132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:37]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá hefur hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson flutt sitt árlega neyðaróp til stjórnarandstöðunnar með ósk um að stjórnarandstaðan komi honum til aðstoðar til að koma vitinu fyrir ríkisstjórnina. Hann hefur nú flutt ræðu sína enn og aftur á svipaðan hátt og hv. þingmaður hefur gert undanfarin ár nema í ræðuna vantaði núna hefðbundinn kafla um gengisþróun. Ég hef áhuga á því að spyrja hv. þingmann um þann kafla, virðulegi forseti, vegna þess að í opnu hagkerfi er það tvennt sem skiptir máli og menn geta skipt sér af varðandi gengismálin. Það eru annars vegar vextir Seðlabankans og hins vegar afkoma ríkissjóðs. Nú erum við að tala við varaformann fjárlaganefndar sem aldeilis hefði getað beitt sér til að tryggja öfluga og mikla aðkomu ríkissjóðs sem væri í takt við það sem bankarnir hafa kallað eftir, t.d. 4% landsframleiðslu. Hvar kom hv. þingmaður að því að tryggja aðkomu ríkissjóðs í takt við það sem bankarnir og aðrir hafa kallað eftir til að koma í veg fyrir þá gengisþróun sem við höfum horft upp á og hvar var kaflinn um gengisþróunina í ræðu hv. þingmanns?