132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:22]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Magnús Stefánsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi málefni Barna- og unglingageðdeildar og áform um framkvæmdir þar við úrbætur á aðstöðu þá er rétt sem fram kom hjá hv. þingmanni að það liggja fyrir fjármunir varðandi það verkefni. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef skilst mér hins vegar að þeir nægi ekki til að ljúka fyrsta áfanga þess verkefnis. En miðað við upplýsingar sem ég hef líka, skilst mér að það sé þó nægt fjármagn til að hefja framkvæmdir á síðari hluta næsta árs. Síðan geri ég auðvitað ráð fyrir því að þetta mál muni þá koma inn í umræðu um fjárlög 2007 þannig að ég er þess fullviss að það eru uppi áform og vilji til að fara í þetta verkefni sem allra fyrst. En þetta eru þær upplýsingar sem ég hef um málið.