132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[19:09]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála því að beiting vaxtastýringatækisins, eins og Seðlabankinn hefur gert, er að sjálfsögðu ekki gallalaus aðferð. Það má alveg deila um bæði hversu virk hún er og það má líka deila um hvort neikvæðu afleiðingarnar séu ekki miklar hlutfallslega miðað við jafnvel meintan ávinning af henni. En ég endurtek, hvað á Seðlabankinn að gera meðan hann fær enga (EOK: Ekkert. Láta kjurrt.) hjálp frá einum eða neinum? Nei, það held ég að væri nú til að fara úr öskunni í eldinn, frú forseti. Ríkisstjórnin á auðvitað að vinna með Seðlabankanum. Það er ekki nokkur minnsti vafi í mínum huga að Seðlabankinn hefði farið vægar í ákvörðunum sínum um vaxtahækkanir ef hann hefði talið sig hafa stuðning og hjálp af því sem væri verið að gera, t.d. á vettvangi opinberra fjármála og opinberrar stefnu. Ef ríkisstjórnin gæti horfið af braut hinnar blindu og glórulausu stóriðjustefnu, ef ríkisstjórnin hefði fallist á að draga úr eða fresta skattalækkunum, það hefði að sjálfsögðu haft áhrif.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson kemur hér og talar mikið um launahækkanir og launasummuna. En er þetta ekki sami hv. þingmaðurinn og styður það að lækka sérstaklega skatta og á því fólki sem mest hefur launin og setja þá peninga í umferð? Það verða allir að líta í eigin barm. Það þýðir ekkert að leita sífellt að sökudólgunum í annarra ranni og tala eins og ríkisstjórnin beri hér enga ábyrgð og hafi hvergi nærri neinu komið. Það lengsta sem hv. þingmaður komst var hér áðan að segja: Farið út í miklar framkvæmdir. Það örlaði fyrir viðurkenningu á því, svona með jákvæðri túlkun, að hv. þingmaður gerði sér grein fyrir því kannski að stóriðjustefnan hefði þarna einhver áhrif.