132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[19:54]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi fagna ég því að í salnum er sjálfstæðismaður sem kemur upp og segir blákalt að hún styðji að vaxtabótakerfið verði lagt niður. Hér var því lýst yfir og það er þá gott að vita af því. Ég tek hatt minn ofan fyrir því að það sé gert hér með þessum hætti og sagt hreint út, vegna þess að þetta er einmitt það sem ég var að fiska eftir. Því hlýt ég núna að ítreka þá spurningu mína til framsóknarmanna, sem reyndar eru ekki hér í salnum, hvort þessi skerðing núna í ár sé byrjunin á því að leggja niður vaxtabótakerfið. Miðað við hvernig Sjálfstæðisflokkur eða ungir sjálfstæðismenn hafa ályktað, miðað við hvernig ráðherrar og þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa talað um vaxtabótakerfið þá sýnir þessi skerðing mér núna að ríkisstjórnin sé á hraðri leið með að leggja niður vaxtabótakerfið.

Því segi ég enn og aftur að vaxtabætur eru notaðar til þess að hjálpa skuldsettasta unga fólkinu með lægstu tekjurnar til þess að koma sér upp þaki yfir höfuðið og það er ekki hægt að boða fjölskyldustefnu á sama tíma og þetta er skorið niður. Það er mín skoðun. Þarna greinir okkur á við marga þingmenn sjálfstæðismanna.

Ég tel vaxtabótakerfið mikilvægt tæki til þess að jafna kjör og létta barnafjölskyldum róðurinn í sinni þrautagöngu, verð ég að segja, í okkar samfélagi, í gegnum fyrstu skrefin við að koma sér upp fjölskyldu (Forseti hringir.) og þaki yfir höfuðið.