132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[12:38]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti 2. minni hluta fjárlaganefndar. Ég leyfi mér að vísa til talna sem lúta að fjárlagafrumvarpinu í heild sinni og hvernig það kemur tölulega nú til 2. umr. og hefur verið gerð grein fyrir hér í máli hv. formanns fjárlaganefndar, Magnúsar Stefánssonar. Ég er fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í fjárlaganefnd.

Ef við víkjum að nefndarálitinu er það nú svo að í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2006 og breytingartillögum hennar og meiri hluta fjárlaganefndar kemur skýrt fram stefna ríkisstjórnarinnar í þeim málaflokkum sem ríkisvaldið ber ábyrgð á. Fram kemur hvernig ríkisstjórnin ætlar að afla tekna og hún leggur til með tillögum sínum hvernig þeim skuli ráðstafað á einstaka málaflokka og verkefni. Þegar fjárlagafrumvarpið er skoðað í heild sinni kemur greinilega fram sá munur sem er á áherslum núverandi meiri hluta annars vegar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hins vegar.

Íslenskt samfélag á að einkennast af jöfnuði, frelsi, fjölbreytni og ríkri samkennd. Framtíðarsýn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er sú að allir fái notið sín á eigin forsendum í samfélagi þar sem samhjálp, virðing og velferð ríkir. Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks stefnir þjóðinni í auðhyggjusamfélag þar sem skammtímaarður og peningalegur mælikvarði er í auknum mæli lagður á allt og alla.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á velferð og jöfnun lífskjara. Skattkerfinu á að beita til að afla hinu opinbera nægjanlegra tekna til að standa undir samneyslu þjóðfélagsins og öflugu velferðarkerfi. Skattastefnan á að fela í sér tekjujöfnun og að byrðum sé dreift með sanngjörnum hætti. Stefna núverandi ríkisstjórnar, ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í skatta- og velferðarmálum stefnir í þveröfuga átt.

Ef við lítum á efnahagsforsendur þessara fjárlaga þá fylgir frumvarpi til fjárlaga greinargerð fjármálaráðuneytisins um þróun helstu stærða í þjóðarbúskapnum. Þær forsendur sem fjármálaráðuneytið lagði af stað með í frumvarpi til fjárlaga hafa breyst verulega hvað varðar gengisvísitöluna og áætlaðan viðskiptahalla á þessu ári. Gert var ráð fyrir að gengisvísitalan yrði um 125 stig á árinu 2005 í forsendum fjárlaga þegar við samþykktum þau fyrir ári síðan en nú er hún rétt rúmlega 100 stig og ef litið er á meðaltal ársins fer hún líklega að nálgast 110.

Ljóst var að viðskiptahallinn yrði verulegur á árinu. Í skýrslu fjármálaráðuneytisins um þjóðarbúskapinn í janúar síðastliðnum er áætlað að viðskiptahallinn verði 103 milljarðar kr. á árinu. Í skýrslu frá því í október síðastliðnum er þessi áætlun komin í 128 milljarða kr. Þá má nefna að í hagspá Landsbankans frá því í september, sem bar yfirskriftina Ógnarjafnvægi efnahagsmála, er gert ráð fyrir að viðskiptahallinn verði 132 milljarðar kr. á þessu ári, þ.e. um 30 milljörðum meiri en gert var ráð fyrir í forsendum fjárlaga og í áætlunum fjármálaráðuneytisins í upphafi árs. Og þetta ár er ekki enn liðið þannig að við eigum eftir að sjá hver endanlegur viðskiptahalli verður. Í áætlunum fyrir næsta ár er gert ráð fyrir að gengisvísitala verði um 114 sem er allsendis óvíst að náist og ef við tökum mið af hvernig gengisvísitöluspár hafa staðist á undanförnum árum getum við lítt vænst þess að þessi spá rætist miðað við óbreytta stjórn efnahagsmála.

Á árinu 2004 var gert ráð fyrir að gengisvísitalan væri liðlega 130, reyndist síðan í kringum 120 og í forsendum fyrir þetta ár var gert ráð fyrir að gengisvísitalan væri 124, reynist nálægt 110, þannig að við sjáum hvernig þessar grunnforsendur efnahagslífs og atvinnulífs þjóðarinnar standast, sem er verulegt áhyggjuefni.

Það er áætlað að viðskiptahallinn verði á næsta ári 12,2% af landsframleiðslu sem er alveg ískyggilega hátt og efnahagssérfræðingar, m.a. Seðlabankans, hafa varað alvarlega við þessari þróun. Útflutningsgreinarnar, sjávarútvegurinn, ferðaþjónustan, nýsköpunin og hátæknigreinarnar berjast nú við verstu hamfarir af mannavöldum sem er efnahagsstefna núverandi ríkisstjórnar. Ruðningsáhrif stóriðjustefnunnar, skattalækkanir á hátekjufólki, allt birtist þetta í ofurgengi krónunnar, gífurlegri skuldasöfnun þjóðarbúsins og heimilanna, háum stýrivöxtum Seðlabankans og miklum viðskiptahalla þjóðarbúsins. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lögðu fram nú á haustþingi sem fyrsta mál sitt þingsályktunartillögu um aðgerðir til að tryggja efnahagslegan stöðugleika og fylgir hún þessu nefndaráliti sem fylgiskjal og verður nánar vikið að helstu atriðum hennar síðar.

Frú forseti. Það er alveg ljóst að eitt brýnasta mál í stjórn efnahagsmála og fjármála ríkisins nú er að skipa þeim málum með þeim hætti að útflutningsgreinarnar geti búið við samkeppnishæft gengi, að atvinnulífið geti búið við samkeppnishæf vaxtakjör. Það gengur ekki að vaxtamunur hér á landi, sem birtist m.a. í stýrivöxtum Seðlabankans og í lánum erlendis, sé um 7,5%. Slíkt efnahagsástand getur ekki gengið, enda hafa líka fulltrúar úr hverri atvinnugreininni á fætur annarri komið fyrir nefndir þingsins og tjáð að fari fram sem nú horfir, óbreytt staða efnahagsmála, muni mörgum fyrirtækjum enn, sérstaklega í útflutningsgreinunum, verða lokað eða dregið úr starfsemi þeirra og ekki styrkir það viðskiptahallann ef útflutningsgreinarnar verða að draga saman. Þess eru nú aðeins að byrja að sjást merki að verðmæti útflutningsins er einmitt að dragast saman eða eykst ekki með þeim hætti sem vænst var og aukning viðskiptahallans stafar einnig af því.

Fjárlagafrumvarpið er lagt fram og unnið á efnahagsforsendum fjármálaráðuneytisins og fellur að stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum og mótast af væntingum hennar. Eins og hér hefur áður verið bent á hafa ýmsar grunntölur þeirra væntinga á undanförnum árum verið í takmörkuðum takti við raunveruleikann en fjárlaganefnd hefur litla möguleika til að leita annarra viðhorfa eða meta öryggi efnahagsforsendna fjármálaráðuneytisins.

Aðstæður fjárlaganefndar til að meta á sjálfstæðan hátt forsendur útgjalda og tekjuhlið frumvarpsins hafa versnað stórum á undanförnum árum. Æ erfiðara hefur reynst að fá nauðsynlegar upplýsingar úr ráðuneytum um stöðu stofnana og verkefna og forsendur að baki einstakra tillagna í frumvarpinu. Í ljósi þess hve erfitt hefur reynst að fá upplýsingar er brýnna nú en nokkru sinni fyrr að styrkja stöðu þingsins og nefnda þess, ekki hvað síst sem lýtur að fjárlagavinnu og fjárlagagerð, framkvæmd fjárlaga og áætlanagerð og stefnumótun í efnahagsmálum. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa ítrekað lagt til á Alþingi að stofnuð yrði sérstök efnahagsskrifstofa þingsins, sem starfaði sjálfstætt á ábyrgð þingsins, sem gæti lagt sjálfstætt mat á stöðu og þróun efnahagsmála og fjármála ríkisins og verið þingmönnum og nefndum þingsins til ráðuneytis um mat og tillögugerð í þeim efnum.

Samkvæmt 42. gr. stjórnarskrárinnar skal, þegar Alþingi er saman komið, leggja fram frumvarp til fjárlaga fyrir fjárhagsárið sem í hönd fer. Fjármálaráðherra leggur frumvarpið fram fyrir hönd framkvæmdarvaldsins á fyrsta degi þingsins að hausti. Eftir það er frumvarpið á ábyrgð þingsins og fer til fjárlaganefndar sem vinnur það áfram til 2. og 3. umr. eins og þingsköp kveða á um. Nefndin hefur því aðeins tæpa tvo mánuði til að fara yfir frumvarpið, forsendur tekna og gjalda og gera á því þær breytingar sem fjárlaganefnd og Alþingi telja nauðsynlegar. Þegar tekið er mið af því hvernig samþykkt fjárlög hafa staðist á undanförnum árum og þeim breytingum sem gerðar hafa verið, t.d. með fjáraukalögum, er ljóst að frávikin eru allt of mikil. Á síðustu fimm árum hafa gjöldin að meðaltali verið 10% umfram heimildir fjárlaga eða alls um 119 milljarðar kr. Á árinu 2004 voru tekjur 21 milljarður umfram áætlanir fjárlaga og gjöldin 25 milljörðum hærri en heimildir fjárlaga sögðu til um. Fjárlög gerðu þá ráð fyrir að tekjuafgangur yrði tæpir 7 milljarðar kr. en raunin varð 2 milljarðar.

Frú forseti. Þetta eru allt of mikil frávik í svo veigamiklum þætti í stjórn efnahagsmála og öflun tekna og ráðstöfun fjár ríkisins að óviðunandi er. Ríkisendurskoðun hefur bent á það í skýrslum sínum um framkvæmd fjárlaga að allt of margir fjárlagaliðir hafi safnað upp verulegum halla á undanförnum árum. Annar minni hluti leggur áherslu á að til fjárlagagerðarinnar sé vandað og framkvæmdarvaldið virði lögin og fari ekki fram úr fjárheimildum. Ef rekstrarforsendur breytast og framkvæmdarvaldið sér fram á að fjárheimildir dugi ekki fyrir rekstrinum verður að tryggja að beiðnir um aukafjárveitingar séu lagðar fyrir Alþingi eins og lög kveða á um áður en til útgjalda er stofnað. Því skiptir máli að fjárlagagerðin sé vönduð og gjöld til einstakra stofnana og verkefna ákveðin í samræmi við það sem vænst er af viðkomandi stofnunum en ekki reynt að ljúka fjárlagagerðinni með einhverri ímyndaðri stöðu sem getur fyrir suma litið vel út á pappírnum, sérstaklega fyrir fjármálaráðherrann sem er að reyna að loka fjárlagafrumvarpinu á sléttum tölum, en reynist svo óraunhæf þegar til kastanna kemur og veldur stofnunum ómældum erfiðleikum í starfsemi sinni. Síðan er fyrirsjáanlegur fjárskortur dreginn að landi í fjáraukalögum en slíkt eru óviðunandi vinnubrögð eins og ég hef áður gert að umtalsefni á þingi.

Ég hef lagt til á Alþingi að fjárlagavinnan verði stórlega bætt. Fjárlaganefnd verði gefinn lengri tími til að vinna í fjárlögunum og fjárlagagerðinni, fara ofan í rekstrarforsendur ýmissa stofnana og verkefnaliða og reynt þannig að leggja fram raunhæf fjárlög. Síðan yrðu gerð fjáraukalög að vori þegar ljóst væri hvaða breytingar þingið hefði gert með nýjum lagasetningum eða öðrum stjórnvaldsákvörðunum sem krefðust fjármagns eða breyttu tekjuforsendum og þá væru fjárlögin endurskoðuð og síðan aftur að hausti. Þannig væri þetta í ásættanlegu þinglegu formi.

Ef við lítum á stöðu efnahagsmála hefur hvað eftir annað komið fram síðustu mánuðina, sérstaklega hjá fulltrúum atvinnulífsins, að hin gríðarlegu ruðningsáhrif stóriðjuframkvæmdanna og stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar birtast í hinum ýmsu formum. Þar bætir á skattastefnan þar sem stefna ríkisstjórnarinnar er sú að lækka skatta á þeim sem hafa hæstar tekjurnar og auka kaupmátt þeirra, frú forseti. Ég vek athygli á því að þegar talað er um að kaupmáttur hafi aukist þá er í stórum dráttum verið að tala um meðalkaupmátt. Við vitum öll að tekjur sumra hópa í þjóðfélaginu hafa hækkað gífurlega og kaupmáttur þess fólks hefur vaxið gríðarlega. En við vitum jafnframt að stórir hópar þjóðfélagsins hafa ekki fengið tilsvarandi tekjuhækkanir og þess vegna hefur kaupmáttur þeirra eða kaupgeta alls ekki vaxið með sama hætti og þessara hátekjuhópa. Þegar verið er að tala um meðaltöl í kaupmætti og kjörum þá eru menn að segja ósköp lítinn sannleika.

Einu sinni var ágætur skólastjóri sem ég var í skóla hjá að kenna okkur bókfærslu og bókhald og þessi skólastjóri sagði einmitt: Ef þið ætlið að segja ósatt eða gera sannleikann blendinn skuluð þið tala í meðaltölum og prósentum því að í fáu er fólgin meiri blekking en þegar verið er að gefa lýsingu á einhverju ástandi með meðaltalstölum eða prósentureikningi. Hvernig er málflutningur ríkisstjórnarinnar á þinginu? Jú, talað er um að meðalkaupmáttur, meðaltekjur, meðalráðstöfunartekjur hafi hækkað svo og svo mikið. Já, það er mikill sannleikur fólginn í því. En ætli því fólki sem er með lægstu tekjurnar finnist það vera á þessu meðaltali sem ríkisstjórnin gumar af að hafi hækkað svo á síðustu árum og sé mælikvarði um batnandi og góð lífskjör? Nei, frú forseti, meðaltölin eru notuð þegar menn vilja blekkja. Þegar menn vilja komast hjá því að sannleikurinn birtist í sinni réttu mynd þá nota þeir meðaltöl, tala um meðalkaupmátt, meðalhækkun ráðstöfunartekna o.s.frv. Þetta veit þjóðin, að bilið á milli þeirra sem hafa miklar tekjur og lágar tekjur hefur vaxið gríðarlega á síðustu árum.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur ítrekað bent á erfiða stöðu útflutningsgreinanna og ferðaþjónustunnar vegna allt of hás gengis krónunnar og jafnframt blasi við að sívaxandi viðskiptahalli með tilheyrandi skuldasöfnun geti ekki gengið til lengdar. Á innan við ári hefur störfum í sjávarútvegi fækkað um 500. Útflutnings- og samkeppnisiðnaðurinn bregst við með því að leggja niður starfsemi eða flytja hana úr landi. Talsmenn atvinnulífsins vítt og breitt um landi, sem og þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hafa ítrekað bent á þá hættu sem ruðningsáhrif stóriðjunnar hefðu á hagkerfið og aðrar atvinnugreinar í landinu væri gengið fram með þeim hætti sem ríkisstjórnin ætlaði sér og hefur gert. Samþjöppun í stóriðjuframkvæmdum mundi stefna efnahagslegum stöðugleika í voða. Ruðningsáhrifin koma nú fram í erfiðleikum í sjávarútvegi. Þá hefur ríkisstjórnin, þvert ofan í viðvaranir hagfræðinga, ýtt undir þensluna með skattkerfisbreytingum sem koma langbest við þá efnameiri og auka þannig enn á misskiptinguna í þjóðfélaginu.

Allt var þetta fyrirséð. Hagfræðingar Seðlabankans bentu á það fyrir ári síðan að gengi sú efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar fram sem þá var boðuð leiddi hún til gríðarlegrar hækkunar gengisins, skuldasöfnunar erlendis og misskiptingar í kjörum fólks. Allt þetta er að ganga eftir, kannski ívið þyngra en spáð var á þeim tíma.

Á síðustu tveimur árum hefur allt efnahagskerfið tekið miklum breytingum. Bankarnir keppa nú við Íbúðalánasjóð um lánveitingar vegna húsnæðis og vaxtakjör hafa batnað verulega, þó að enn vanti upp á að Íslendingar njóti sambærilegra kjara og bjóðast annars staðar á Norðurlöndum. Þessi breytta staða hefur orðið til þess að verulegur hluti af einkaneyslunni hefur verið fjármagnaður með lánum. Því er rétt að fá það fram hjá hæstv. fjármálaráðherra hversu mikið er áætlað að skatttekjur ríkisins lækki þegar einkaneyslan, þegar efnahagsbúskapurinn verður eingöngu borinn uppi af rauntekjum. Þegar viðskiptahallinn verður kominn niður í núll, þegar efnahagsástandið verður komið í jafnvægi, hve stór hluti tekna ríkisins er þá eftir, hverjar verða tekjur ríkisins þá af þeim föstu tekjustofnum sem við viljum í raun að ríkissjóður hafi? Því það getur ekki verið nein óskastaða að aðaltekjustofn ríkisins sé viðskiptahallinn og þenslan.

Hv. þingmaður og formaður fjárlaganefndar, Magnús Stefánsson, var einmitt að guma af auknum tekjum ríkissjóðs á síðustu mánuðum. En í hverju er sú aukning fólgin? Jú, það er aukning, það eru skattar á innflutnings, á neyslu, á viðskiptahallann. Og þó að það sé gott að fá fleiri krónur í ríkiskassann getur það ekki verið neitt efnahagslegt gleðiefni að viðskiptahallinn sé að vaxa og hann sé að verða aðaltekjustofn ríkissjóðs. Mér finnst það ekki gleðiefni, frú forseti, að staðan sé slík að því meiri sem viðskiptahallinn er, því meiri sem þenslan er, því meiri tekjur komi í ríkissjóð og þess vegna sé það fagnaðarefni fyrir ríkissjóð að fá tekjur inn með þeim hætti.

(Forseti (JBjart): Forseta leikur forvitni á að vita hvort hv. þm. Jón Bjarnason eigi mikið eftir af ræðu sinni.)

Frú forseti. Það er drjúgur kafli eftir en ef forseti er að huga að matarhléi hentar það prýðilega núna.

(Forseti (JBjart): Forseti hefur hitt á rétta augnablikið í ræðu þingmannsins og þá verður gert hlé á þessum fundi til klukkan hálftvö.)

Forseti er næmur á stöðu mála.