132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:42]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Það frumvarp til fjárlaga ársins 2006 sem við ræðum hér sýnir gríðarlega sterka stöðu ríkissjóðs. 20 milljarða kr. afgangur á næsta ári, 105 milljarða kr. afgangur á þessu ári sýnir náttúrlega að ríkisstjórnarflokkarnir hafa náð ótrúlegum árangri í ríkisfjármálum þau tíu ár sem það samstarf hefur varið.

Það er miður að hlusta ár eftir ár á þingmann Vinstri grænna sem situr í hv. fjárlaganefnd Alþingis, hv. þm. Jón Bjarnason, tala um niðurskurð ríkisstjórnarinnar í velferðarmálum. Þrátt fyrir að ríkisstjórnin sé að skila þessum gríðarlega afgangi þá er það staðreynd mála að aldrei höfum við varið jafnmiklum fjármunum til velferðarmála, til félagsmála og til menntamála. Samt staglast hv. þm. Jón Bjarnason á því að ríkisstjórnin sé með niðurskurð þessum málaflokkum. (JBjarn: Hún er með niðurskurð.) Svona er umræðunni snúið á haus og í raun er ámælisvert að hv. þingmaður skuli leyfa sér að tala með þeim hætti vegna þess að íslenskri þjóð vegnar vel. Í alþjóðlegum samanburði hefur kaupmáttaraukning íslenskra heimila verið 60% og nær hvergi meiri en hér á landi ef við miðum við þau lönd sem við berum okkur saman við. Þetta er árangur sem hefur náðst á síðustu tíu árum. Vanskil heimilanna hafa aldrei verið minni. Vanskil fyrirtækjanna hafa aldrei verið minni. Við höfum því verið að ná mjög miklum árangri á þessu sviði.

Hæstv. forseti. Ég hefði haldið að það ætti að kæta hv. þm. Jón Bjarnason að núverandi ríkisstjórn hefur staðið vörð um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Veittir hafa verið tugir milljarða inn í þann lífeyrissjóð á 10 árum. Árið 1995 blasti gjaldþrot við þessum sjóði sem á að framfleyta ríkisstarfsmönnum á efri árum og fram undan virtust miklir erfiðleikar rétt eins og margar aðrar Evrópuþjóðir glíma við.

Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin hefur ekkert verið að reyna að fegra mynd fjárlaga. Við höfum lagt tugi milljarða, sem koma ekki fram í tekjuafgangi ríkissjóðs, inn í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins til að varðveita þá velferð fyrir framtíðina og hér er ekki með einum eða neinum hætti verið að fegra þá stöðu sem nú er í fjármálum ríkisins.

Hæstv. forseti. Af hverju þessi árangur? Stjórnarandstaðan hefur mátt eiga það að hún hefur verið sammála um eitt atriði í andstöðu sinni á síðustu tveimur árum. Hún hefur verið sammála um stjórn fiskveiða, að menn ættu að fyrna þær veiðiheimildir sem útgerðin í landinu hefur. En nú brá svo við, hæstv. forseti, á dögunum að hv. formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sagði í ræðu hjá íslenskum útvegsmönnum að Samfylkingin vildi sátt við sjávarútveginn. Gott og vel. Ég fagnaði þeirri yfirlýsingu hv. þingmanns.

Ég lenti svo í umræðum hér vikuna á eftir við hv. þm. Jóhann Ársælsson, þingmann Samfylkingarinnar og forustumann samfylkingarþingmanna í Norðvesturkjördæmi, og ég spurði hann út í þetta mál. Hv. þingmaður talaði þá fyrir fyrningarleiðinni enda hefur hann gert það í gegnum árin og Samfylkingin gerði það fyrir síðustu kosningar. Það er alveg augljóst að hv. formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefur ekki rætt þetta innan sinna raða og það er með Samfylkinguna í því máli eins og mörgum öðrum að menn vita ekkert hvert hún stefnir. Það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir stjórnarandstöðuna að samhljómurinn, eini samhljómurinn sem við höfum heyrt í málflutningi hennar innan þings, um sjávarútvegsmálin skuli ekki lengur vera fyrir hendi.

Við höfum jafnframt verið að byggja upp atvinnu á vettvangi stóriðju á Austurlandi og á Vesturlandi og það hefur fleytt okkur fram veginn, stóraukið atvinnu í landinu, enda búum við við eitt minnsta atvinnuleysi í Evrópu. Stærsti hluti stjórnarandstöðunnar verður að sitja uppi með það að hann gat ekki stutt þær framkvæmdir sem nú eiga sér stað á Austurlandi og eru ástæðan fyrir miklum uppgangi og mikilli bjartsýni. Þetta eru þeir þættir, fiskveiðistjórnunin og atvinnustefna núverandi ríkisstjórnar, sem hafa valdið því að kjör landsmanna og kjör ríkissjóðs hafa batnað með þeim hætti sem ég hef áður rakið.

Hv. þingmenn Vinstri grænna og jafnvel Samfylkingarinnar tala um að þeir 4 milljarðar sem við ætluðum að verja til lækkunar á tekjuskatti, eins og við lofuðum fyrir síðustu kosningar, leiði til óðaverðbólgu í samfélaginu og óðaþenslu, þetta eru heilir 4 milljarðar. Að auki ætlum við að leggja fram 1,2 milljarða til að auka barnabætur fyrir meðaltekjufólk og lágtekjufólk. Þessir 5,2 milljarðar eru um 0,52% af þjóðarframleiðslu. Það eru öll ósköpin. Þetta eru þeir útgjaldaliðir hjá hæstv. ríkisstjórn að stjórnarandstaðan er að fara fram á að menn gangi á svig við gefin loforð. Að við göngum á svig við það loforð sem við gáfum öllum almenningi fyrir síðustu kosningar, og Samfylkingin reyndar líka, um að lækka skatta. En á sama tíma og þessir hv. þingmenn gagnrýna útgjöld upp á 5,2 milljarða, sem eru til lækkunar á sköttum almennings í landinu, leggja þeir sjálfir til milljarða kr. útgjaldatillögur hægri og vinstri. Þær streyma inn í þingsalinn, hver tillagan á fætur annarri, og alveg ljóst að ábyrgðarleysi stjórnarandstöðunnar í ríkisfjármálum er algert.

Mig langar að gera að umtalsefni hér hina ábyrgu stefnu Samfylkingarinnar í skattamálum og það framlag til stöðugleikans sem kemur fram í tillögum hennar. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson hélt ræðu í rúmar 47 mínútur og gat ekki gert grein fyrir því hvar Samfylkingin ætlaði að bera niður í niðurskurði í velferðarmálum. Þær tillögur eru almennt orðaðar og það er í takt við talsmáta Samfylkingarinnar í mörgum öðrum málum að það er viðkvæmt að bera niður á einstaka málaflokka og viðkvæmt að koma með tillögur vegna þess að flokkurinn gæti orðið óvinsæll fyrir vikið og það er ekki vinsælt í herbúðum Samfylkingarinnar að fara í óvinsælar aðgerðir.

En ég vil leiðrétta þann málflutning minn sem ég viðhafði í andsvari í dag við hv. þm. Einar Má Sigurðarson um að Samfylkingin væri með tillögur til nýrra útgjalda upp á 3.168 millj. kr. Rétt skal vera rétt og það er víst aldeilis ekki rétt. Útgjaldatillögur Samfylkingarinnar streyma inn í salinn og eru nú orðnar 3.759 millj. kr. Ég ætla svo sem ekki að bera ábyrgð á þeirri tölu fram á kvöldið, hún gæti átt eftir að hækka. Stefnufesta Samfylkingarinnar í útgjaldamálum ríkisins er slík að sú tala hefur stundum hækkað í miðri umræðu. Ég vil til að mynda nefna að í umræðu um skattamál fyrir um tveimur árum var Samfylkingin allt í einu inni á því að fella niður eignarskattinn að hluta. Samfylkingin hefur komið með þessar útgjaldatillögur þrátt fyrir málflutning m.a. forustumanna Samfylkingarinnar við 1. umr. um að það ætti að tvöfalda fjárlagaafganginn og óráðsía ríkisstjórnarinnar væri þvílík í fjármálum ríkisins að það yrði að hemja útgjöldin. Samt koma þessir hv. þingmenn með útgjaldatillögur og tillögur til skattahækkana, útgjaldatillögur upp á 3 milljarða og 759 millj. kr. og hvar ætla þau að fá þessa fjármuni? Eins og ég sagði áðan með því að hækka skatta, hækka skatta á atvinnulífið um 400 millj. kr. Vinstri menn hafa verið þekktir fyrir að vera ekki neinir sérstakir vinir atvinnulífsins og hér sýnir Samfylkingin vinstri vangann með því að hækka skatta á íslenskt atvinnulíf um heilar 400 millj. kr.

Það er merkilegt að hlusta á tal samfylkingarmanna m.a. um íslenskan sjávarútveg og þá stöðu sem hann býr við — á sama tíma leggja þeir fram tillögur um 400 millj. kr. hækkun á íslenskt atvinnulíf — og hlusta á ræður Vinstri grænna um sprotafyrirtæki og annað slíkt. Ég þykist viss um að Vinstri grænir mundu með glöðu geði hækka skatta á íslensk fyrirtæki. Ég hef ekki orðið var við mikla andstöðu á þeim bæ hvað slík áform varðar.

Hæstv. forseti. Hvað ætla svo hv. þingmenn Samfylkingarinnar að gera til viðbótar? Jú, þeir nefna loforð ríkisstjórnarflokkanna um að lækka tekjuskattinn á næsta ári um 1%. Hv. þingmenn Samfylkingarinnar leggja til að tekjuskatturinn verði ekki lækkaður. En af því að fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, er hér í salnum vil ég rifja upp að fyrir síðustu kosningar gekk Samfylkingin nokkuð djarft fram í skattalækkunaráformum og talaði um að svigrúm væri til skattalækkana. Svo koma hv. þingmenn upp nú og segja að ekki sé rétt að fara í þessar skattalækkanir og setja fram tillögur um að auka álögur á almenning í landinu sem því nemur.

Ætti að taka upp gamla, góða hátekjuskattinn? Það er ein tillagan. Hverjir lentu í hátekjuskattinum nú á síðustu missirum? Það var aðallega ungt, menntað fólk nýkomið úr námi. Fólk sem var að koma sér þaki yfir höfuðið, koma sér upp fjölskyldu og þar fram eftir götunum, sem er kostnaðarsamt. Fólk með háar tekjur fékk nær engar vaxtabætur og engar barnabætur. Það lenti í þessum hátekjuskatti. Við lofuðum þessu fólki fyrir síðustu kosningar að við ætluðum að afnema þennan jaðarskatt íslenska skattkerfisins og við ætlum að standa við það. En Samfylkingin kemur hér með sérstaka tillögu um að taka gamla hátekjuskattinn aftur upp.

Við skulum þá, ég og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, tala við fólkið í háskólasamfélaginu, tala við það fólk sem er duglegt og er að koma sér þaki yfir höfuðið, um stefnu Samfylkingarinnar í skattamálum. Það á að skattpína þetta fólk eins og 1991–1995 þegar Alþýðuflokkurinn sálugi var við völd og hv. þm. Össur Skarphéðinsson sat í ríkisstjórn.

Hæstv. forseti. Ég geri ekkert með sýndartillögur Samfylkingarinnar í sparnaði og ég fer fram á að fá sundurliðun hvað varðar tillögur hennar um aðhald í opinberum fjármálum og í rekstri ríkisins. Fyrsta tillaga hljómar á þann veg að selja eignir utanríkisráðuneytisins upp á 900 millj. kr. Það á væntanlega að selja eitthvert sendiráð úti í löndum en er með því verið að lækka rekstur ríkissjóðs til framtíðar? Það er ekki verið að lækka rekstur ríkissjóðs til framtíðar. Einhvers staðar verður þetta blessaða fólk að vinna og væntanlega mun það kosta eitthvað í leigu og öðru slíku þannig að ég get ekki séð að það sé trúverðug tillaga að selja eignir í rekstur. Slíkt veit ekki á gott.

Samfylkingin leggur líka til að fresta yfirfærslu ónotaðra heimilda ráðuneyta frá fyrra ári upp á 3 milljarða. Hér er ekki verið að skera niður eins og Samfylkingin boðaði. Hér er einvörðungu um einhverja óljósa frestun að ræða og auðvitað hljótum við að krefjast þess að fá sundurliðun á þessum 3 milljörðum frá Samfylkingunni. Hvar vill hún bera niður í frestunum af þessu tagi? Reyndar hefur það komið fram að vanalega veltir ríkið fram yfir áramót um 20 milljörðum í ónotuðum heimildum þannig að þessi tillaga Samfylkingarinnar er einvörðungu til þess fallin að slá ryki í augu almennings vegna þess að það hefur verið hluti af rekstri ríkisins að ekki er hægt að nota allar þær heimildir sem fjárveitingavaldið setur. Hér er því einungis um sýndartillögu að ræða.

Að lokum vill Samfylkingin lækka sérfræðikostnað stofnana um heilar 900 millj. kr. Og hver er sá sérfræðikostnaður? Erum við ekki að ræða þar um heilbrigðiskerfið, menntakerfið og félagslega kerfið? Vita hv. þingmenn Samfylkingarinnar að þessi hluti sérfræðikostnaðar, sem ríkið áætlar, er stór hluti af rekstri opinberra stofnana? Hvar ætla hv. þingmenn Samfylkingarinnar að bera niður? Tillagan er almennt orðuð. Hver á að taka ákvörðun um það ef þetta verður samþykkt? Á ríkisstjórnin að ákveða hvar skorið verður niður? Nei, við hljótum að krefjast þess að Samfylkingin leggi fram útfærðar tillögur. Það er ekki endalaust hægt að tala ódýrt í þessum efnum. Nú verða tillögur að koma fram og ég krefst þess að samfylkingarmenn geri okkur nánari grein fyrir því hvar þessi niðurskurður lendir á endanum — reyndar tjáði hv. framsögumaður Samfylkingarinnar í umræðunni, hv. þm. Einar Már Sigurðarson, okkur að hv. þm. Helgi Hjörvar mundi gera okkur nánari grein fyrir því. Og við, hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans, munum krefjast þess að fá þessar upplýsingar því Samfylkingin verður, þrátt fyrir að hafa verið í stjórnarandstöðu frá upphafi, að temja sér ábyrgð og gera raunhæfar tillögur. Ekki eitthvert almennt blaður sem ekki er hönd á festandi heldur raunverulegar tillögur. Það er það sem við gerum kröfu um.

Það stendur upp úr þessari umræðu að stjórnarandstaðan á erfitt með að fóta sig vegna þess að staða ríkissjóðs er sterk. Málflutningur hennar hvað varðar fjárlög íslenska ríkisins er út og suður. Hv. stjórnarandstaða getur ekki einu sinni komið sér saman um eitt nefndarálit, verið sammála um að koma með breytingartillögur eins minni hluta heldur er hún klofin í þeim málum. Svo segir þetta fólk við þjóðina að það ætli að ganga samhent til næstu kosninga. Þessi stjórnarandstaða getur einfaldlega ekki komið sér saman um nokkurn skapaðan hlut og það er ósköp eðlilegt að trúverðugleiki hennar í ríkisfjármálum sé lítill vegna þess að við höfum náð gríðarlega miklum árangri, um það er ekki deilt. Við skulum horfa til þeirra alþjóðlegu stofnana sem hafa verið að meta lánshæfi íslenska ríkisins, stöðu lífeyrissjóðakerfisins, stöðu almennings hér á landi og stöðu fyrirtækja. Okkur gengur vel í öllum meginatriðum. Svo leyfa hv. þingmenn, eins og Jón Bjarnason, sér að koma hér og snúa sannleikanum á hvolf og þurfa svo ekki að standa skil orða sinna — sitja hér í hliðarherbergjum og þurfa ekki að svara fyrir sig, koma með staðlausa stafi, tala um niðurskurð í heilbrigðis- og félagsmálum. Er það þannig á heimili Vinstri grænna að ef ýtrustu kröfum stofnana ríkisins er ekki fylgt þá sé um niðurskurð að ræða? Er það þannig í lífinu hjá Vinstri grænum að ef menn verða ekki við ýtrustu kröfum þá sé verið að tala um niðurskurð þó að framlög til viðkomandi málaflokks séu að stórhækka?

Hvers konar heimilishald er á heimili hv. þm. Jóns Bjarnasonar? Fá allir allt sem þeir biðja um? Ég hefði haldið að í persónulegu líferni sé hv. þingmaður frekar aðhaldssamur. En þegar kemur að peningum sem hv. þingmaður á ekki þá er hann tilbúinn að spandera og leggja fram ýmsar útgjaldatillögur.

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst að stjórnarandstaðan er út og suður í sínum málflutningi og stendur ekki steinn yfir steini. Hún getur ekki einu sinni komið sér saman um eitt nefndarálit, breytingartillögur við það frumvarp sem meiri hlutinn hefur lagt fram. Þvílík samstaða hjá stjórnarandstöðinni hér á þingi.