132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[12:32]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er leitt hversu stuttur tími er hér til andsvara vegna þess að hv. þingmaður Einar Oddur Kristjánsson hafði greinilega miklu meira að segja en hann kom að á einni mínútu. (Gripið fram í.) Já, vonandi bætir hann úr því þegar hann heldur ræðu sína hér á eftir og þá getum við haldið áfram skoðanaskiptum.

Frú forseti. Það er ánægjulegt að hv. þingmaður Birkir J. Jónsson er aðstoðarmaður minn hér við tímatökuna. (Gripið fram í: Veitir ekki af.) En, frú forseti, það er eðlilegt að við gerum ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs geti orðið mun meiri vegna þess að við sáum það á þessu ári með þeim gífurlega búhnykk sem skilaði sér í þensluástandinu sem nú er að ýmsir telja að það haldi áfram á næsta ári. Þetta er því auðvitað hluti af því, hv. þingmaður, sem ég nefndi að væri skortur á festu, það er áætlunargerðin. Hún er því miður í svo litlum tengslum við raunveruleikann og hv. þingmaður á að þekkja þetta býsna vel vegna þess að það er ekki bara það að tekjurnar standist ekki, þær eru yfirleitt áætlaðar of lágar, heldur er það líka það — sem er ekki síður alvarlegt — að útgjöldin standast aldrei og þau hækka og hækka og það er áhyggjuefni, hv. þingmaður.