132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:31]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég man ekki betur en hæstv. heilbrigðisráðherra hefði lýst því yfir á Alþingi að haft yrði samráð við hlutaðeigandi um þær breytingar sem þarna var verið að leggja til. Að sjálfsögðu var því mótmælt að afnema styrkinn sem fatlaðir og örorkulífeyrisþegar hafa fengið til bifreiðaaksturs. Ég er ekki viss um að þeir aðilar hafi samþykkt að það ætti að skera hitt niður sem var þó búið að gefa vilyrði fyrir. Mér finnst mjög aumt, frú forseti, að grípa til þess að skera niður þau fyrirheit sem gefin voru við 1. umr. og í frumvarpinu, tæpar 400 millj. kr. til að hækka tekjutryggingu hjá elli- og örorkulífeyrisþegum og um 100 millj. kr. til starfsendurhæfingar.

Eitt vekur líka athygli. Mikið er búið að ræða um brýna þörf fyrir hjúkrunarheimili og elliheimili, en þess sér takmarkað stað nú við 2. umr., þ.e. það átak sem um hefur verið rætt að þyrfti að gera á þeim vettvangi.