132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[19:07]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í 2. mgr. 3. gr. laga um Seðlabankann segir: Með samþykki forsætisráðherra getur Seðlabankinn sett verðbólgumarkmiðum sínum tölulegt gildi. Þannig er nú textinn. Og hvað átti þá Seðlabankinn að gera? Hann átti auðvitað að láta kyrrt. Hann átti bara ekki að koma nálægt þessu. Það lá fyrir að þessi þjóð hafði farið óvarlega. Hún hefur hækkað launin sín meira að raungildi en allar samkeppnisþjóðir í kringum hana. Miklu meira. Hún hefur líka tekið ákvörðun um að fara í miklar framkvæmdir. Það var óumflýjanlegt að þjóð sem svo hagar sér fái einhverja verðbólgu. Og hvað með það? Verðbólgan bara fer í gegn. Hún lækkar kaupmáttinn í erlendum varningi og það er ekkert við því að gera. Það er bara eðlilegt og þurfti að koma í veg fyrir það hvort sem er. Hvers vegna erum við, virðulegi forseti, að berjast gegn verðbólgu? Það eru allir búnir að gleyma því. Við erum á móti verðbólgu vegna þess að við vitum að hún skaðar efnahagslífið. Það að vita að verðbólgan skaðar efnahagslífið réttlætir ekki það að stjórnendur peningamála gangi af efnahagslífinu dauðu. Eins og hefur verið sagt hér áður, þegar svo er komið, er lækningin orðin hættulegri en sjúkdómurinn. Það er staðreyndin og þannig stendur það í dag. Ég vil enn þá ítreka, hvað er það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vill gera í peningastjórnarmálum? Er hann sammála mér eða er hann ósammála mér?