132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[18:58]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Seðlabankinn hefur ekki spáð 8% verðbólgu á árinu 2007. Það liggur fyrir að það hefur verið mikil uppsveifla í íslensku þjóðfélagi og hún mun ekki vara að eilífu. Það er mjög mikilvægt að sú lending sem verður í efnahagsmálum á næstunni verði, eins og menn segja, mjúk. Ég tel enga ástæðu til annars en ætla að svo verði. Það er m.a. mat aðila vinnumarkaðarins sem hafa nýlega staðfest kjarasamninga sína. Ég man ekki betur en að hv. þingmaður væri fyrir stuttu síðan að spá því að mikill tekjusamdráttur yrði hjá ríkissjóði á árinu 2007 og árinu 2008. Gera má ráð fyrir því, eins og hann sagði, að allmikil breyting verði en þó er ekkert víst í þeim efnum. Það ríkir mikil bjartsýni í þjóðfélaginu sem betur fer. Það er mikill hugur í fyrirtækjum og einstaklingum að fara út í framkvæmdir til atvinnuuppbyggingar. Auðvitað vitum við þetta ekki nákvæmlega. En hv. þingmaður sagði að menn þyrftu að grípa til aðgerða, ef ég man rétt, ég skrifaði það hjá mér, þannig að þjóðarbúið færi ekki í upplausn. Mér finnst hann vera að mála allt of dökka mynd af ástandinu. Það eru ákveðnir erfiðleikar á vissum sviðum eins og alltaf hafa verið en yfirleitt gengur þetta allt saman vel. Atvinnustigið er mjög hátt. Það hefur sjaldan eða aldrei verið jafnlítið atvinnuleysi, sem betur fer. Ég vænti þess að ég og hv. þingmaður getum verið sammála um að atvinnustigið skiptir miklu máli. Það er það mikilvægasta fyrir hverja fjölskyldu að hafa atvinnu og hafa fyrirvinnu og möguleika til að taka þátt í starfi þjóðfélagsins.