132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[17:14]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta hlýtur að vekja sérstaka eftirtekt. Nýr hæstv. fjármálaráðherra hallmælir hér hugmyndum um að ganga harðar fram í skatteftirliti og ná í einhverja af þeim 34 milljörðum sem skotið er undan sköttum hér í landinu á ári hverju. Hvers vegna vill nýr hæstv. fjármálaráðherra hlífa skattsvikurum hér í landinu?

Og hvað er þetta um skattalækkunartillögur okkar? Hvers vegna talar hæstv. fjármálaráðherra um lækkun matarskattsins, sem er tillaga okkar, með þessari lítilsvirðingu? Var það ekki tillaga sjálfstæðismanna líka? Og hvers vegna telur hæstv. fjármálaráðherra það vera miklu betra fyrir land og þjóð að létta mánaðarlaunum af mér og honum í skatta, hátekjumönnunum hér í salnum sem búa við auð og allsnægtir, en leggja heil mánaðarlaun í auknar álögur á lífeyrisþega og láglaunafólk? Hvers konar eiginlega stjórnmálaflokkur (Forseti hringir.) og fjármálaráðherra er það sem talar með þeim hætti um misskiptinguna í landinu?