132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[12:33]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Að vanda voru náttúrlega engin svör frá hv. þingmanni, það kom ekki á óvart.

Hann sagði að það vantaði langtímastefnumörkun í ríkisfjármálin. Veit hann ekki að sú langtímastefnumörkun hefur verið í ríkisfjármálunum að hafa hér 2% aukningu á samneyslu og 2,5% aukningu í millifærslum? Það hefur staðist núna í tvö ár og þriðja árið er að líða og meiningin er sú að halda því áfram næstu þrjú árin.

Skýri hann fyrir mér, virðulegi forseti, hvernig á að auka baráttu ríkisins gegn verðbólgu með því að hafa meiri afgang á ríkisfjármálunum með því að taka 3 milljarða og hætta við að millifæra þá og segja svo að það sé 3 milljörðum meiri afgangur. Þetta er nú barbabrella sem hefur ekki sést lengi og það verður gaman að heyra hvers konar barátta þetta verður fyrir verðbólgunni.