132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[20:26]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þá ræðu sem hún flutti hér þar sem farið var yfir margar breytingartillögur sem var reyndar eftir. Ég lýsi þeirri skoðun minni hér, virðulegi forseti, að það væri mjög eðlilegt að við þingmenn sem ekki störfum í fjárlaganefnd fengjum að hlýða á nefndarmenn áður en settar eru á langar ræður af annarra hálfu því að auðvitað vakna margar spurningar sem þyrfti að fá svör við. Meðal annars kemur fram í breytingartillögum meiri hlutans að setja eigi 50 millj. kr. í endurbætur á fangelsum. Það er vel. En þær milljónir eiga að fara á Akureyri og Kvíabryggju þar sem fjölga á rýmum. Til eru þegar 27 millj. kr., uppsafnaðar, á Kvíabryggju, en Hegningarhúsið við Skólavörðustíg hefur verið rekið á undanþágum núna árum saman, menn segja jafnvel að þær undanþágur fáist ekki aftur, verði ekki endurnýjaðar. Hvað varðar kvennafangelsið þá lá fyrir nokkuð löngu síðan að þar þyrfti að fara í verulegar úrbætur. Ég spyr hv. þingmann: Hver er staða þessara mála?

Síðan spyr ég um framlög ríkisins til sérkennsludeildar, tilraunaverkefnis fyrir börn með geðraskanir sem velferðarsjóður og sveitarfélög á Suðurlandi hafa komið að. Ég hélt að hæstv. forsætisráðherra hefði talað um að ríkið kæmi líka að því tilraunaverkefni. Hver er staða þess?

Loks spyr ég um símenntunarmiðstöðvarnar sem hv. þingmaður minntist á. Ég sé að framlög hafa lítið hækkað til þessara símenntunarmiðstöðva sem við erum með vítt og breitt um landið og eru kannski eitthvert stærsta og mesta byggðamál sem sett hefur verið á laggirnar á undanförnum árum. Hver er sýn hv. þingmanns á starfsemi þeirra og framhaldi á háskólastigi miðað við þær fjárveitingar sem þar er um að ræða?