132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[19:05]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er allt rétt munað hjá hv. þingmanni, nema bara að hann lætur staðar numið við sín eigin orð og segir að ég hafi hneykslast á því sem hann sagði. Ég spurði á móti og hef oft spurt síðan: Hvað á Seðlabankinn að gera? Ef hann rær einn á móti straumnum og fær enga hjálp til þess og er bundinn af ákvæðum laga sem ríkisstjórnin hefur ekki haft forgöngu um að breyta og hann er bundinn af yfirlýsingu sem ríkisstjórnin fyrir sitt leyti samþykkti og var undirrituð sameiginlega árið 2001 í framhaldi af lagasetningunni, sem setur vikmörk verðbólgunnar þar sem þau eru. Þannig að það er nú ansi einfalt af ríkisstjórninni að koma og kenna Seðlabankanum einum um. Hvað á Seðlabankinn að gera? Hann hefur bara þetta eina tæki og lái honum hver sem vill þó hann sé þá að reyna að nota það. Menn kunna að kalla þetta og mega kalla þetta brotna ár, en það er þá bara þessi eina brotna ár sem Seðlabankinn hefur. Það er að reyna að halda aftur af þenslunni og slá á verðbólguna og reyna að hafa áhrif á framtíðarvæntingarnar í gegnum vaxtabreytingarnar sem eiga að hafa áhrif inn í framtíðina fyrst og fremst. Og meðan hann er bundinn af óbreyttum ákvæðum laga um verðbólgumarkmið sem eina meginmarkmiðið í starfsemi bankans, hvað varðar peningastjórn, og þeim vikmörkum sem hann er líka bundinn af þangað til yfirlýsingunni verður breytt, þá sé ég ekki hvað hann getur gert. Væri ekki Seðlabankinn að brjóta lög ef hann reyndi ekkert að aðhafast þegar verðbólgan fer út fyrir vikmörkin? Hann væri að minnsta kosti að brjóta þessa yfirlýsingu sem er gerð á grundvelli stoðar í lögunum um Seðlabankann. Mér finnst þetta geysilega ósanngjarnt. Með því er ég ekki að segja að Seðlabankinn sé alvitur og ákvarðanir hans séu hafnar yfir gagnrýni. (Forseti hringir.) En ef menn horfa með sanngirni til stöðu hans þá verða menn að minnsta kosti að svara því hvað annað hann gæti gert.