132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[20:30]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi símenntunina þá sé ég að þar er sérmerkt verkefni, ekki merkt þeim símenntunarmiðstöðvum sem eru starfandi í dag sem hafa fengið úthlutað á fjárlögum. Þessi viðbót eftir samninga við aðila vinnumarkaðarins, 100 millj. kr. sem þar er um að ræða, eru ekki ætlaðar í símenntunarmiðstöðina. Ég spyr um væntanlega skiptingu.

Ég ítreka spurningu mína varðandi tilraunadeild, grunnskóladeild fyrir börn með geðraskanir. Ég lýsi eftir stefnu miðað við að legið hafi fyrir árum saman að t.d. kvennafangelsið í Kópavogi gefur ekki kost á að þar séu vistaðar konur með geðraskanir. Þeir fangar sem inn koma, oft eftir langvarandi neyslu, eru margir mjög illa haldnir og búa sumir við alvarlega geðveiki. Það hefur meira að segja þurft að flytja konu og vista á Litla-Hrauni, sem kannski er í sjálfu sér ekkert verra en að vista hana í fangelsinu í Kópavogi. Þar þarf verulegra úrbóta við.

Ég harma að ekki skuli sjást meiri metnaður af hálfu hæstv. dómsmálaráðherra, sem hefur lýst því yfir að loksins ætti að hefja byggingu fangelsis sem dómsmálaráðherrann á undan honum hafði undirbúið. Hann er ekki enn byrjaður.