132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[16:49]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Hæstv. forseti. Hugur minn hvarflar einhvern veginn ósjálfrátt að 1. umr. fjárlaga frá því í haust. Það var einkar kraftmikil umræða og að mörgu leyti málefnaleg og fjallaði að mestu um efnahagsmálin og hvaða áhrif fjárlögin hefðu og ættu að hafa á stöðu efnahagsmála. Það var reyndar ekki bara, eins og minnst hefur verið á nokkrum sinnum, að nýr fjármálaráðherra mælti fyrir fjárlagafrumvarpinu heldur var líka nýr talsmaður Samfylkingarinnar í ríkisfjármálunum sem var þar í forustu fyrir Samfylkinguna. Hann flutti þar kraftmiklar ræður og taldi aðhald í fjárlögunum ekki nægjanlegt og boðaði að meira aðhald þyrfti og hann mundi leggja fram tillögur þar um upp á 14 milljarða, ef ég man rétt. Hann vildi tvöfalda afganginn sem í frumvarpinu var 14,2 milljarðar og ég gat ekki skilið annað en hann mundi við 2. umr. leggja fram tillögu um að auka afganginn um 14 milljarða.

Mér fannst þetta mjög hraustlega mælt og fannst hv. þingmaður færast talsvert mikið í fang. Ég verð að segja að ég skil hann mætavel þegar hann gerir síðan grein fyrir tillögum Samfylkingarinnar og hefur þá á orði að óraunhæft hafi verið að ætla sér að endurskrifa fjárlögin á haustdögum og ætla ég ekki að lá honum það. Það er ekkert smáræðisverkefni. En til þess höfum við frumvarpið til meðferðar á hv. Alþingi, að fara yfir það og gera þær breytingar sem við teljum réttar og skynsamlegar.

Hér liggja fyrir breytingartillögur frá hv. þingmönnum, bæði hv. þingmönnum Samfylkingarinnar og á sumum þeirra eru hv. þingmenn Vinstri grænna líka og sennilegast er hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson á flestum þeirra einnig. Ef ég mætti aðeins fara yfir þessar tillögur og kannski sérstaklega í því samhengi sem við ræddum fjárlögin við 1. umr. um áhrif þeirra á hagkerfið og þá þenslu sem við sjáum í hagkerfinu, þá mundi ég fyrst vilja fara örfáum orðum um breytingartillögur frá Vinstri grænum. Þar sýnast mér vera um að ræða tillögur um skattahækkanir upp á tæplega 5 milljarða og síðan útgjaldatillögur upp á rúmlega 4 milljarða þannig að afgangurinn, tekjujöfnuðurinn ætti að aukast um 600 millj. kr. ef niðurstaðan yrði sú að tillögur þeirra yrðu samþykktar. Mér kom það reyndar svolítið á óvart að þær tillögur skyldu koma frá Vinstri grænum, að auka afganginn og mér finnst það út af fyrir sig vera virðingarvert af þeirra hálfu þó það hafi ekki verið meira en 600 millj. kr.

Síðan eru það tillögur Samfylkingarinnar og reyndar hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar, þær sem Helgi Hjörvar kallaði í dag táknrænar tillögur sem eigi þá að vísa veginn um hvernig Samfylkingin mundi standa að málum ef hún mætti ráða. En mér finnst samt einhvern veginn að tillögur upp á — hvað er verið að breyta miklu hérna? Það er sjálfsagt verið að breyta tölum upp á um 10 milljarða þegar allt er tekið til, bæði plúsar og mínusar. Þó að maður skoði bara nettóáhrifin er það skattaaukning upp á ríflega 2 milljarða. Síðan eru það útgjaldatillögur langt í 3 milljarða og síðan ýmsar sparnaðartillögur. En þetta er hins vegar langt frá því að vera tillögur um að auka afganginn um 14 milljarða. Það felst í því að þetta eru táknrænar tillögur en þó þess eðlis að vert sé að fjalla aðeins efnislega um þær líka.

Ef við reynum að einfalda þetta aðeins til að þurfa ekki að lesa upp alla þessa liði þá sýnast mér að tekjurnar vegna skattahækkana eða tillögurnar um tekjuaukningu upp á ríflega 2 milljarða gangi meira og minna út á móti útgjaldatilefnum. Ef maður skoðar þetta í samhengi við áhrifin á hagkerfið og þensluna þá er það ekki þannig að útgjaldatillögur og tekjuaukningartillögur hafi sömu áhrif á hagkerfið. Útgjaldatillögur hvort sem það er til aukningar eða til minnkunar hafa miklu meiri áhrif á þjóðarframleiðsluna og þar með þenslu eða samdrátt heldur en tillögur á tekjuhliðinni hvort sem þær eru til minnkunar eða aukningar. Samkvæmt sumum fræðimönnum getur verið allt að fimmfaldur munur þar á. Þó að þessar tölur standist nokkurn veginn á í tillögunum hafa þær alls ekki sömu áhrif á hagkerfið. Þess vegna má gera ráð fyrir að tillögurnar til útgjaldaaukningar hafi allt að fimmföld áhrif miðað við það sem tillögurnar til skattaaukningar hafa þannig að í þessum hluta er um að ræða tillögur sem auka þensluna og ganga þvert á málflutning hv. þm. Helga Hjörvars um aukið aðhald í ríkisfjármálunum til að hafa áhrif á hagþróunina.

Nettóniðurstaðan á pappírnum er sú að afgangurinn mundi aukast um 4 milljarða. Inni í því eru líka tölur sem gætu á pappírnum virst draga úr þenslunni eða ættu að hafa slík áhrif. Þegar búið er að jafna þetta út, skattatillögurnar og útgjaldatillögurnar, standa eftir tillögur sem gætu haft nettóáhrif upp á 4 milljarða.

Annars vegar er tillaga um að selja eignir utanríkisráðuneytisins erlendis fyrir 900 millj. kr. Hvaða áhrif skyldi það hafa á hagkerfið á Íslandi, að selja eignir utanríkisráðuneytisins erlendis fyrir 900 millj.? Það mundi væntanlega … (Gripið fram í.) jú, jú, kannski hefur það engin áhrif, í besta falli hefur það engin áhrif. Ríkissjóður selur eignina erlendis og geymir peningana erlendis og borgar erlendar skuldir. Það hefur engin áhrif á þensluna innan lands. Í versta falli ef þetta væri heimildargrein og skipt yrði um ríkisstjórn einhvern tíma á miðju árinu þá gæti ný ríkisstjórn tekið peningana, komið með þá til Íslands og notað þá í aukin útgjöld ef þannig stæði á. (Gripið fram í.) Þessi tillaga upp á tæpan milljarð hefur í besta falli engin áhrif á hagþróunina, í versta falli eykur hún þensluna.

Hins vegar er tillaga um að fresta yfirfærslu ónotaðra heimilda ráðuneyta frá fyrra ári um 3 milljarða kr. Hv. þingmenn hafa talað um að alla jafna sé verið að færa 20 milljarða fjárheimildir milli ára og (Gripið fram í.) vitna til ársins 2003 og ársins 2004. Auðvitað er þetta misjafnt á milli ára og ég vitna til skýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir árið 2004, um tilfærslur frá árinu 2004 yfir á árið 2005. Það er óljóst hver þessi staða verður árið 2005 og árið 2006 en hv. þingmönnum hefur láðst að gera grein fyrir því, ég er ekki viss um að allir geri sér grein fyrir því að af þeim 20 milljörðum er hluti mínustala og hluti plústala. Afgangsheimildir á árinu 2004 sem fluttar voru yfir á árið 2005 sem þá var hægt að nota voru rétt ríflega 5 milljarðar. Þegar við skoðum töluna 3 milljarða verðum við að skoða hana í samhengi við 5 milljarða en ekki í samhengi við 20 milljarða. Þá fer maður að velta því fyrir sér að ef þetta yrði eitthvað svipað, vonandi minna, við skulum vona að jákvæð þróun verði, hvað það væri sem gæti staðið út af á árinu 2005 sem yrði þá að hætta við á árinu 2006 af heimildum sem búið er að veita og fyrirsjáanlegt væri að hægt væri að nota á árinu 2006, þ.e. sem búið er að veita á árinu 2005 og yrði flutt á milli.

Eins nákvæmt og maður getur vitað eru það aðallega þrír liðir sem tillaga hv. þingmanna Samfylkingarinnar snertir. Það eru vegaframkvæmdir, það eru menningarhús á landsbyggðinni og það er þróunaraðstoð. Þarna sjáum við hvað það er sem hv. þingmenn Samfylkingarinnar vilja leggja fram til að vega upp á móti þensluaukningunni í útgjaldatillögunum því að skattahækkunartillögur þeirra vega ekki þar upp á móti. Það eru niðurskurðartillögur upp á 3 milljarða í vegagerð, menningarhúsum á landsbyggðinni og þróunaraðstoð. Hv. þingmenn Samfylkingarinnar vilja að þetta verði skorið niður til að standa undir útgjaldaaukningunni og þenslunni sem þeir eru að skapa og leggja til með tillögum sínum.

Hæstv. forseti. Þetta heita táknrænar tillögur og hljóta því að vera til marks um hvernig staðið yrði að málum ef Samfylkingin fengi að ráða. Skorið yrði niður í vegamálum, menningarhúsum á landsbyggðinni og þróunaraðstoð.

Hv. þm. Helgi Hjörvar og reyndar fleiri hafa farið orðum um stöðu ríkissjóðs og þróun ríkisfjármálanna undanfarin ár og hafa verið að bera þar saman epli og appelsínur sem er náttúrlega mjög algengt í þessari umræðu. Fyrir menn sem ekki þekkja í sundur epli og appelsínur og komnir eru á þennan aldur er afskaplega erfitt að reyna að kenna þeim það. En fyrir aðra sem vilja reyna að glöggva sig á þessu og komast í gegnum þá þoku sem hv. þingmenn eru að reyna að skapa með þessum samanburði sínum er langsamlega einfaldast að skoða skuldastöðu ríkissjóðs og vaxtagjöld ríkissjóðs. Þróun og staða ríkisfjármálanna endurspeglast best í þeim tölum og þarf ekki frekari vitnanna við að staða ríkissjóðs er sterk og hún hefur farið mjög batnandi á undanförnum árum. Er það að þakka öruggri fjármálastjórn hæstv. ríkisstjórnar en ekki tillöguflutningi frá hv. þingmönnum Samfylkingarinnar.