132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[16:01]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson er samvinnuhugsjónamaður og félagshyggjumaður. Mig langar að spyrja hann einnar spurningar og hún hljóðar svo: Hefur hann ekki áhyggjur af þeirri auknu misskiptingu sem orðið hefur í þjóðfélaginu, gríðarlegu misskiptingu? Það eru ekki bara orð okkar í stjórnarandstöðunni, því miður. Það er staðfest af fyrrum hæstv. fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, að misskipting hefur aukist gríðarlega. Af því að hv. þingmaður er félagshyggjumaður og samvinnuhugsjónamaður, eins og komið hefur fram, hefur hann þá ekki áhyggjur af því að samstaðan með Sjálfstæðisflokknum sé kannski orðin fullmikil þegar farið er að skipta tekjunum þannig upp að þeir sem hafa lágar tekjur fá alltaf minna í sinn hlut og þeir sem hafa háar tekjur fá alltaf meira? Þetta gerist á sama tíma og ríkisútgjöld aukast. Það er mjög sérstök þróun og væri fróðlegt að fá að heyra svar hv. þingmanns við þessari spurningu.