132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[12:36]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að það að halda aftur af samneyslunni skiptir auðvitað gífurlegu máli. En ég vek nú athygli á því að tillögur okkar ganga í báðar áttir og mismunurinn er það sem skiptir máli. Og auðvitað er það þannig þegar stjórnarandstaða leggur fram breytingartillögur við fjárlagafrumvarp þá er að sjálfsögðu ekki hægt að fara í hvert einasta smáatriði. Hins vegar er fyrst og fremst um stefnumörkun að ræða, það eru dregin upp ákveðin plögg um það hvaða áherslur menn vilji leggja. Okkar megináhersla er þessi: Við viljum skila meiri afgangi af ríkissjóði en stjórnarflokkarnir vegna þeirrar stöðu sem við erum í í efnahagslífinu og þá skiptir auðvitað máli að það séu notaðar þær aðferðir sem hægt er að nota. En þarna skiptir mestu, svo að ég endurtaki það nú enn einu sinni, að sýndur sé agi í þessum málum. Það skiptir máli hvernig farið er með fjármunina. Það er ekki nóg, þrátt fyrir að við búum við þensluástand og fjármagnið streymi inn, að láta það allt streyma jafnóðum út aftur. Það er auðvitað freistandi þegar aðstæður eru þannig (Forseti hringir.) en við slíkar aðstæður má ekki sýna þvílíkt agaleysi.