132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:27]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef aldrei orðið var við að stjórnarandstaðan á Íslandi á umliðnum árum hafi nokkurn tíma komið upp að hliðinni á mér og sagt að hún væri sammála mér, aldrei nokkurn tíma lýst yfir neinni samstöðu þegar ég hef verið að vara við launaþróuninni. Aldrei. Síðast í fyrra vildi góð stétt mikils ágætisfólks, sem heitir kennarar, fá launahækkanir umfram aðra. Ég varaði við því, sagði að það væri ekki hægt. Ég stóð einn þar. Stjórnarandstaðan hefur alltaf alið á þessu öllu saman. Að hún hafi nokkurn tíma komið fyrir fram og viljað vera ábyrg í að vara menn við þessu. Aldrei nokkurn tímann eitt aukatekið orð, ekki hósti eða stuna. Eftir á koma þeir og segja: Nei, við vorum þarna hvergi. En að hafa nokkurn tíma tekið ábyrga stöðu og ábyrga afstöðu meðan það var hægt, nei. Þess minnist ég ekki.