132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:24]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í svo stuttu andsvari er auðvitað ekki hægt að koma að öllum þeim atriðum sem hefði þurft að gera þannig að ég ætla ekki að eltast við hinar miklu rangfærslur hv. þingmanns varðandi þær tölur sem snúa að tillögum okkar því að þær sneru eiginlega allar á haus.

Ég ætla hins vegar að vekja athygli á að hv. þingmaður nefndi hér tvö atriði sem eru mjög athyglisverð, þ.e. er lausung í launamálum og einkaframkvæmd við Háskólann á Akureyri, rannsóknarhúsið þar. Þessi tvö mál heyra undir tvo hæstv. ráðherra, annars vegar hæstv. ráðherra Geir H. Haarde, sem nú er utanríkisráðherra en var fjármálaráðherra, sem hefur væntanlega haft forustu um lausung í launamálum. En hitt heyrir undir hæstv. núverandi dómsmálaráðherra, þáverandi menntamálaráðherra, Björn Bjarnason, þ.e. sú einkaframkvæmd sem framkvæmd var á Akureyri. Þetta hvort tveggja, hv. þingmaður, heyrir undir þína samflokksmenn og ég veit ekki betur, hv. þingmaður, en að þú hafir ætíð staðið á bak við þessa hæstv. ráðherra og því er spurningin þessi: Er sá tími liðinn að þú styðjir þína menn til þessara verka?

(Forseti (DrH): Ég áminni hv. þingmann um að nota rétt ávarp.)