132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:32]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni var mjög tíðrætt um þessa einkaframkvæmd og stöðu Háskólans á Akureyri þar sem einhver vinafasteignafélög eru fengin til að byggja í einkaframkvæmd og síðan er ríkið látið borga. Ég minni á að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs vorum á móti þessari tilhögun. Við töldum eðlilegra að ríkið byggði sjálft þetta hús.

Annað sem hv. þingmaður studdi líka var Sóltúnssamningurinn, samningurinn við elliheimilið Sóltún og það er greitt margfalt meira á vistmann á Sóltúni en á öðrum elliheimilum. Það studdi hv. þingmaður. Er hann reiðubúinn nú til að segja upp þessum samningum og koma þeim á eitthvert vitrænt form? Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að svona samningagerð af hálfu ríkisins er ekki í samræmi við lög um fjárreiður ríkisins. (Forseti hringir.) Ætlar hv. þingmaður að láta sitja við orðin tóm eða ætlar hann að láta gjörðir fylgja?