132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[17:22]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það ber vel í veiði að halda áfram umræðunum sem hófust í framhaldi af ræðu hæstv. fjármálaráðherra. Ég fagna því að hæstv. forsætisráðherra og heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra eru viðstaddir. Mig langar fyrst að ræða nokkuð almennt um aðstæður, efnahagslegt bakland þessa fjárlagafrumvarps og horfurnar á næsta ári og síðan ræða einstök efnisatriði fjarlagafrumvarpsins og breytingartillögur sem því tengjast.

Það er út af fyrir sig ljóst að það er gaman að vera fjármálaráðherra á Íslandi, í þeim skilningi að mikil veltiár hafa gengið yfir þjóðarbúið og mokað miklum tekjum í ríkissjóð. Skárra væri það, þegar þjóðarbúið er rekið ár eftir ár með bullandi viðskiptahalla og innflutningi sem nemur á annað hundrað milljarða króna í ár, sem er umfram það sem tekjur af útflutningi vöru og þjónustu skila. Af þessu hefur ríkið miklar tekjur og sömuleiðis af þenslunni í þjóðarbúinu almennt, launaskriði og öðru slíku sem og fjárfestingum og framkvæmdum. Allt ber þar að sama brunni. Inn í kassann koma heilmiklar tekjur en það breytir hins vegar engu um það, ef þessir hlutir væru núllstilltir eða afkoma ríkissjóðs sveiflujöfnuð, að myndin yrði ekkert sérstaklega glæsileg þegar skoðuð eru t.d. tvö síðustu ár, yfirstandandi og síðasta ár. Samkvæmt mati Seðlabankans er halli á síðasta ári upp á hálft prósent af landsframleiðslu, þegar afkoma ríkissjóðs hefur verið sveiflujöfnuð. Afkoman á þessu ári, sem á að heita að geti orðið upp undir 2% í afgang, lækkar um minnsta kosti hálft prósent þegar sams konar aðferðum er beitt til að miða afkomu ríkissjóðs við ástandið.

Þetta má allt saman lesa í ritum og á ekki að þurfa að deila um það því að færustu sérfræðingar liggja yfir því að reikna þetta út og meta þetta. Það er góðra gjalda vert að hæstv. fjármálaráðherra fari yfir breytingartillögur stjórnarandstöðunnar. Ég kveinka mér ekkert undan því að fjármálaráðherra biðji um rök og hafi skoðanir á því sem þar er lagt fram. En hæstv. fjármálaráðherra verður náttúrulega líka að rökstyðja eigin framgöngu. Hann ætti kannski fyrst og fremst, að minnsta kosti ekki síður, að nota tíma sinn í að ræða og fara í gegnum aðstæðurnar eins og þær blasa við í efnahagsmálunum.

Fram undan er hallarekstur á ríkissjóði, verulegur hallarekstur á ríkissjóði. Sá halli varir ekki bara í eitt ár á meðan hagkerfið aðlagar sig heldur er mat manna, m.a. sjálfs fjármálaráðherra, að ríkissjóður verði rekinn með halla á árunum 2007–2009, ef ég hef tekið rétt eftir. Sá halli er talinn geta orðið umtalsverður, svo nemur kannski frá 0,5% og upp í 2–2,5% af landsframleiðslu. Það munar um það.

Skattalækkanir ríkisstjórnarinnar, sem eiga að koma að fullu til framkvæmda á árinu 2007, þ.e. eftir rétt rúmlega eitt ár eiga þær að ganga í gildi að fullu, eru uppreiknaðar að nálgast um 30 milljarða kr. Þær eru a.m.k. ekki mikið undir því. Niðurstöðutölur fjárlaga núna losa 300 milljarða kr. Við erum þannig að tala um upp undir 10% lækkun á tekjugrundvelli ríkissjóðs, hinum föstu stöðugu tekjustofnum, miðað við veltuna eins og hún er núna. Það munar um minna. Það mun sérstaklega muna um það þegar hagsveiflan snýst við og afkoma ríkissjóðs verður jafnbágborin og jafnmikið í hina áttina vegna samdráttar í innflutningi og snarminnkandi veltu í þjóðarbúskapnum, eins og henni hefur verið slegið upp að undanförnu. Það er nefnilega nákvæmlega jafnerfitt og leiðinlegt að vera fjármálaráðherra þegar menn eru á leiðinni niður brekkuna, niður af bungu hagsveiflunnar eða kúrfunnar, eins og það er gaman að ríða upp á hana.

Mér finnst mikil léttúð á ferðum þegar menn ræða um að fram undan sé umtalsverður hallarekstur á ríkissjóði. Engu að síður telja menn sig þess umkomna og bæra að ganga frá og jafnvel lögfesta langt fram í tímann gríðarlegar skattalækkanir. Hvernig ætla menn að koma hlutum saman og hvað ætla þeir að gera á árinu 2007 og á árinu 2008? Vonandi verður ekki við þá menn að eiga sem nú véla þar um. En það er ástæða til að spyrja þá um stefnu þeirra í þeim efnum ef svo hrapallega skyldi takast til að við sætum uppi með sömu ríkisstjórn eða að einhverju leyti svipaða ríkisstjórn, þ.e. ef annar hvor stjórnarflokkurinn yrði áfram við völd á næsta kjörtímabili. Á þá að reka ríkissjóð með halla svo nemur kannski 30–40 milljörðum kr., t.d. á árinu 2008? Eða á að skera niður sem því nemur? Getur hugsast að Sjálfstæðisflokkurinn leggi þetta þannig niður fyrir sér: Aha, nú erum við í góðum málum. Við dúndrum niður sköttunum í góðærinu og menn taka minna eftir því vegna þess að veltutekjurnar flæða inn í ríkissjóð og þetta lítur ágætlega út. Við þurfum ekkert að skera niður. En þegar syrtir í álinn erum við með borðleggjandi stöðu til að krefjast niðurskurðar. Þá komum við og segjum: Ríkissjóður á ekki fyrir þessu. Þetta er of dýrt. Við verðum að skera niður.

Getur hugsast að þetta hafi læðst að einum og einum hægri manni, að nota sér þetta svona? Er það sérlega ábyrgt að sæta færis, kannski á þeim einu til tveimur árum er hagsveiflan færir sjálfkrafa mestar tekjur í ríkissjóð, með grenjandi viðskiptahalli á öðrum þáttum, sem eru í sjálfu sér mikið veikleikamerki í hagkerfinu? En tímabundið kemur það þannig út fyrir ríkissjóð að hagur hans vænkast. Er þá ábyrgt að stökkva til, skera niður traustu, stöðugu tekjustofnana og skilja þann hausverk eftir handa mönnum að glíma við á komandi árum? Hvernig á að takast á við vandann þegar hann gengur í garð? Hann mun ganga í garð.

Það er algjörlega óumflýjanlegt að íslenska hagkerfið lendi í harkalegri niðursveiflu á komandi árum. Núverandi rekstur þess fær ekki staðist í nokkru tilliti. Það fær ekki staðist, hversu mikið sem hæstv. ráðherrar jarma um góðæri, að reka íslenska þjóðarbúið með 10–14% viðskiptahalla á ári miðað við landsframleiðslu og sambærilega skuldasöfnun. Hvert þjóðfélag eða ríki, sem á að heita sjálfstæð efnahagsleg eining, sem þannig hegðar sér til langs tíma endar bara á einn veg. Það fer á hausinn, lóðbeint á hausinn.

Það er satt best að segja merkilegt hversu lítið er gert af því á Íslandi að ræða það af einhverri yfirvegun. Burt séð frá pólitík, hvernig ætla menn að hafa þetta, hvernig ætla menn að takast á við þetta? Það stendur upp úr hverjum manni sem þetta skoðar að jafnvægisleysið er slíkt í þessum rekstri að það fær ekki staðist nema til mjög skamms tíma og getur ekkert endað nema mjög illa ef svo heldur sem horfir.

Hvað halda menn að þetta gangi lengi með t.d. óbreyttu lánshæfismati hjá Íslandi ef viðskiptahallinn er af stærðargráðunni 10–14% af landsframleiðslu á ári? Skuldasöfnunin er frá 100 og upp í 140 milljarðar á ári. Ef svo heldur sem horfir, og þó þetta verði nú ekki verra en spár fjármálaráðuneytisins sjálfs kveða á um, verður uppsafnaður viðskiptahalli áranna 2003–2010 500 milljarðar kr., hátt í tvenn fjárlög sem bætast ofan á skuldir þjóðarbúsins af þeim sökum. Halda menn að það taki ekki í og halda menn að það fari ekki fyrr en síðar að hafa veruleg áhrif á t.d. lánshæfismat þjóðarinnar? Jú, auðvitað.

Alltsvo, viðskiptahallinn í ár er Íslandsmet, hvort sem við tökum varkárari áætlun fjármálaráðuneytisins upp á 13,3% landsframleiðslu eða spár bankanna sem eru yfirleitt upp á 14%, skiptir kannski ekki öllu máli hvort þetta verða 130 milljarðar rúmir eða 140, þetta er Íslandsmet. Síðasti mánuður var Íslandsmet. Aldrei áður í viðskiptasögu Íslands hefur verið annar eins viðskiptahalli og í síðasta mánuði þannig að þetta er nú ekki mikið að lagast, alla vega ekki enn þá.

Hvernig eru spárnar núna? Í glænýrri frétt, spá Íslandsbanka tekinni út af vefnum núna rétt áðan, segir greiningardeildin — það væri nú fróðlegt að hæstv. forsætisráðherra hlustaði á þetta, kannski á hann eftir að blanda sér í umræðurnar og fara yfir það með okkur hvernig hann sér þessar horfur fyrir sér.

Greiningardeild Íslandsbanka segir:

„Gengi krónunnar er hærra um þessar mundir en fær staðist til lengdar en ójafnvægi hagkerfisins er mikið,“ — þarna tala þeir að vísu um viðskiptahalla upp á um 13% af landsframleiðslu — „og það er gríðarlegur halli í sögulegu ljósi og alþjóðlegum samanburði. Teljum við,“ segja þeir góðu menn, „að gengisvísitala krónunnar þurfi að fara í um 130–135 stig til að ná fram þeirri raungengislækkun sem stuðlar að jafnvægi í utanríkisviðskiptum landsins.“

Það er nú ekki lítið sem menn eru að tala um, að gengisvísitalan þurfi að fara úr þessum rétt liðlega 100 sem hún er í upp í 135 og gengi krónunnar veikjast sem því nemur. Gerist það nú allt saman á örfáum mánuðum, halda menn að það hafi ekki einhverjar afleiðingar með nokkurn veginn sambærilegri hækkun á innfluttu verðlagi? Jú, ég hugsa að það komi eitthvað við, ég hugsa að það hvíni eitthvað í. Ætli það gæti þá ekki komið dálítið hressilegt verðbólguskot?

Seðlabankinn segir í síðasta hefti Peningamála, það er best að lesa þetta svolítið yfir mönnum, frú forseti, því að það er eins og það þurfi að endurtaka þessa vísu nokkuð. Það hefur satt best að segja merkilega lítið verið rætt um þetta í dag nema í hálfgerðum símskeyta- svo ég segi nú ekki skætingsstíl. Mér finnst satt best að segja að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hafi oft haldið betri ræður en þá sem hann flutti hér í dag. Ég held að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson ætti sem stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar að vera mjög hógvær og ekki fara fram með miklum derringi, ráðast á stjórnarandstöðuna eins og hún sé aðalvandamálið, belgja sig sjálfur út af því að hann hafi varað við þessu mörg undanfarin ár og aðalóráðsían sé launaþróunin í landinu. Maður, líttu þér nær, segi ég nú bara. Er þetta ekki sami hv. þingmaðurinn og hefur stutt stóriðjuæði ríkisstjórnarinnar, stutt skattalækkanirnar og ber alveg nákvæmlega sömu pólitísku ábyrgð á efnahagsstefnu þessarar ríkisstjórnar og hver annar stjórnarþingmaður sem ekki segir sig þá opinberlega frá því að vera aðili að þessum þætti mála?

Það þýðir ekkert að skamma Seðlabankann, ætla að skjóta sendiboða hinna válegu tíðinda eða eina aðilann sem er eitthvað að reyna að hafa heimil á þessu.

Í Peningamálum segir t.d. um þessi meginatriði, frú forseti:

„Ójafnvægi í þjóðarbúskapnum hefur aukist frá því að Peningamál komu síðast út“ — það var í júní sl. — „og er það meira um þessar mundir en um langt skeið. Aðstæður í þjóðarbúskapnum nú eru að ýmsu leyti áþekkar þeim sem ríktu á árunum 1999–2000. Töluverðar sviptingar fylgdu í kjölfarið þegar efnahagslífið leitaði jafnvægis á ný á árunum 2001 og 2002. Ójafnvægið er jafnvel meira nú, viðskiptahallinn meiri, raungengið hærra, íbúðaverð langt yfir langtímajafnvægi og skuldsetning heimila, fyrirtækja og þjóðarbúskaparins í heild töluvert meiri.“

Það er nefnilega það. Staðan hefur versnað allverulega bara frá árunum 1999–2000, á þessum hálfa áratug hefur staðan versnað allverulega. Hún er verri í dag vegna þess að ójafnvægið er meira, vegna þess að viðskiptahallinn slær enn þá verr út og vegna þess að skuldsetningin hefur aukist gríðarlega á þessum stutta tíma, alveg ískyggilega.

Síðan fjallar Seðlabankinn um að það séu mikil vonbrigði að þrátt fyrir hina miklu hækkun stýrivaxta séu verðbólguhorfur enn óviðunandi til næstu tveggja ára og bætir við, með leyfi forseta: „… einkum þegar einnig er tekið tillit til þeirrar verðbólguhættu sem fólgin er í mögulegri lækkun gengis krónunnar.“

Og nú hefur einn mjög alvarlegur verðbólguþáttur bæst þar við sem menn eru svona rétt farnir að átta sig á og greina en er ekki orsök vandans. Það er mikill misskilningur þegar menn í vandræðum sínum, eins og þingmenn Framsóknarflokksins og hæstv. ráðherra iðnaðar- og viðskiptamála, líklega í fyrradag, grípa til þess að reyna að útskýra vandann með útgáfu erlendra aðila á skuldabréfum í íslenskum krónum. Það er ekki orsök þessa vanda. Það er afleiðing af því ástandi sem hér er orðið og hófst ekki að ráði fyrr en á haustdögum. En það er auðvitað alveg augljóst mál að þetta hefur þau áhrif að gengisútslagið getur orðið miklu meira.

Hvað segir Íslandsbanki í greiningardeildinni um þetta mál? Jú, þeir segja að í framhaldi af þessu með að gengisvísitalan þurfi að fara upp í 135 stig til að ná jafnvægi, hún þarf sem sagt að hækka um upp undir 35 punkta, og krónan veikjast að sama skapi:

„Óvissan er aðallega fólgin í tímasetningu á slíkri leiðréttingu. Gengislækkun hefst líklega ekki fyrr en á síðari hluta næsta árs þegar menn telja sig loks sjá fram á vaxtalækkun Seðlabankans vegna minnkandi þenslu fram undan.“

Það er nefnilega það, það eru níu mánuðir eftir. Þeir verða glaðir að heyra þetta í ferðaþjónustunni og sjávarútveginum, þeir eiga eitt tekjuár eftir á sömu kjörum. Stór hluti erlendu skuldabréfaútgáfunnar í krónum er jafnframt á gjalddaga á síðari hluta næsta árs og fræðilega ætti það að stuðla að gengislækkun krónunnar fyrir þann tíma.

Reyndar segja svo þeir í Íslandsbanka að þeir spái því að gengi krónunnar gæti hæglega styrkst enn á næstunni og ójafnvægið í hagkerfinu aukist enn áður en til leiðréttingar kemur, t.d. ef Seðlabankinn hækkar stýrivexti sína umfram væntingar eða ef erlend útgáfa skuldabréfa í krónum eykst meir en vænst er og þá má síðan aftur reikna með enn frekari gengislækkun. Með öðrum orðum ef þetta ástand á enn eftir að versna, Seðlabankinn hækkar vexti, gengið styrkist, erlendir aðilar auka útgáfu skuldabréfa á skammtímakjörum þannig að þau eru t.d. með gjalddaga aftur eftir eitt eða eitt og hálft ár, þá versnar ástandið að sama skapi enn meir þegar aðlögunin hefst og útslagið verður meira.

Það er athyglisvert, frú forseti, að — það væri nú ágætt ef þessi fundur í hliðarsalnum tæki senn enda. Ég hef nefnilega áhuga á því að leggja eina spurningu enn fyrir hæstv. forsætisráðherra til viðbótar þeirri sem ég gerði áðan. Ég vildi gjarnan heyra hvernig forsætisráðherra metur þessar aðstæður — ef við gætum nú kannski einu sinni gert tilraun til þess að eiga hér málefnaleg skoðanaskipti um þetta. Ég skal þá reyna að passa mig alveg sérstaklega að nefna ekkert sem er viðkvæmt fyrir hæstv. ráðherra.

En hvert var hæstv. forsætisráðherra að fara, frú forseti? (Forsrh.: Það er ekkert viðkvæmt fyrir mig.) Jú, sumir hlutir hafa nú reynst mjög viðkvæmir. (Forsrh.: Nei, nei, nei.) Hvert var hæstv. forsætisráðherra að fara í ræðu sinni á fundi Framsóknarflokksins? Nú er það að sjálfsögðu hans mál almennt talað hvað hann segir þar við sitt fólk og síðastur manna ætla ég að reyna að blanda mér í það. (Forsrh.: En samt.) En hæstv. forsætisráðherra er samt forsætisráðherra þó að hann sé líka formaður Framsóknarflokksins og hann er yfirmaður Seðlabankans.

Var hæstv. forsætisráðherra að reyna að segja Seðlabankanum fyrir verkum í ræðu sinni á flokksstjórnarfundi eða miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins eða hvað það nú var sem haldinn var núna á dögunum? Ég hjó mjög eftir því að hæstv. forsætisráðherra lagði lykkju á leið sína í ræðunni til að útlista að það væri engin ástæða fyrir Seðlabankann að hækka stýrivexti og fór um það mörgum orðum hversu vitlaust það væri að halda áfram á þeirri braut.

En er það ekki þannig að Seðlabankinn er sjálfstæður og er það ekki þannig að ekki er ætlast til að menn segi honum fyrir verkum eða stjórni honum? Ég hélt að andi nýju laganna um Seðlabankann væri sá. Eða er ríkisstjórnin búin að ná einhverju samkomulagi eða samráði við Seðlabankann um hvernig siglt verði í gegnum þennan brimskafl? Eða á bara að pína Seðlabankann til þess að sveigja af leið og hækka ekki stýrivextina með fyrirmælum af þessu tagi utan úr bæ án þess að neitt annað liggi fyrir? Er ríkisstjórnin með eitthvert prógramm í gangi sem hún getur þá rætt um við Seðlabankann þannig að menn hafi trú á því að hægt sé að ná tökum á ástandinu og Seðlabankinn megi sem sagt draga að sér hendur hvað þetta varðar? Stendur til að fara að einhverjum af þeim ráðum, einhverjum af þeim uppástungum sem komið hafa fram úr mismunandi áttum á undanförnum mánuðum, einu til tveimur missirum, frá ráðgjafastofnunum, frá nefndum sem ríkisstjórnin hefur sjálf skipað, svo að maður minnist nú ekki á stjórnarandstöðuna, en a.m.k. hluti hennar hefur verið að reyna að leggja eitthvað til? Kemur það til álita að slá af einhverju af skattalækkununum?

Það hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagt til, það hefur OECD lagt til, upp á því stakk nefnd sjávarútvegsráðherra fyrrverandi um hágengi. Kemur til greina að slá á væntingarnar sem vaka um að í beinu framhaldi af núverandi og yfirstandandi stóriðjuframkvæmdum fari ein, tvær, þrjár aðrar af stað? Ræður ríkisstjórnin við það eða ræður hún ekki við það? Er Sjálfstæðisflokkurinn fangi álstefnu Framsóknarflokksins? Verða menn bara að láta sig hafa það að þetta gangi allt fram?

Eru mögulegar einhverjar aðgerðir af því tagi að styrkja verulega gjaldeyrisvaraforðann og eftir atvikum eigið fé Seðlabankans í leiðinni? Þær hugmyndir hafa komið fram. Formaður LÍÚ lagði til að reynt yrði að vinna gegn styrkingu á gengi krónunnar og undirbúa aðlögunina með því að setja stóra fjármuni, ígildi söluandvirðis Landssímans, í gjaldeyriskaup og þann gjaldeyri ættu menn þá og þau kaup mundu væntanlega hafa einhver áhrif á gjaldeyrismarkaðinn þó að hann sé að vísu að sumra sögn í raun og veru hreinn spákaupmennskumarkaður í dag og lítt tengdur við raunverulegar efnahagsaðstæður í landinu. Kemur eitthvað af þessu tagi til greina?

Kæmi til greina að fara yfir eiginfjármörk og lágmörk og útlánaflokkun fjármálastofnananna og fara þar inn með stífari kröfur? Bankarnir eru vissulega sjálfir aðeins að byrja að reyna að bjarga sér í land með því að herða á skilmálum útlána. Það fer kannski ekki mjög hátt því að þeim er eins og fleirum viðkvæmt að þurfa að viðurkenna að þeir hafi farið offari. En þeir hafa sumir þó mannað sig upp í t.d. að lækka útlánahlutföllin í fasteignalánunum. Landsbankinn á að mínu mati heiður skilinn fyrir að vera ekkert að pukrast með að það var ekki um annað að ræða en reyna að fara að vinda ofan af þessu. Hvar er ríkisstjórnin á þeim báti? Er hún tilbúin til að reyna að taka þátt í einhverjum aðgerðum af þessu tagi sem geta haft þarna heillavænleg áhrif?

Það hlýtur að vera hægt að ræða þetta svona. Þurfum við að standa hér og rífast um hvort eitthvað sé að, þurfum við þess? Blasir það ekki við hverjum manni? Hvað þarf maður að lesa oft upp úr þessu eða taka menn ekkert mark á þessu? Er Seðlabankinn algjörlega úti að aka í þessu þegar hann í skýrslu eftir skýrslu, ársfjórðungslega hið minnsta, fer yfir þetta og bætir heldur í orðalagið? Í júní bætti hann í orðalagið frá því í febrúar, í september bætti hann í orðalagið frá því í júní o.s.frv. Og hvað kemur núna 1. desember nk.? Það verður fróðlegt að sjá það og auðvitað fróðlegt hvort húsbóndaskiptin þar hafa haft einhver áhrif. (Gripið fram í.)

Já, eiginlega á hvaða mælikvarða sem þetta er metið og reiknað þá er ástæða til að hafa áhyggjur, því miður. Það er í raun og veru aðeins þetta eina ljós í myrkrinu sem er sjálfgefið og það er að ríkissjóður hefur auðvitað bætt stöðu sína. Það er vissulega alveg hárrétt enda þreytast þeir ekki á því stjórnarliðarnir að tala um það. Og ég segi bara: Skárra væri það nú. Skárra væri það nú þó að ríkissjóður hefði lagað stöðu sína og greitt niður skuldir þegar tvennt er haft í huga alveg sérstaklega, að hann hefur notið gríðarlega góðs af veltitekjunum, fær inn miklar tekjur af viðskiptahallanum og hann hefur selt gríðarlegar eignir. Það er gott að ríkissjóður standi vel því að það mun mæða mikið á honum næstu árin. Það er óumflýjanlegt, enda áætlanir uppi um að hann verði rekinn með halla, verulegum halla strax á öðru ári héðan í frá og síðan kannski tvö til þrjú ár þar í frá a.m.k.

Ég held þó, frú forseti, að það alvarlegasta af öllu því sem við okkur blasir séu tölurnar um erlendar skuldir. Kannski eru þær þannig að fólk almennt áttar sig ekki á hvað hefur gerst í þeim efnum. Ef við tökum brúttóskuldirnar þá er þar auðvitað um einfaldar tölur að ræða og þá hlaupa menn hér í stólinn, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal, og tala um eignamyndunina á móti. Við skulum bara sleppa því. Við skulum bara tala um hreinar erlendar skuldir þjóðarbúsins eins og þær eru þegar eignamyndun er öllsömul dregin frá. Þá er þetta þannig að hreinar erlendar skuldir sem hlutfall af vergri landsframleiðslu voru rétt rúm 40% 1990. Þær fóru í 100% markið 2001. Ég man það vel að á því ári stóð ég í þessum ræðustóli og sagði: Við erum því miður á sögulegum og dapurlegum tímamótum því að hreinar erlendar skuldir eru einmitt þessa mánuðina — það var síðsumars 2001 — að fara yfir 100% markið. Þær eru orðnar meiri en heils árs verðmætasköpun þjóðarbúsins. Það var gamall mælikvarði sem manni var oft sagður hér í árdaga að þá væri vissara að fara að biðja fyrir sér ef skuldirnar væru orðnar meiri en árstekjurnar hvort sem það væri í atvinnurekstri eða heimilisbókhaldinu eða hvar það væri.

Nú eru þessar skuldir einmitt á þessum tímapunkti komnar yfir 150%. Þær eru orðnar ein og hálf landsframleiðsla þannig að hálf landsframleiðsla hefur bæst við á þessum fjórum árum. Það munar nú um minna. Og það er ekki eins og að stefni í að þessu sloti alveg á næstunni. Nei, ekki ef fjármálaráðuneytið hefur rétt fyrir sér og við rekum þjóðarbúið með halla út á við til 2010. Lengra spá menn ekki. Mér þykir ólíklegt miðað við þá tilhneigingu sem verið hefur hjá fjármálaráðuneytinu, eftir að Þjóðhagsstofnun var slegin af í geðvonsku og við höfum síðan aðallega þurft að reiða okkur á spár stjórnvalda sjálfra, að þeir séu að dekkja myndina mikið. Ætli það? Ætli þeir Geir H. Haarde og nú Árni M. Mathiesen séu mikið að sverta þetta umfram efni? Ég hef ekki trú á því. Hvar nákvæmlega kæmi þetta þá til með að liggja? Ef við segjum að það séu 100 milljarðar á þriggja ára tímabili núna sem bætast við, þá eru það 10% af landsframleiðslunni á hverju ári og síðan er spáin upp á 50 milljarða eftir það á árunum 2007–2010. Það eru samtals 20% af landsframleiðslu eins og hún er núna og þá erum við að nálgast 180–190% markið. Ekki er það falleg tilhugsun, frú forseti, að þannig verði þessu þá orðið háttað.

Ég ætla síðan aðeins að koma inn á efnahagsástandið að öðru leyti og vona að hæstv. forsætisráðherra heiðri okkur með þátttöku í umræðunni og ræði lítillega við okkur um þá hluti. Ég ætla að nefna skattamálin aðeins og fara yfir það sem hæstv. fjármálaráðherra sagði hér um formúluna góðu, sem hann hefur tekið í arf og lært við föðurkné Péturs H. Blöndals, að tekjur aukist með lækkandi skattprósentu, alveg út í það endalausa. Það eru fróðlegar vísbendingar í þeim efnum inni í fjárlagafrumvarpinu sjálfu eða fylgiskjali þess og þarf ekki frekari vitna við. Ég ætla síðan aðeins að ræða um ruðningsáhrif þessa ástands í efnahagslífinu.

Það er þannig að hæstv. ríkisstjórn hefur haft það sem alveg sérstakt forgangsmál sitt að lækka skatta á hátekjufólki. Það er þá alla vega einn skattstofn sem ekki skilar vaxandi tekjum með lækkandi prósentum því að tekjuhæsta fólk landsins, nokkur þúsund einstaklingar, greiddu af hæsta hluta launa sinna tæplega 1,5 milljarða kr. á árinu 2003 til samneyslunnar, til þjóðarbúsins. Já, við höfðum sem sagt úr 1,5 milljörðum að spila samkvæmt ríkisreikningi ársins 2003 frá fólki sem var með tekjur yfir 350 þús. krónur á mánuði eða hvað það nú er sem einstaklingar eða sambærilegri tölu tvöfaldaðri sem hjón. Og vel að merkja, svo að það sé enn einu sinni tekið fram til að vísvitandi tilraunir til að láta fólk misskilja þetta gangi ekki ljósum logum, það er aðeins greitt af því sem er þar fyrir ofan, viðbótarprósenta sem núna er 2% en voru áður 4 og reyndar einu sinni 5%. En þetta skilaði tæpum 1.500 milljónum á árinu 2003.

Það er hægt að gera ýmislegt fyrir 1.500 milljónir. Það er tilfinnanlegt stundum þegar ríkisstjórnin telur sig ekki eiga 1.500 milljónir og grípur til þess ráðs að skera bensínstyrk, ætlar að fara að taka bensínstyrk af öryrkjum eða lækka atvinnuleysisbætur eða eitthvað annað þar sem yfirleitt er borið niður. Við gætum haft þessar 1.500 milljónir áfram á næsta ári og auðveldlega það, því að tekjur tekjuhæsta hópsins í landinu hafa hækkað gríðarlega eins og allar mælingar sýna, það dregur í sundur og launamunur vex. Milljónatuga og milljónahundraða mönnunum fjölgar hratt.

Hvernig hefur þessi skattstofn þróast? Jú, hann gaf ekki nema 1.160 milljónir 2004 af því að ríkisstjórnin hafði það sem forgangsmál að lækka þennan skatt. Áætlað er að það gefi 800 milljónir í ár af því að hann er kominn niður í 2%, og eftirstöðvarnar 100 milljónir á næsta ári og síðan núll. Þetta er skattstofn, hæstv. fjármálaráðherra, sem hækkar ekki með lækkandi prósentu. Hann hverfur ef hann er látinn hverfa. Það er svo furðulegt. Hvar er Pétur H. Blöndal? Hvernig stendur á þessu? Af hverju hækkar ekki hátekjuskatturinn þegar prósentan er lækkuð? Hann hverfur. Þetta er alveg furðulegt. Hvar er nú kúrfan hans Péturs H. Blöndals, hv. þingmanns?

Svo er okkur talin trú um það og er margbúið að tyggja þá klisju að tekjuskattur fyrirtækja hafi vaxið alveg gríðarlega með því að lækka prósentuna. Hvað eru þeir oft búnir að segja það hérna, sjálfstæðismennirnir, hvers konar asnar menn séu að styðja ekki skattalækkanir af því að þá komi meiri tekjur í kassann?

Förum aðeins yfir það. Berum saman þróun í tekjuskatti einstaklinga annars vegar og tekjuskatti lögaðila hins vegar. Það er þannig að árið 2003 var tekjuskattur einstaklinga án hátekjuskattsins 56,5 milljarðar en samkvæmt fjárlagafrumvarpinu á næsta ári á hann að vera tæpir 70 milljarðar, 69,9milljarðar. Tekjuskattur lögaðila var 12,2 milljarðar árið 2003, 11,5 árið 2004, 13,5 í ár og 14 á næsta ári. Þarna er önnur þróun í gangi og það verða ekki sömu stökkin upp á við, einkum á milli áranna 2003 og 2004 og 2005 eins og var í tekjuskatti einstaklinga. (Gripið fram í.) Nei, enda er búið að stórlækka prósentuna. Þarna virðist formúlan ekki heldur virka eins og til stóð. Er þó veltan í þjóðfélaginu og veltan og umsvifin í íslensku atvinnulífi, sérstaklega rekstur stórfyrirtækjanna, gríðarlega aukin að umfangi m.a. vegna mikilla kaupa á fyrirtækjum erlendis og veltuaukningar af þeim sökum þannig að efnahagsreikningar margra þessara fyrirtækja hafa margfaldast á þessu tímabili. Það skyldi nú ekki vera að prósentan hafi áhrif eins og þessi tvo dæmi sýna?

Nú vitum við auðvitað að tekjuskattur fyrirtækjanna er eðlilega mjög háður afkomu þeirra og hagsveiflunni í þjóðarbúinu langt umfram það sem gildir um fastar tekjur, þ.e. sérstaklega tekjuskatt sem grundvallast á föstum umsömdum launum, og jafnvel umfram það sem gildir um óbeina skatta eða virðisaukaskatt því þar dregst þó veltan yfirleitt ekki jafnsnöggt saman, einfaldlega vegna þess að menn þurfa að halda áfram að lifa, kaupa í matinn o.s.frv. og borga af því sinn skatt.

Þá kann svo að fara að menn velti því fyrir sér hvort breytingarnar í íslenska skattkerfinu hafi allar verið sérstaklega skynsamlegar, hvort það verði sérstaklega sanngjarnt í garð þeirra sem koma til með að glíma við að ná saman endum við fjárlagagerð komandi ára að hafa farið eins að ráði sínu og núverandi ríkisstjórn hefur gert. Ég er ekki viss um að það eigi eftir að þykja svo stórsnjallt og ábyrgt eins og þeir vilja sjálfir vera láta. Hef ég þó ekki minnst á það sem auðvitað er tilfinnanlegast og það er ranglætið sem hefur verið fólgið í áherslum þessarar ríkisstjórnar í skattamálum, þ.e. hvernig þessi ríkisstjórn hefur í anda hægri stefnunnar hyglað þeim sem hæstar hafa tekjurnar, mestan hafa arðinn eða hagnaðinn úr atvinnurekstri á kostnað þess að skattbyrðin hefur þyngst hjá almennum launamönnum.

Það er heilmikið til í því sem menn segja stundum að rekstur og umfang hins opinbera hafi ekki minnkað að sama skapi og búast hefði mátt við þegar farið er yfir skattkerfisbreytingarnar sem slíkar og skoðaðar þessar lækkanir, prósentulækkanir o.s.frv. Og hver er ástæðan? Hún er auðvitað sú að skattbyrðin hefur verið flutt til. Hún hefur verið flutt alveg gríðarlega til og hvílir að miklu meiri þunga nú á lægri launum og meðallaunum en hún gerði áður. Það er augljóst. Það þarf ekkert annað en skoða þróun skattleysismarka og bera hana saman við þróun verðlags eða þróun launa til að sjá þetta. Sú staðreynd að elli- og örorkulífeyrisþegar borga núna skatta af kannski fjórðungi eða fimmtungi sinna greiðslna segir allt sem segja þarf um það vegna þess að það eru ekki greiðslurnar til þeirra sem hafa hækkað — til að útskýra það — nei, það eru skattleysismörkin sem hafa lækkað í hlutfalli við í raun alla mælikvarða þjóðfélagsins. Það þýðir ekkert að hrista hausinn, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson. Þetta blasir við hverjum manni. (Gripið fram í.) Þetta blasir við hverjum manni. Þú veist það vel, hv. þingmaður, að ef skattleysismörkin hefðu átt að fylgja þróun verðlags þá ættu þau að nálgast 100 þús. kr. og komin vel yfir 120 þús. ef þau hefðu fylgt þróun launa undanfarin ár.

Að lokum um þessa þætti mála, frú forseti, og áður en ég fer að ræða einstök efnisatriði fjárlagafrumvarpsins þá finnst mér ekki hægt annað en staldra aðeins við stöðuna í íslensku atvinnulífi því allt hangir þetta saman þegar betur er að gáð og verður ekki eitt skilið frá öðru. Í raun og veru væru full efni til þess að hafa hér annan dag og ræða ekkert nema það hvernig aðstæðurnar eru að þróast og hvað blasir við og hvað er fram undan t.d. ef greiningardeild Landsbankans hefur rétt fyrir sér í því að við eigum í vændum a.m.k. níu mánuði, upp undir ár í viðbót, með ekki betri og jafnvel verri skilyrðum fyrir útflutnings- og samkeppnisgreinarnar en er í dag. Það er þeirra spá að ekki þurfi að búast við að nein aðlögun hefjist fyrr en á síðari hluta næsta árs og ástandið geti vel átt eftir að versna tímabundið þangað til.

Hvar eigum við að bera niður, frú forseti? Af svo mörgu er að taka að ég veit eiginlega ekki hvar er best að byrja. Mér dettur í hug að nefna fyrst iðnaðinn. Það vill svo til að Samtök iðnaðarins og ýmsir forustumenn úr þeirra röðum voru að funda um þessi mál á dögunum. Það er m.a. rætt í blöðum í dag undir fyrirsögninni Þekkingin flýr land. Þar er vitnað m.a. í orð Sveins nokkurs Hannessonar sem er framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, með leyfi forseta:

„Við missum fólkið og þar með þekkinguna og ég kann ekki að leggja verðmat á það. Hér eru að tapast framtíðarstörf.“

Þetta segir Sveinn Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Þarna talar hann um hátækniiðnað sem hefur tekjur sínar af útflutningi.

„Í þessum geira eru fyrirtæki á borð við Actavis, Marel og Össur einna mest áberandi. Nýlega tók fyrirtækið Medcare Flaga ákvörðun um að flytja starfsemi sína til Kanada.“

Síðar segir sami maður, með leyfi forseta:

„Hér er um að ræða þau störf sem síst skyldi að við missum úr landi. Þetta eru þau fyrirtæki sem mest verðmæti skapa fyrir hvert starf og geta því staðið undir háum launum og góðum lífskjörum. Það er dýrt fyrir okkur að missa þessi fyrirtæki úr landi. Það tekur langan tíma að byggja þau upp, 15–20 ár í sumum tilvikum. Ef þessi fyrirtæki fara þá koma þau ekki aftur heldur þurfum við að byggja upp á nýtt í einhverju öðru.“

Þetta segir Sveinn Hannesson.

Hvað segir hæstv. forsætisráðherra um þetta? Er þetta eitthvað sem bara er hægt að blása á? Er þetta eitthvert óráðsmannahjal? Ekki er þetta Seðlabankinn. Nei þetta eru Samtök iðnaðarins. Þeir vita eitthvað um iðnað, er það ekki? Hörður Árnason, framkvæmdastjóri Marels, sem á hrós skilið fyrir að hafa yfirleitt þorað að segja meiningu sína í þessum efnum og langt á undan flestum öðrum talsmönnum í atvinnulífinu, varaði við þeim aðstæðum sem væru að halda innreið sína í íslenskt efnahagslíf. Strax á ákvörðunarstigi stóriðjuframkvæmdanna varaði hann við því sem þetta mundi hafa í för með sér fyrir annað atvinnulíf í landinu. Hann útskýrir m.a. áhrif gengishækkananna á rekstur útflutningsfyrirtækja. Þetta er maður sem hefur eitthvert vit á bókhaldi — við hæstv. forsætisráðherra getum væntanlega verið sammála um það — og fer ekki með fleipur í þeim efnum. Samkvæmt útreikningum Harðar hefur 25% gengishækkun sömu áhrif á útflutningsfyrirtæki og 80% launahækkun starfsmanna hefði.

Hvað segir hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson um þetta? Hv. þingmaður talar aðallega um ábyrgðarleysið í launamálum. Hann mundi örugglega segja eitthvað ef launin hækkuðu allt í einu um 80%. Það mundi örugglega hvína eitthvað í hv. þingmanni þá. En hvað er þá að segja um gengisstefnuna? Ef þetta eru réttir útreikningar (EOK: Hef ég ekki talað skýrt um það?) er þá ekki ábyrgðin líka á þeirra herðum? (EOK: Hef ég ekki talað nógu skýrt?) Jú, jú en þá þarf að gera eitthvað í því, hv. þingmaður, t.d. að ræða við sína eigin menn, halda ræður í þingflokki Sjálfstæðisflokksins en ekki hér úr pontu. (Gripið fram í: Hann gerir það.) Jæja, gott að vita af því en það hefur ekki skilað miklum árangri enn þá og það er greinilega enginn í þingflokki Framsóknarflokksins sem tekur að sér þetta hlutverk.

Þetta segir sína sögu og er auðvitað augljóst mál að fyrir hrein útflutningsfyrirtæki sem fá allar sínar tekjur í erlendum gjaldeyri og þar sem launakostnaðurinn er þá væntanlega miðað við þetta eitthvað undir helmingi af tilkostnaði, þá verkar þetta svona. Það er bara alveg hárrétt. Ég hef verið að heyra í forustumönnum í útflutningsfyrirtækjum t.d. í sjávarútvegi, fyrirtæki sem var að loka niður einni deild hjá sér núna fyrir stuttu síðan. Það er búið að ákveða að starfrækja hana ekki í vetur. Af hverju? Af því að tekjurnar dugðu ekki lengur fyrir launum og olíu. Heildartekjurnar af afurðunum dugðu ekki lengur fyrir launum og olíu. Það var ekki ein króna upp í neitt annað og ekki einu sinni það. Þegar búið var að greiða launakostnaðinn og kaupa olíu á skipið var minna en ekkert eftir. Þetta var starfsemi sem fyrir tveim, þrem árum síðan var í bærilegu jafnvægi. Ég spái því að ef engin ljós birtast neins staðar við sjóndeildarhringinn eða fyrir enda ganganna þá verði það fleiri sem á næstu mánuðum taki þá ákvörðun að loka frekar en halda áfram að tapa meira fé með því að hafa fyrirtækin opin. Þetta er bara reikningsdæmi hjá mönnum. Og ef menn standa frammi fyrir því að þeir tapa minna með því að loka heldur en halda áfram að reka þá gera þeir það ef þeir ætla að halda fyrirtækjunum lifandi og í voninni um að einhvern tíma taki eitthvað betra við.

Hæstv. ríkisstjórn verður að horfast í augu við það að úthaldi fyrirtækjanna eru mikil takmörk sett. Það er ekki hægt að koma hér ár eftir ár og segja það sama og árið á undan, að þetta sé tímabundið ástand og menn verði að þreyja þorrann og góuna. Fyrir það fyrsta hefur ástandið versnað síðan í fyrra. Við erum hér í verri sporum en fyrir ári þegar við áttum nokkurn veginn þessa sömu umræðu augljóslega. Gengisvísitalan hefur orðið mun lægri á þessu ári en allar forsendur gengu út frá í fyrra. Átti hún ekki að vera upp undir 120 samkvæmt fjárlagafrumvarpinu sem hér var til umfjöllunar á nákvæmlega sömu dögum fyrir ári? Spárnar voru síðan að lækka niður í 115, 113 þegar kom fram á árið og enn er talað um að hún verði niður undir 110 að meðaltali, sé ég, í greinargerð fjárlagafrumvarpsins frá því í haust. Hvað bendir til þess að það náist? Ekki neitt. Það er ljóst að þetta er miklu harkalegra áfall sem útflutningsstarfsemin og samkeppnisgreinarnar hafa orðið fyrir heldur en menn óraði fyrir jafnvel bara fyrir ári síðan. Að sama skapi er afkoman að versna og það þýðir að úthaldið verður minna. Fyrirtækin lifa einfaldlega styttri tíma af við þessar aðstæður. Sum þeirra geta bjargað sér kannski með því að loka og mögulega hafa þau einhverja starfsemi innan sinna vébanda sem enn ber sig. Það er t.d. alveg augljóst mál hvað mörgu stóru sjávarútvegsfyrirtækin hafa gert. Þau draga úr eða loka niður þeim deildum, rækjuvinnslu, bolfiskvinnslu eða sérvinnslu ýmiss konar sem ekki ber sig, leigja frá sér veiðiheimildirnar og reka þá hluta starfseminnar sem enn þá stendur undir sér, t.d. frystiskip í uppsjávarveiðum eða útflutning á ferskum afurðum. Það sem hefur hjálpað sjávarútveginum og í raun gerir það að verkum að hann er yfir höfuð starfandi í dag er náttúrlega mjög gott verð, mjög gott afurðaverð í mörgum greinum. Ef það hefði ekki komið til þá fullyrði ég að sjávarútvegurinn væri meira og minna að komast í þrot.

Ferðaþjónustan er í enn þá hörmulegri stöðu. Hún hefur engin úrræði. Hún getur ekkert gert. Hún getur ekki hreyft sig á neinn hátt gagnvart þessum aðstæðum nema bara gefast upp, játa sig sigraða. Hún getur ekki flutt úr landi. Það yrði handleggur að flytja Hótel Nordica og Hótel Sögu til London og reyna að starfrækja þau þar. Það er ekki létt verk. Ísland er hér, landið sem við erum að selja og tilkostnaðurinn er hér. Hann er í formi innlendra vinnulauna, innlendra kostnaðarþátta. En tekjurnar skila sér að stærstum hluta í erlendri mynt, í dollurum og evrum, og það eru gerðir samningar til tveggja, þriggja, fjögurra ára fram í tímann, t.d. við ferðaskrifstofur um gistingu. Það er mjög algengt að menn rúlli á undan sér tveggja, þriggja ára samningum. Hvernig halda menn að staðan sé hjá ferðaþjónustuaðila sem samdi við erlendar ferðaskrifstofur um gistingu í evrum fyrir þremur árum síðan eða dollurum fyrir fjórum? Sjá menn tekjutapið fyrir sér ef dollarinn var 105 þegar var skrifað undir eða evran 115? Síðan hefur innlendur kostnaður sennilega á þessum tíma hækkað um 10–15% en tekjurnar lækkað um 30–40%. Þetta er bara svona. Þetta er bara nákvæmlega svona. Hvað segja þeir um þetta, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra? Halda þeir að það sé létt ár fram undan hjá ferðaþjónustunni íslensku ef allar þessar aðstæður haldast óbreyttar eða versna heldur? Það eru nánast hverfandi möguleikar hjá þessum aðilum að sækja sér þetta í formi hækkaðs verðs. Um það er yfirleitt lítið að ræða. Jafnvel þó menn séu með lausa samninga, ekki bundnir af þegar gerðum samningum eins og margir eru, þá tekur markaðurinn ekki við því. Ísland þykir mjög dýrt land í dag nú þegar og það þýðir ekkert að tala um verðhækkanir af stærðargráðunni 10, 20, 30% á gistingu eða þjónustu. Þannig er nú þetta.

Ég held að hæstv. ráðherrar og ríkisstjórnin öll verði að reyna að komast af afneitunarstiginu og ræða um þessa hluti og við okkur hin í landinu um þessa hluti eins og veruleikinn er en ekki einhvern veginn allt öðruvísi. Það kemur mönnum alltaf í koll að lokum að reyna að búa til gervimynd og lifa í draumaheimi sem fær ekki staðist. Það viðurkenna í raun allir í dag, hver á sinn hátt, nema þá hæstv. ríkisstjórn að við séum í miklum erfiðleikum með þessi mál. Látum þá bara liggja á milli hluta friðarins vegna hvers vegna svo er komið sem komið er. Ég hef mínar skýringar á því. Þær eru sjálfsagt sæmilega þekktar. En geymum það þá í bili. Ræðum bara ástandið eins og það er í dag og hvað við getum gert til að reyna að koma okkur út úr þessu þannig að þjóðarbúið fari ekki alveg gjörsamlega í upplausn og þannig að við náum að sigla þessari þungt lestuðu skútu okkar gegnum brimgarðinn heilu og höldnu því hún er drekkhlaðin af skuldum. Sá er nú bara veruleikinn því miður. Á nánast alla mælikvarða er Ísland skuldugasta land innan Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD. Hér er skuldsettasta atvinnulífið svo miklu munar. Hér eru skuldsettustu heimilin að verða og Ísland er að slá metið sem skuldsettasta þjóðarbúið út á við. Við erum að taka þarna við forustusætunum af löndum eins og Finnlandi og Nýja-Sjálandi. Íslensku heimilin eru að fara fram úr þeim japönsku sem skuldugust og íslenska atvinnulífið er búið að vera það núna um nokkurra ára bil. Þetta er veruleikinn, frú forseti.

Nú er auðvitað sem betur fer margt sem við getum notað okkur til hughreystingar í þessum efnum og ber að sjálfsögðu að fagna því og ég hef þegar nefnt einn hlut sem er góð staða ríkissjóðs. Það er mjög gott. Það verður hægt að leggja þá meira á hann af þeim sökum en ég sé enga aðra framtíð honum til handa, sérstaklega ekki ef hinar óráðlegu skattalækkanir ganga allar í gegn en hann verði rekinn með verulegum halla aftur og taki að safna skuldum í þó nokkrum mæli strax frá og með árinu 2007. Það er engin önnur leið. Og ég býst við að það verði efnahagslega í raun og veru óumflýjanlegt og beinlínis skynsamlegt til að reyna að fleyta þjóðarbúinu og samfélaginu á Íslandi í gegnum erfiðleikana sem þá eru væntanlega að berja að dyrum. Þá verðum við bara að taka það á stóra sameiginlega sjóðinn okkar allra að standa undir velferðarþjónustunni og þeim nauðsynlegu framkvæmdum og öðrum hlutum sem við viljum eftir sem áður geta ráðist í. Hann verður að taka einhver lán á meðan það ástand varir. Öðruvísi verður ekki hægt að gera þetta. En það er auðvitað ekkert sem neinn óskar sér að ríkissjóður þurfi að fara að safna skuldum á nýjan leik en ríkisstjórnin er búin að búa til þá framtíð. Hún er búin að undirbúa hana markvisst þannig að engir aðrir kostir verða í stöðunni því að það verður ekki auðvelt í samdrætti og verulegum erfiðleikum að stórhækka skatta. Það eru bara þrjár leiðir til, það er alveg augljóst, það er niðurskurður, það er skattahækkun eða það er að sætta sig við að ríkissjóður verði rekinn með halla einhver ár og hann þannig notaður til að hjálpa þjóðarbúinu í gegnum öldudalinn.

Frú forseti. Síðan langar mig að víkja aðeins að nokkrum breytingartillögum og ræða þá jafnframt svolítið málefnin sem þar eiga í hlut og í einhverjum tilvikum varða tiltekna hæstv. ráðherra sem eru víst hér geri ég ráð fyrir og vonandi allir saman á staðnum.

Það er fyrst hér lítil breytingartillaga sem við flytjum þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og varðar það að setja á fót sjóð til að jafna ferðakostnað íþróttafélaga í landinu. Þetta er mikið þarfamál sem hefur verið hreyft hér á þingi mörg undanfarin ár og ég vildi nú gjarnan inna hæstv. forseta eftir því hvort formaður þingflokks Framsóknarflokksins, sem mun heita Hjálmar Árnason, eða gerði það síðast þegar ég vissi, sé hér á svæðinu, því að svo vill til að ekki ómerkari maður en formaður þingflokks annars stjórnarflokksins hefur hér á undanförnum árum safnað liði og flutt gagnmerka tillögu um þetta mál. (Gripið fram í: Formaður fjárlaganefndar líka.) Já, þetta er góð ábending, meðal flutningsmanna tillögunnar er líka formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Magnús Stefánsson og þarna eru fleiri framsóknarmenn stórmerkir, Birkir Jón Jónsson hv. þm., er hann ekki í fjárlaganefnd líka? (Gripið fram í: Jú, jú.) Dagný Jónsdóttir hv. þm. og síðan eru tveir merkismenn úr öðrum flokkum, það eru hv. þingmenn Guðjón Hjörleifsson og Kristján L. Möller. Ekki veit ég nú hvaða bræðralag hefur þarna myndast og hvers vegna leitað hefur verið til þessara þingmanna og þessara flokka en ekki annarra en málið er gott engu að síður og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að veita árlega af fjárlögum“ — bíddu, það er það sem við erum að tala um í dag, er það ekki? Jú. — „fé í ferðasjóð íþróttafélaga til að standa straum af kostnaði við keppnisferðir þeirra á viðurkennd mót. Úthlutun þeirra fari eftir reglum sem menntamálaráðherra setur.“

Ja-há. Síðan vill svo til, frú forseti, að ég er hér með ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins. Það var merk samkoma hér í bænum fyrr í haust þar sem haugur af sjálfstæðismönnum kom saman og gladdist og ályktaði út og suður í íþróttahöll eða var það á hóteli núna?

Í þessari merku ályktun þeirra um íþrótta- og tómstundamál stendur þetta, með leyfi forseta:

„Landsfundurinn hvetur hið opinbera“ — sem er nú væntanlega leyfilegt að skilja sem ríkið í þessu tilviki — „til að jafna stöðu íþróttaiðkenda vegna ferðakostnaðar með stofnun sérstaks sjóðs.“

Nú, það er bara tillagan. Það er nákvæmlega það sama og sagt er í tillögunni, enda hv. þm. Guðjón Hjörleifsson sjálfstæðismaður með flutningsmönnum.

„Íþróttahreyfingunni verði falin ráðstöfun þessa sjóðs eftir reglum sem settar verða í samráði við menntamálaráðuneytið.“

Já, það er mjög hliðstætt, úthlutun fari eftir reglum sem menntamálaráðherra setur, segir í tillögum.

Þá ætti þetta nú bara að vera í höfn. Hv. þm. Hjálmar Árnason er búinn að margflytja þessa tillögu hér. Hann er í meiri hlutanum, hann er með ekki ómerkari menn með sér en formann fjárlaganefndar og fjárlaganefndarmanninn Birki Jón Jónsson. Og landsfundur Sjálfstæðisflokksins, hins stjórnarflokksins, hefur ályktað sérstaklega um málið. Hvað er þá að vanbúnaði? Ekki er nú málið flókið í framkvæmd, það er ekki aldeilis gert ráð fyrir því. Samkvæmt tillögunni á þetta bara ósköp einfaldlega að vera þannig að það sé sett fé á fjárlög og menntamálaráðherra setji reglur um ráðstöfun fjárins. Einfaldara getur það ekki verið. Ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins er í sömu átt.

Getur það þá verið að það sé að gerast fyrir augunum á okkur að aftur og aftur séu engu að síður afgreidd fjárlög án þess að ein einasta króna sé sett í verkefnið? Hvaða einkunn á þá að gefa þessum málatilbúnaði? Hvað á þá að gefa mikið fyrir ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins? (Gripið fram í.) Hvað á þá að gefa mikið fyrir endurtekinn tillöguflutning forustumanna Framsóknarflokksins í málinu? Getur verið að þeir séu svona aðeins að reyna að slá sér upp meðal íþróttafélaganna í landinu án þess að hafa beinlínis vald á því heima fyrir, án þess að það séu miklar innstæður fyrir væntingum sem þeir eru að skapa meðal íþróttafélaganna sem ár eftir ár, mér liggur við að segja, bíða á hnjánum eftir því að eitthvað gerist í þessum efnum? Nei, ég verð að segja alveg eins og er, frú forseti, að eftir því sem árin líða minnkar nú virðing manns fyrir málatilbúnaði af þessu tagi. Er það virkilega þannig að mönnum finnst bara að þeir geti gert þetta sisvona, slegið sér á brjóst annars vegar og flutt tillögur inn á þing um úrbætur í einföldum málum, gefið fyrirheit og væntingar um að eitthvað slíkt muni gerast, ályktað um það á landsfundum sinna flokka, skapað í stemmningunni en gera svo bara ekki neitt þegar að því kemur að framkvæma hlutina, hafandi öll völd til þess. Á hverju stendur, hæstv. fjármálaráðherra?

Er hæstv. fjármálaráðherra á móti því að settir verði fjármunir í að standa við landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins um að jafna eitthvað ferðakostnað íþróttafélaga í landinu? (Gripið fram í.) Eru hv. þingmenn tilbúnir til þess að sameinast um að eitthvað verði gert í þessum málum? (Gripið fram í.) Það veitir nú ekki af, ekki gerið þið það. Það verður einhver að sjá um að þessar samþykktir ykkar komist í framkvæmd og ekki gerið þið það — þær sem vit er í. Það er náttúrlega ekki svo oft sem maður getur tekið undir og glaðst yfir ályktunum landsfundar Sjálfstæðisflokksins og skárra væri það nú að maður reyndi ekki að leggja þeim lið.

Nei, að öllu gamni slepptu, frú forseti, og í fúlustu alvöru þá finnst mér þetta neðan við allar hellur. Mér finnst það algjörlega viðkomandi mönnum til skammar og háðungar að hafa þetta svona. Þá er betra að sleppa því að vera með svona tillöguflutning eða álykta svona. Þá er það bara aumkunarvert. Hefur ríkissjóður þá ekki efni á þessu? Hver getur verið skýringin? Það eru engar, engar, engar, engar frambærilegar málsástæður fyrir því að þetta sé ekki hægt að gera ef viljinn er til staðar, ef menn meina eitthvað með því sem þeir eru að segja, sem þeir eru að flytja tillögur um. Eða eru þessir menn allir áhrifalausir í eigin flokkum?

Hver ræður þessu þá ef það dugar ekki að kippa af stjórnarþingmönnum og landsfundur annars stjórnarflokksins flytji um þetta tillögur? Er formaður fjárlaganefndar í engri aðstöðu til að reyna að þoka þessu máli áfram þó að hann sé einn af tillögumönnum? Ég hélt nú kannski að sá maður hoppaði ekkert gjarnan inn á útgjaldatillögur nema hann meinti eitthvað með því, því að hann er nú einu sinni formaður fjárlaganefndar og hlýtur að vita það maðurinn að þegar tillögurnar eru nú bara beinlínis um peninga, bara beinlínis um fjárframlög í tilteknu, skilgreindu skyni, þá annaðhvort gerist það eða ekki. Þá er það þannig, það er ekkert til að skýla sér á bak við í þeim efnum.

Í ljósi þess, frú forseti, að þessi tillaga var fyrst lögð fram á 126. löggjafarþingi af hv. þm. Hjálmari Árnasyni þá verð ég nú að segja að mér fer nú að þykja leggjast lítið fyrir kappann, formann þingflokks Framsóknarflokksins, formann fjárlaganefndar, alla miklu forustumennina sem þarna eiga hlut að máli ef ekkert gerist. Nóg um þetta, frú forseti.

Ég ætla næst að nefna hér breytingartillögu við alþjóðastofnanir, það er liðurinn Alþjóðleg friðargæsla, liður 03-401 1.85. Það er nefnilega þannig að þetta er einn af þeim stöðum þar sem ríkisstjórnin af rausn sinni hækkar allt í einu talsvert fjárlagalið. En þegar betur er að gáð og farið er í skýringar með fjárlagafrumvarpinu kemur í ljós að þetta er vegna flutninga á hergögnum fyrir NATO. Við leggjum til að þessi hækkun gangi til baka. Þarna er þó a.m.k. hægt að ósekju að spara peninga og ekki er það nú síður ástæða til að Alþingi taki upp þykkjuna fyrir sjálfs sín hönd í þessum efnum því að þessum framlögum var lofað að Alþingi forspurðu. Þessum framlögum lofuðu hæstv. utanríkisráðherra þáverandi og hæstv. forsætisráðherra þáverandi algerlega að Alþingi forspurðu án þess að hafa rætt það eða borið það upp við nokkurn einasta mann svo vitað sé. Ég hef nokkuð áreiðanlegar heimildir fyrir því að aðrir ráðherrar eða þingmenn í stjórnarliðinu fréttu af þessu með sama hætti og við stjórnarandstæðingar þegar þetta mál kom í fjölmiðlum frá útlöndum af fundum sem þeir sóttu þá þessir hæstv. ráðherrar.

Ég tel þar af leiðandi á engan hátt óeðlilegt að Alþingi einfaldlega taki af skarið í þessum efnum og segi að þessi útgjöld séu óþörf og ástæðulaus og þetta fé verði sparað. Því mætti að sjálfsögðu auðveldlega ráðstafa til annarra og betri verkefna, svo sem til að auka mannúðaraðstoð, þróunarframlög eða annað því um líkt.

Á þingskjali 407, breytingartillögu okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, í 4. tölulið flytjum við tillögu um að í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga verði ráðstafað fé til að fjármagna fyrsta áfanga af samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga um gjaldfrjálsan leikskóla. Það mundi duga vel fyrir einu af þeim fjórum árum sem í leikskólanum eru og mundi til að mynda nægja til að mæta útgjöldum allra sveitarfélaga í landinu þeirra sem leikskólar reka af því að gera síðasta ár leikskólans gjaldfrjálst. Það er alveg augljóst að þessu verkefni mun miða hægar en skyldi og kannski mun því lítt miða ef ríkið fæst ekki til samstarfs við sveitarfélögin um það. Þau hafa mörg hver ekki ráð á því að ráðast í þetta verkefni jafnvel þó að hugur þeirra standi til þess. Það liggur fyrir eftir könnun sem þingflokkur okkar gerði á því máli í haust með því að skrifa öllum sveitarfélögum í landinu. Um helmingur þeirra svaraði eða rúmlega það og veitti upplýsingar um stöðu þessara mála. Þar kemur fram að milli tíu og tuttugu sveitarfélög eru ýmist búin að stíga skref í þessa átt eða eru að undirbúa slíkt. En mjög mörg þeirra bera því við, sem skiljanlegt er vegna bágrar afkomu sveitarfélaganna, að þau hafi illa ráð á því nema að fá til þess auknar tekjur á móti.

Við flytjum einnig tillögu um að framlög verði hækkuð til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri sem ég nefni hér og okkur finnst fullnaumlega skömmtuð. Það stendur mönnum fyrir þrifum í áframhaldandi uppbyggingu og þróun þeirrar góðu stofnunar að ekki hafa fengist fjárveitingar til margra brýnna verkefna. Það hefur verið mönnum metnaðarmál og keppikefli að flytja heim eða gera mögulegar ýmsar aðgerðir og rannsóknir norðan heiða sem hingað til hefur þurft að sækja suður með ærnum kostnaði oft fyrir þá sjúklinga sem í hlut eiga eða málunum tengjast. Þetta hefur þegar skilað miklum árangri, t.d. hefur efling rannsóknar- og greiningarstarfsemi norðan heiða sparað bæði heilbrigðiskerfinu fé og sjúklingum af þessu svæði og aðstandendum þeirra stórfé þegar hægt er að losna við dýrar ferðir og uppihald dögum eða vikum saman hér syðra.

Hlutir eins og hjartaþræðingar, eins og að koma upp líknardeild og annað því um líkt eru löngu, löngu tímabær skref í áframhaldandi uppbyggingu og þróun Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri er flaggstofnun í heilbrigðismálum landsbyggðarinnar og miðlægt í allri sérhæfðri starfsemi um allt norðvestan- og austanvert landið og í raun er upptökusvæði þess að stækka með því skipulagi sjúkraflugs sem nú er að komast á og ljóst að hlutverk Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri verður enn mikilvægara en ella sökum þess að héðan í frá verður nær allt sjúkraflug nema hér á suðvesturhorninu og í Vestmannaeyjum byggt upp frá Akureyri og fyrsti viðkomustaður sjúklinga úr sjúkraflugi og sjúkraflutningum yfirleitt þar nema annað henti betur.

Við flytjum einnig breytingartillögu á öðru þingskjali um aukin framlög til St. Franciskusspítala í Stykkishólmi og Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og ég vil nefna þá tillögu lítillega. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs heimsótti þá stofnun í haust og átti þar mjög góða heimsókn. Við settum okkur inn í stöðu mála og hvaða áform menn hafa þar um aukna þjónustu og styrkingu þeirrar starfsemi sem er geysilega mikilvæg sem svæðisbundin stofnun. Menn eru þar að vissu leyti á þröskuldi þess að hún geti að fullu staðið undir nafni og að fullu sinnt hlutverki sínu með sóma, ekki bara yfir daginn heldur allan sólarhringinn og allt árið. Fyrst og fremst er það skortur á fjármunum sem stendur stofnuninni fyrir þrifum að koma á sólarhringsvöktum. Það leiðir til þess að fæðingaraðstaða nýtist mun verr en skyldi af því að ekki er hægt að tryggja með fullkomnu öryggi fæðingar þann hluta sólarhringsins og um helgar sem ekki eru bakvaktir við spítalann. Þetta kostar heilar 30–40 millj. kr. á ári. Það eru öll ósköpin sem kostar í raun að færa stofnunina upp á það stig að geta fullnýtt aðstöðu sína svo sem eins og fæðingaraðstöðu eða skurðstofur allan sólarhringinn allt árið. Það er að mínu mati sóun á peningum að láta það stranda á ekki þó stærri útgjaldapósti en þetta. Ljóst er að þetta háir starfseminni og stofnuninni á margan hátt og á fleiri sviðum en ástæða og tími er til að fara yfir hér.

Við leggjum einnig til að nokkrir fjármunir komi til stofnkostnaðar, þ.e. til að hefja innréttingu nýrrar álmu eða nýrrar hæðar í nýjustu byggingu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja sem stendur tóm og synd að geta ekki nýtt það húsnæði og full þörf er á.

Síðan verð ég að nefna lítillega málefni Háskólans á Akureyri, frú forseti. Reyndar liggur inni fyrirspurn frá mér um það mál til hæstv. menntamálaráðherra, en hæstv. ráðherra er fjarri góðu gamni eins og hér hefur þegar orðið frægt í dag í umræðum. Það má kannski segja um þetta að nota megi sama orðatiltæki og haft er eftir ónefndum slökkviliðsstjóra í Reykjavík eða brunamálastjóra þegar hann var svo óheppinn að eigin sögn að vera utan bæjar þegar hér varð stórbruni. Var viðtal við hann í hádeginu daginn eftir og hann tók þannig til orða að segja mætti að hann hefði verið fjarri góðu gamni. Svipað má ef til vill segja um hæstv. menntamálaráðherra að hún sé fjarri góðu gamni þegar kemur að því að ræða málaflokk hennar því það væri sannarlega ástæða til að hæstv. menntamálaráðherra væri í eigin persónu til að svara t.d. fyrir styttingu náms til stúdentsprófs og fleiri hluti, fjárveitingar til háskólanna sérstaklega.

Háskólinn á Akureyri er held ég að flestra dómi einhver best heppnaða, ef ekki yfir höfuð best heppnaða aðgerð á sviði mennta- og byggðamála sem menn hafa ráðist í á seinni áratugum. Auðvitað stæði Háskólinn á Akureyri sem menntastofnun fyrir sínu þó menn væru ekkert að velta öðru fyrir sér. En það er væntanlega ekki verra að óumdeilt er að hann hefur haft gríðarlega jákvæð áhrif á byggðaþróun, á samfélagsþróunina á því svæði sem hann hefur sérstaklega áhrif á og reyndar úti um allt land, meira að segja á höfuðborgarsvæðinu. Hann hefur verið ágætlega hollur litli bróðir eða litla systir Háskóla Íslands, míns gamla skóla. Menn höfðu gott af því þar að Háskólinn á Akureyri varð til. Hann hefur verið í fararbroddi á ýmsum sviðum, t.d. í uppbyggingu fjarnáms á háskólastigi ásamt og með Kennaraháskólanum sem hefur líka staðið sig mjög vel í þeim efnum. Háskólinn á Akureyri hefur verið snöggur til og hafið kennslu í nýjum greinum, sumum hverjum sem jafnvel voru búnar að vera afvelta og ekki höfðu komist áfram í áratugi. Hann hefur vaxið og dafnað, orðið að stórum og mikilvægum vinnustað og glæsilegri menntastofnun og hefur gríðarlega góð áhrif. En nú er því miður svo komið að vöxtur Háskólans á Akureyri er að stöðvast, ekki vegna þess að ekki sé eftirspurn eftir þjónustu hans, ekki vegna þess að hann fái ekki umsóknir í tuga eða hundraða tali frá nýjum nemendum. Nei, heldur vegna þess að hann fær ekki nóga peninga. Það er ósköp einfaldlega þannig að það er að því er virðist pólitísk ákvörðun að hægja á eða jafnvel stöðva vöxt Háskólans á Akureyri með því að skammta svo naumt til hans fjármuni og það hefur verið gert þrjú ár í röð.

Strax á árinu 2002 mættu Háskólanum á Akureyri nýir tímar að þessu leyti. Hann var rekinn með halla upp á 36 millj. kr. Sá halli varð um og yfir 100 millj. kr. árið eftir og árið þar á eftir. Í lok árs 2004 var hallinn kominn í um 230 eða 240 millj. kr., 35 + 100 + 100 og á yfirstandandi ári er háskólinn í miklum erfiðleikum hafandi þó skorið niður og er þegar kominn í miklar sparnaðar- og niðurskurðaraðgerðir. Það þýðir ekkert annað en að horfast í augu við það að þetta er þegar farið að hafa veruleg áhrif á starfsemi háskólans, er þegar farið að valda því að hann getur ekki haldið áfram að byggja sig upp, taka við nýjum nemendum, þróa þjónustu sína, efla fjarkennslu og annað því um líkt eins og hugur manna stendur þar til.

Háskólinn á Akureyri hætti t.d. við að innrita nýnema í tölvunarfræði. Hann hætti við að innrita nemendur á fyrsta ár einfaldlega í sparnaðarskyni. Búið er að grípa til einhverra — ja, maður hlýtur að kalla það bráðabirgðaráðstafana til að auðvelda skólanum að kljást við vandann á yfirstandandi ári og lifa hann af en þær eru t.d. fólgnar í því að hann fær að nota söluandvirði eignar í rekstur. Hann fær að nota söluandvirði eignar í Glerárgötu í rekstur sem auðvitað er neyðarbrauð því söluandvirðið hefði þurft að fara í áframhaldandi uppbyggingu á húsnæði í staðinn fyrir það sem selt var. Auðvitað. Og til viðbótar niðurskurði eða minni fjárveitingum til rekstrar skólans er verið að snardraga úr og nánast fella niður framlög til áframhaldandi uppbyggingar sem er ákaflega bagalegt í ljósi þess að háskólinn starfar á þremur stöðum í bænum og allar hagræðingaráætlanir hafa gert ráð fyrir því að það tækist að flytja starfsemina saman á einn stað. Það er mjög umhendis fyrir háskólann að fara að reyna að endurskipuleggja starfsemi sína og draga úr rekstrarkostnaði við þessar snúnu aðstæður sem vonandi verða og áttu aldrei að verða nema til bráðabirgða.

Svo bætist það við að menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins vildi endilega að nýbyggingin við háskólann yrði byggð í einkaframkvæmd sem er náttúrlega að reynast einhver dýrasti biti sem menn hafa lengi tekið sér í munn. Hér stóð formaður fjárlaganefndar fyrr í dag og upplýsti — hvað? Að kostnaðarauki, ekki heildarkostnaður, nei, kostnaðarauki opinberra stofnana í húsinu er yfir 100 millj. kr. á ári. Yfir 100 millj. kr. á ári í viðbót fara í húsaleiguna í borgun vegna þess hversu dýr sú leið er að reynast sem valin var til að þjóna einkaframkvæmdarkreddunni.

Það sem ég ætlaði mér að spyrja hæstv. ríkisstjórn um, hæstv. forsætisráðherra segir að ríkisstjórnin geti svarað fyrir sig og menn þurfi ekki að hafa áhyggjur af fjarveru einstakra ráðherra, þá er prýðilegt að taka hæstv. forsætisráðherra á orðinu og spyrja hann: Hvernig stendur á því að ríkisstjórnin skuli búa svona að þessu flaggskipi byggðamála og menntunar á æðri skólastigum á landsbyggðinni sem Háskólinn á Akureyri er? Er það ekki metnaðarleysi að láta vöxt og uppbyggingu Háskólans á Akureyri stöðvast í sjálfu góðærinu ef marka má? Erum við þá svo illa stödd úr því að við gátum á miklu erfiðari tímum hafið starfrækslu Háskólans á Akureyri og haldið áfram að byggja hann upp jafnvel á allra erfiðustu árum m.a. meðan við vorum saman í ríkisstjórn, ég og hæstv. forsætisráðherra. Menn létu það þó ekki aftra sér frá því að hleypa nýjum deildum við Háskólann á Akureyri og hefja þar nýbyggingar á þeim árum. En núna á sjálfri gullöldinni hjá hæstv. forsætisráðherra og hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni eru allt í einu ekki til peningar til að halda áfram þróun þessarar stofnunar. Það er mjög dapurlegt. Eða er ríkisstjórnin kannski ósammála því að Háskólinn á Akureyri hafi verið jafnjákvæð aðgerð og almennt er talið í mennta- og byggðamálum? Þá er náttúrlega allt annað uppi ef ríkisstjórnin hefur aðra skoðun á því og vill kannski skipta honum út fyrir einhverja aðra hluti sem hún telur heppilegri fyrir byggðirnar en þá er ég innilega ósammála því.

Ég vil að lokum hvað þetta varðar minna á og hamra á því að fjarnámið, sem Háskólinn á Akureyri og auðvitað í þeim mæli sem það er í boði hjá öðrum aðilum sérstaklega Kennaraháskólanum og vissulega Háskóla Íslands líka og fleiri aðilum, er algert undirstöðuatriði þess að landsbyggðin og sérstaklega hinar dreifðu byggðir geti haldið í við landsmenn að öðru leyti og aðrar byggðir landsins í þessum efnum. Það gleðilega er sem þrátt fyrir allt hefur þó verið að gerast að möguleikar hafa opnast fyrir fólk hundruðum saman í dreifðum byggðum landsins til að stunda nám á háskólastigi sem alls ekki var í boði áður. Ég get sem dæmi nefnt heimabyggð mína, Þórshöfn, Þistilfjörð og Raufarhöfn þar sem sex manns eru núna í réttindanámi til kennaraprófs í gegnum fjarnám frá Háskólanum á Akureyri. Þetta er reikna ég með í flestum ef ekki öllum tilvikum fólk sem ekki hefði haft tök á að afla sér þeirrar menntunar nema vegna þess að slíkir möguleikar eru í boði. Þetta eru leiðbeinendur, fólk sem er bundið við fjölskyldu sína og hefði ekki átt annan kost en flytja þá varanlega í burtu ef það hefði ætlað að fara í þessa menntun, ekki átt þess kost að afla sér hennar með starfi sínu á staðnum augljóslega nema í gegnum fjarnámið.

Þá kem ég að því sem mér finnst að hæstv. ríkisstjórn mætti huga að. Ef menn vantar upplögð verkefni til að styðja við bakið á væri það að auðvelda sveitarfélögunum og byggðunum á hinum endanum fyrir sitt leyti að mæta þeim kostnaði sem þessu er samfara. Í mörgum þessum allra minnstu sveitarfélögum eru það veruleg útgjöld sem munar um að kaupa þann búnað, sjá fyrir því húsnæði og styðja við bakið á því með mannahaldi sem helst þarf að vera ef þetta á að geta farið fram með fullri reisn. Og þetta væri auðvelt að gera í gegnum Byggðastofnun eða atvinnuþróunarfélög og styðja við þessar litlu útstöðvar þar sem menn safnast saman til að stunda sitt fjarnám.

Frú forseti. Um byggðamálin væri hægt að hafa langt mál. Aðrir hafa komið inn á það á undan mér og ég vísa til þeirra breytingartillagna sem við flytjum um að efla Byggðastofnun — eða við skulum orða það þannig eins og auðvitað er, að gera Byggðastofnun starfhæfa á nýjan leik. Það er alveg með ólíkindum að hæstv. ríkisstjórn er við 2. umr. fjárlaga og við afgreiðslu fjáraukalaga með þær aðstæður að Byggðastofnun er óstarfhæf, er búin að loka og ekkert bólar á tillögum um að taka á því máli. Menn þvæla eitthvað um að það sé í nefnd og það sé í skoðun. Að skoða hvað? Þarf einhverja skoðun á því að ef eigið fé Byggðastofnunar er farið niður fyrir viðmiðunarmörk þá þarf að auka það til að hún geti aftur orðið starfhæf? Er það eitthvað flókið mál? Nei. Þarf einhverja skoðun á því að það sem langmest ríður á að gera í þessum efnum er að efla atvinnuþróunarstarfsemina og styðja við bakið á atvinnuþróunarfélögunum í gegnum Byggðastofnun eða nota hana sem tæki í þeim efnum? Þegar lögum um Byggðastofnun var síðast breytt var hún flutt frá forsætisráðuneytinu og þáverandi hæstv. forsætisráðherra, Davíð Oddssyni, sem hafði verið yfirmaður hennar um skeið og hún flutt í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið. Þar er húsbóndi hæstv. ráðherra Valgerður Sverrisdóttir. Hún var sem sagt flutt til Framsóknarflokksins. Nú man ég ekki nákvæmlega ártalið en ég er ekki frá því að þetta hafi getað verið árið 2000 eða 2001 og síðan hefur Framsóknarflokkurinn farið með þessi mál. Byggðamál hafa af þessum sökum formlega heyrt undir Framsóknarflokkinn síðustu 4–5 ár. Er þetta ekki allt saman rétt? Jú, ég hygg það.

Þá er spurningin: Eru framsóknarmenn stoltir af frammistöðunni? Er hæstv. forsætisráðherra stoltur af frammistöðu Framsóknarflokksins í byggðamálum eftir að hafa farið með þau í hálfan áratug og komið hlutunum þannig fyrir að Byggðastofnun er óstarfhæf? Hún er búin að loka. Hún á ekki fyrir skuldbindingum sínum miðað við þau eiginfjármörk og þær reglur sem gilda um sambærilegar eða slíkar fjármálastofnanir. Hvernig ætlar hún þá að fara að? Hvað verður þá um núverandi viðskiptavini hennar ef þeir þurfa á eðlilegri fyrirgreiðslu að halda í formi þess að ræða við sinn lánveitanda um biðlund, um skuldbreytingar eða annað slíkt? Getur það gengið að hafa Byggðastofnun óstarfhæfa? Nei, augljóslega ekki, a.m.k. gagnvart þeim verkefnum sem hún hefur með höndum og hún hlýtur að þurfa að virða skuldbreytingar sínar og standa við skilmála gagnvart viðskiptavinum sínum. Menn geta deilt um hvort eigi og megi endurskoða eitthvað hlutverk hennar inn í framtíðina og hvort hún þurfi að sinna þeirri lánastarfsemi sem hún hefur áður gert. Margt hnígur að því að það þurfi ekki endilega að vera með sama hætti og áður var, auðvitað er engin ástæða til að reka Byggðastofnun ef lánin frá henni eru jafnvel dýrari en bjóðast á almennum markaði, að því tilskildu að þeir aðilar séu þá tilbúnir til að lána út í þau byggðarlög og út í þá hluti sem Byggðastofnun hefur þó gert og á auðvitað að gera.

Mér finnst það ekki vera beysin frammistaða hjá Framsóknarflokknum að hafa tekist að koma því þannig fyrir, eftir að vera búinn að fara með byggðamálin og málefni Byggðastofnunar í ein fimm ár, að hún sé bókstaflega óstarfhæf í fjárhagslegum skilningi. Hún hefur að vísu legið undir grun um að vera ekki mjög vel fúnkerandi, m.a. vegna deilna um hennar mál, flutninga og fleiri hluta sem hafa haft áhrif á starfsemina undanfarin ár. Framsóknarmönnum hafa kannski verið mislagðar hendur með stjórn sína á apparatinu og ætla ég ekki að nefna nein nöfn í því sambandi en eitthvað var um deilumál þarna og læti. En svona er þessu alla vega komið, eftir glæsta fimm ára húsbóndatíð Framsóknarflokksins í byggðamálaráðuneytinu og farandi með Byggðastofnun, að hún er óstarfhæf og lokuð. Það er búið að loka sjoppunni.

Ég er meðflutningsmaður ásamt fleirum að tillögu um barnageðdeild og vísa til hennar og vona svo sannarlega að hægt sé að fá skilning á því hér að skoða eitthvað málefni þeirrar starfsemi. Í orði kveðnu ljúka auðvitað allir upp lofsorði á það sem þar er gert við erfiðar aðstæður en þegar á borðið kemur vill stundum verða minna úr. Það er að sjálfsögðu gott og virðingarvert að menn fái viðurkenningu fyrir störf sín, eins og menn gerðu þar nú á dögunum og svo sannarlega verðskuldað, en það er öllu lakara ef stjórnvöld sjá ekki sóma sinn í því að skila sínum hlut og það verður ekkert um það deilt að þessi starfsemi býr við óviðunandi aðstæður og úr því þarf að bæta.

Síðasta efnið sem ég ætla örstutt að nefna í lokin er afgreiðslan á Mannréttindaskrifstofu Íslands. Við ræddum það mál verulega á síðasta ári. Það var tilefni nokkuð heitra deilna og ekki að ástæðulausu því hæstv. ríkisstjórn greip þar til sérkennilegrar ráðstöfunar, satt best að segja, að taka þessa ágætu starfsemi út af fjárlögum í þeim skilningi að hún hafði áður sérmerktan og fastan og tryggan tekjustofn þannig að starfsemi hennar var í föstum skorðum og engin óvissa þar um. Alþingi gekk frá málinu með afgreiðslu fjárlaga hverju sinni og þannig var það. En hæstv. ráðherrar, utanríkisráðherra og dómsmálaráðherra, sameinuðust um það, eða einhvern veginn gerðist það, að Mannréttindaskrifstofa Íslands var tekin út úr fjárlögunum og þeim fengið húsbóndavaldið yfir því að útbýta tilteknum fjármunum til mannréttindastarfsemi eða slíkra hluta í landinu. Hver varð niðurstaðan? Það reyndist ekki orð að marka svardaga sumra talsmanna stjórnarliðsins hér um að þetta væri bara kerfisbreyting. Það reyndist einskis virði að hafa þá hér í ræðustólnum, þar á meðal, ef ég man rétt, formann fjárlaganefndar, Magnús Stefánsson, lofandi því að þetta væri bara kerfisbreyting, að sjálfsögðu yrði rekstur hennar tryggður áfram þótt með nýju fyrirkomulagi væri. Nei, hæstv. ráðherrar þjónuðu lund sinni með því að taka að verulegu leyti peningana af Mannréttindaskrifstofunni. Það er veruleikinn. Til þess voru refirnir skornir, það kom í ljós.

Nú á enn að ganga svo frá að þessi skrifstofa, sem m.a. á að veita stjórnvöldum aðhald og gefa skýrslur um ástand mannréttindamála til erlendra aðila og vera tengiliður okkar við t.d. starf Sameinuðu þjóðanna á þessu sviði, á áfram að vera sett undir það jarðarmen að þurfa að ganga fyrir ráðherra og biðja þá náðarsamlegast um peninga. Óskaplega er lágt á þessu risið, frú forseti. Það er von að hæstv. forsætisráðherra velji að þoka sér út í hliðarsal (Forsrh.: Ég heyri þetta.) og sé ekki stoltur af þessari framgöngu. Eða er hann það kannski? Finnst honum vera til fyrirmyndar að standa svona að málum? Er ekki með einhverjum ráðum hægt að hætta þessari vitleysu, snúa ofan af þessu? Er það einhverjum til sóma að Mannréttindaskrifstofan þurfi að vera bónbjarga og upp á það komin að það takist að safna saman fé með einhverjum ráðum meðal stéttarfélaga og velvildarmanna hist og her úti í bæ? Ef það er einhver stofnun sem á einmitt ekki að þurfa þess, þarf að geta starfað óháð á traustum fjárhagslegum grunni og geta sagt það sem stundum þarf að segja í þessum efnum, óháð því og án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að hún móðgi með því stjórnvöld, þá er það Mannréttindaskrifstofan.

Þessi afgreiðsla varð hæstv. ríkisstjórn auðvitað til skammar og áframhaldið verður það ef hún ekki sér sóma sinn í að bæta úr því. Ég held að langbesti frágangurinn á þessu máli væri sá sem við reyndar lögðum til, formenn stjórnarandstöðuflokkanna, í frumvarpi til fjáraukalaga strax í kjölfar afgreiðslu fjárlaga í fyrra að Mannréttindaskrifstofan færðist sem sérstakur liður undir Alþingi. Ég held að skoða eigi það í miklu fleiri tilvikum að starfsemi af þessu tagi, sem menn vilja tryggja að sé algerlega sjálfstæð og ósnertanleg og ekki á nokkurn hátt sett undir áhrifavald framkvæmdarvaldsins, nógur er yfirgangurinn samt, sé færð undir Alþingi. Hún starfi í skjóli af Alþingi sjálfstæð og óháð en í skjóli af Alþingi og í skjóli af fjárveitingavaldinu, fjárstjórnarvaldinu sjálfu sem er auðvitað Alþingi eða á að vera samkvæmt stjórnskipun landsins þó að það grautist dálítið saman. Það er ágætt að rifja upp og hafa í huga að það er nú þannig að samkvæmt stjórnskipun okkar er fjárstjórnarvaldið hér og reyndar hefur verið rætt um það í nefnd sem undirritaður á sæti í að ástæða væri til að taka það inn í stjórnarskrá að hér skuli afgreidd fjárlög og hér sé fjárstjórnarvald.

Frú forseti. Ég læt þá þessari ræðu minni lokið og þykir sjálfsagt ýmsum að mátt hefði vera fyrr en ég hef ekkert sérstakt samviskubit yfir því að hafa farið yfir þá hluti í þessu máli sem ég vildi ræða.