132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[17:10]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Um þetta snúast ríkisfjármálin, um það hver sé hinn raunverulegi tekjugrunnur ríkissjóðs. Þess vegna leggjumst við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs m.a. gegn þeim skattalækkunum sem ríkisstjórnin berst fyrir og koma fyrst og fremst hátekjufólki til góða. Við viljum frekar að skattaívilnanir komi lágtekjufólki til góða. Þess vegna leggjum við líka til, frú forseti, að arður og hagnaður af fjármagni umfram eðlilegan sparnað sé skattlagður meira í líkingu við launatekjur en annað.

Eins og nú horfir árið 2005 og frá er tekinn söluhagnaður af Símanum og öðrum eignum þá hygg ég að fjárhagur ríkisins sé nú bara rétt að berjast í að vera í jafnvægi þrátt fyrir allar þessar þenslutekjur. (Forseti hringir.) Ég hef áhyggjur af því ef hæstv. fjármálaráðherra hefði ekki áhyggjur af tekjugrunni ríkissjóðs til framtíðar (Forseti hringir.) ef viðskiptin væru á eðlilegum grunni.