132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[20:32]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef gert ráð fyrir því varðandi sérkennsluna að hún væri inni í tillögum ráðherra. Það eru ekki neinar breytingartillögur um hana og ég hélt að hún væri inni í tillögum ráðherra.

Hvað varðar símenntunarstöðvarnar þá er, í texta um símenntun og fjarkennslu, gerð er tillaga um 100 millj. kr. til sérstaks átaks á næsta ári til að efla starfs- og endurmenntun ófaglærðra einstaklinga með litla menntun jafnframt því að bæta stöðu erlends vinnuafls í íslensku samfélagi. Þessi tillaga er gerð í samkomulagi við Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins. Miðað er við að menntamálaráðuneytið geri samning við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins í þessi verkefni og að það verði að hluta til á vegum símenntunarmiðstöðvanna sem eiga náttúrlega að sinna þessu verkefni. Ég tel að það hljóti að rata í réttan farveg. Þetta er a.m.k. sá texti sem við leggjum áherslu á að fari í þann farveg. Þar með held ég að ég hafi svarað spurningunni.

En ég gerði ráð fyrir að sérkennslan væri í tillögum ráðherra, að hann hefði gert ráð fyrir þessu.