132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[17:12]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra hlý orð í minn garð og okkar í Samfylkingunni og orðin líka um tillögur okkar og treysti á stuðning hans hér við þarfar hagræðingartillögur og um hert skatteftirlit og annað það sem til framfara má horfa í ríkisrekstrinum. Eins og hæstv. ráðherra tilgreindi þá eru þessar tillögur táknrænar. Hann átti greinilega von á enn þá umfangsmeiri tillögum. Ég hlýt að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann óski hér með eftir því að Samfylkingin leggi bara fram fjárlagafrumvarp fyrir hann. Ef svo er skulum við taka þá áskorun til umfjöllunar og vita hvort við getum ekki orðið við því. Kannski á spádómur hans um að hér muni skipt um ríkisstjórn á miðju næsta ári sér einhverja stoð í reynsluheimi ráðherrans. Það voru óneitanlega orð sem vöktu athygli að hann taldi ástæðu til að gera ráð fyrir því að hér yrði skipt um ríkisstjórn á miðju næsta ári.

Óskar hæstv. fjármálaráðherra eftir því að við í Samfylkingunni semjum alveg nýtt fjárlagafrumvarp fyrir hæstv. ráðherra? Ég spyr að því.