132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[16:43]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að matarverð í Evrópusambandslöndunum er nokkuð mismunandi en það á kannski fyrst og fremst eitt sameiginlegt að alls staðar er það lægra en á Íslandi. Þess vegna er mikilvægt að þetta stefnumál Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, að lækka matarskattinn, nái fram að ganga og óþolandi að lítill minni hluti á Alþingi, kallaður Framsóknarflokkurinn, skuli enn þá standa í vegi fyrir því þjóðþrifamáli.

Við viljum ekki hætta við skattalækkanir, hv. þingmaður. Það kom skýrt fram í máli mínu. Við viljum einfaldlega öðruvísi skattalækkanir. Við viljum ekki lækka hátekjuskattinn og tekjuskattinn í þessum fjárlögum. Við viljum nota þá peninga til að lækka matarskattinn og hækka persónuafsláttinn af því að það kemur þeim sem á þurfa að halda mest til góða. Hitt kemur okkur, mér og hv. þm. Drífu Hjartardóttur, helst til góða að lækka hátekjuskattinn og tekjuskattsprósentuna sjálfa. Að slíkum tillöguflutningi eigum við auðvitað ekki að standa á Alþingi í samfélagi þar sem tekjumisskiptingin hefur í sjálfu sér verið að aukast í launum á markaði ár frá ári þannig að ástæða er til að hafa áhyggjur af.

Þingmaðurinn talaði um að menn væru frjálsir að einkaneyslu sinni. Mér finnst það tal vera af nokkurri léttúð vegna þess að við höfum tamið okkur, Íslendingar, ákveðið hugarfar til skuldsetningar. Við kölluðum skuldir lengi vel lán. Við notuðum um það sama orð og heppni og glöddumst yfir því að fá slík lán. Hér er hið sama á ferðinni. Við erum að fá miklar tekjur inn í ríkissjóð af skuldsetningu, ekki af tekjum manna eða hagnaði. Umframtekjurnar í þenslunni eru vegna skuldsetningar atvinnulífs og heimila og þess vegna hefði þurft að sýna umtalsvert meira aðhald í ríkisfjármálunum á undanförnum árum en raunin er.