132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[12:24]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér er náttúrlega um heimsmet að ræða. Hv. þingmaður hélt ræðu í rúmar 47 mínútur og gat ekki gert grein fyrir tillögum Samfylkingarinnar í sparnaði í ríkisrekstri. Þetta kalla ég að fara illa með tímann í ræðustól Alþingis, ég verð að segja það, hæstv. forseti.

Nettóáhrif í skattahækkunum Samfylkingarinnar frá frumvarpi ríkisstjórnarinnar eru 2.250 millj. kr. Það ætla þeir að taka úr vösum skattborgara hér á landi, en þeir lofuðu fyrir síðustu kosningar skattalækkunum á flestöllum fundum sem þeir sóttu. Síðan tala hv. þingmenn um að auka eigi aðhald í ríkisfjármálum, þvílík óstjórn. Svo koma hv. þingmenn með heilar 3.168 milljónir sem þeir leggja til að útgjöld ríkissjóðs verði aukin. Þvílík ábyrgð flokks sem breytir um stefnu á tveggja mánaða fresti í skattamálum. En það er svo sem ekki í fyrsta skipti og ég kalla eftir yfirliti um það hvar þeir ætla að spara, hv. þingmenn, í ríkisrekstri.