hinna sem eru erlendis, nú veit ég það ekki, velji að taka önnur verkefni og aðrar skyldur fram yfir það að vera hér viðstaddir 2. umr. fjárlaga? Er hægt að fá það upplýst hvað þessir tveir hæstv. ráðherrar eru að gera hér innan lands væntanlega, úr því að þeir eru með fjarvistarleyfi og ekki með varamann inni fyrir sig. Ég held að hæstv. forsætisráðherra ætti ekki að vera að hrósa sér af þessu og telja þetta í góðu lagi.

Það er rangt, eins og hann veit og við báðir, að það sé ekki hefðin að ætlast sé til viðveru fagráðherra til að ræða málin þegar 2. umr., meginefnisumræða, um fjárlagafrumvarpið fer fram. Nú liggur fyrir eftir hina miklu vinnu fjárlaganefndar hvaða breytingar þingið getur hugsað sér að gera á þeirra málaflokkum og þá blasir við hver afgreiðslan verður. Þá er eðlilegt að hin stóra efnislega umræða um frumvarpið grein fyrir grein, lið fyrir lið, ráðuneyti fyrir ráðuneyti fari fram. Við 3. umr. er málið rætt í heild sinni og afgreitt í heild sinni. Þetta kunnum við öll.

Ég ítreka óskir mínar um að forseti geri grein fyrir því hver staðan er, hvaða tveir ráðherrar hafa fjarvistarleyfi, gegna þeir fyrir aðra sem eru erlendis, þannig að við vitum nákvæmlega hver niðurstaðan er. Og verður svo þessi hópur hér undir allri umræðunni í dag?