132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[17:17]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að menn hafa upplifað ræðu hæstv. fjármálaráðherra hver á sinn hátt. Hér hafa menn ýmist fagnað ræðunni eða lýst yfir miklum vonbrigðum. Ég vil leyfa mér að segja að mér fannst hún heldur kostuleg. Mér fannst hún heldur kostuleg ræðan sem hæstv. ráðherra flutti áðan í umræðum um fjárlög ríkisins, fjárlagafrumvarp sem hæstv. ráðherra lagði sjálfur fram.

Hann eyddi öllum tíma sínum í ræðustól við að fjalla um tillögur Samfylkingarinnar og áhrif þeirra á hagkerfi og þensluna. Um er að ræða tillögur sem hafa nettóáhrif upp á 1% eða svo á fjárlagafrumvarpið og hæstv. fjármálaráðherra eyddi öllum sínum tíma í að ræða hvílík áhrif það hefði á hagkerfið, þenslu og annað slíkt. Það er kostulegt að hæstv. fjármálaráðherra skuli ekki eiga annað erindi í ræðustól en að segja það sem hann sagði áðan. (Forseti hringir.) Ég held að það verði langt í að önnur eins ræða verði flutt á þinginu.