132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[20:34]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég sat á mér með að fara í andsvar við hv. þm. Drífu Hjartardóttur. En ég get eiginlega ekki á mér setið að misnota aðstöðu mína í ræðu minni og flétta aðeins áfram þann þráð sem þær stöllur, hv. þingmenn Suðurlands, Drífa Hjartardóttir og Margrét Frímannsdóttir, voru að ræða hér rétt áðan. Það vill svo til að ég hafði hugsað mér að ræða um símenntunarmiðstöðvarnar úti á landi. Ég kynnti mér þess vegna málið í dag. Eins og hv. þm. Drífa Hjartardóttir gat um í andsvari sínu er hluti af þessum 100 millj. kr. sem merktur er Fræðslumiðstöð atvinnulífsins ætlaður í og fer beinlínis til símenntunarmiðstöðvanna.

Það er alveg rétt að átakið sem hér er efnt til, varðandi starfs- og endurmenntun ófaglærðra einstaklinga með litla menntun og sömuleiðis varðandi bætta stöðu erlends vinnuafls í íslensku samfélagi, verður gert innan símenntunarmiðstöðvanna. Það er gert ráð fyrir að gerður verði samningur eins og kom fram í máli hv. þingmanns. Síðan á að greiða ákveðið námskeiðahald til að endurmennta einstaklinga á vinnumarkaði sem leggja stund á nám sem byggist á námskrám sem Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur vottað og menntamálaráðuneytið staðfest. Síðan á að halda áfram ákveðnum verkefnum um mat á raunfærni einstaklinga á vinnumarkaði, efla náms- og starfsráðgjöf fyrir ófaglærða og þá sem litla menntun hafa. Þetta verður allt gert á vegum símenntunarmiðstöðvanna þótt þetta verði að hluta til á forræði Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, þar sem ákveðin kunnátta og færni er til staðar í að halda svona námskeið, þ.e. að byggja slík námskeið upp kennslufræðilega.

Hins vegar sýnist mér ljóst að ekki sé komið til móts við þarfir símenntunarmiðstöðvanna varðandi fólk sem stundar fjarnám í almennum háskólum, í gegnum símenntunarmiðstöðvarnar. Ég hvet því hv. þm. Drífu Hjartardóttur, sem á sæti á fjárlaganefnd, að skoða þann þátt málsins. Ég er ansi hrædd um að símenntunarmiðstöðvarnar, þó að þær fagni því sem þær fá hér og komi til með að sinna því starfi af miklum myndarbrag, vanti óneitanlega fjármuni í þá starfsemi sem tengist háskólanámi almennra borgara sem ekki er gert ráð fyrir hér. Ég hvet hv. þingmann til að skoða það mál nánar.

Varðandi svo fangelsismálin, svo ég haldi áfram að byggja ræðu mína á andsvari, hæstv. forseti — ég vona að mér verði fyrirgefið en þetta er þannig umræða og mér sýnist mönnum margt fyrirgefið í dag — þá tek ég heils hugar undir með hv. þm. Margréti Frímannsdóttur. Hún gerir athugasemd við að í raun sé það ámælisvert í uppbyggingu fangelsismálanna að dómsmálaráðherra hafi látið undir höfuð leggjast að gera framkvæmdaáætlun. Hvorki þeir sem starfa hjá fangelsunum né þeir sem dvelja í þeim og afplána þar refsingar, né heldur við sem á löggjafarsamkundunni störfum, vita á hvern hátt þessi uppbygging á að fara fram. Allt og sumt sem við vitum er að búið er að sletta ákveðnum fjármunum til þessa í gegnum vinnuna í fjárlaganefnd. Ákveðið var að setja 50 millj. kr. í tímabundið framlag til ákveðinna framkvæmda. Hverjar eru þær? Jú, það er Akureyrarfangelsið, og reyndar er lögreglustöðin á Akureyri þar innifalin, og síðan Kvíabryggja. Var það ekki? Jú, á Kvíabryggju er ætlunin að fjölga um átta fangarými og ætlaðir fjármunir í það. (Gripið fram í.)

Við vitum ekkert hvernig takast á við þau vandamál sem við eigum við að glíma hér, t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Hvenær fáum við fjármuni í nýtt fangelsi á Hólmsheiði? Það er engin tímasett áætlun um það. Vinnubrögð af þessu tagi eru gagnrýnisverð. Fyrr en seinna hlýtur hæstv. dómsmálaráðherra að leggja fram tímasetta heildstæða áætlun um þessa uppbyggingu. Það þýðir ekki að ætla sér að kynna þetta ár fyrir ár. Á sama tíma er fangelsið uppi á Skólavörðustíg á útrunnu starfsleyfi. Í raun hefur það verið á undanþágu árum saman, eins og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir gat um. Í kvennafangelsinu í Kópavogi er ófremdarástand. Það ríður á að setja fjármuni í að byggja nýtt fangelsi á höfuðborgarsvæðinu.

Ég er hrædd um að á næsta ári fáum við fjárlagafrumvarp þar sem slett verði ákveðnum milljónum í enduruppbyggingu á Litla-Hrauni. Ég er hrædd um að sú enduruppbygging geti orðið svo fjárfrek að framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu verði endalaust frestað. Ég er ekki sátt við það og ekki heldur það fólk sem þarf að starfa við þær aðstæður sem boðið er upp á. Það verður að setja heildstæða vinnu í gang og sýna löggjafarsamkundunni og þeim sem starfa í þessum málaflokki hvernig uppbyggingin á að fara fram.

Hæstv. forseti. Við höfum í allan dag rætt um fjárlagafrumvarpið og breytingartillögur sem liggja fyrir frá meiri hluta fjárlaganefndar. Sömuleiðis hafa hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar talað fyrir breytingartillögum minni hlutans sem liggja fyrir, ýmist sameiginlegar tillögur eða tillögur sem einstakir þingmenn flytja í eigin nafni.

Áður en ég fer út í að tala fyrir þeim breytingartillögum sem mér standa næst langar mig til að eyða nokkrum orðum í vinnubrögðin við fjárlagafrumvarpið í þetta sinn. Ég verð að segja að framsetning frumvarpsins þetta árið er gagnrýnisverð, henni er afar ábótavant. Sérstaklega rek ég mig á þetta í kaflanum sem heyrir undir menntamálaráðuneytið. Þar höfum við lent í að þurfa að leita að tölum og lúslesa textann til að reyna að finna hvaða hugsun er þar á bak við. Upplýsingarnar, sundurliðunin hvað varðar skólana er með þeim hætti að nánast ómögulegt er, fyrir þá sem vilja fylgjast vel með, að gera sér grein fyrir því á hvern hátt menn breyta og gera tillögur um nýja framsetningu. Tölurnar og töflurnar eru með allt öðru móti en þær hafa verið undanfarin ár.

Mér finnst að svona breytingar, formbreytingar á framsetningu fjárlagafrumvarpsins, verði hreinlega að kynna. Það verður að gera þingmönnum grein fyrir því á hvern hátt framsetningunni er breytt og af hverju. Við lendum í verulegum vandræðum með þetta, en ekki bara við heldur líka og ekki síður þeir sem eiga að starfa eftir þessu, t.d. skólafólk sem á að starfa eftir lögunum.

Við spurðum um þetta í menntamálanefnd, hverju þetta sætti. Fulltrúar menntamálaráðuneytisins, þeir sem komu á okkar fund, sögðu okkur að breytingin sem þarna var gerð á töflum og upplýsingum um skólana ætti rætur að rekja til fjármálaráðuneytisins. Þeir höfðu ekki fengið viðhlítandi skýringar á því hvers vegna breytingarnar væru gerðar en vildu benda hv. þingmönnum menntamálanefndar á að upplýsingarnar sem við báðum um, sem við leituðum eftir og erum vön að fá í fjárlagafrumvarpinu, væru aðgengilegar á heimasíðu ráðuneytisins. Sömuleiðis sögðust þeir ætla að reyna að koma þeim upplýsingum til skólastjórnenda sem hefðu kvartað undan fjárlagafrumvarpinu, þ.e. að upplýsingarnar væru aðgengilegar á heimasíðu ráðuneytisins.

Frú forseti. Ég spyr og vil að hæstv. fjármálaráðherra svari því í ræðu sinni sem hann á örugglega eftir að halda á eftir: Hvers vegna eru þessar formbreytingar gerðar á frumvarpinu? Þær gera ekkert annað en að gera okkur erfitt fyrir sem störfum eftir því. Í alvöru talað, hæstv. forseti, þá hvarflar að manni að þarna sé tilraun til að fela eitthvað. Auðvitað vekur þetta tortryggni. Ég krefst þess að hæstv. ráðherra svari því hvers vegna þessar breytingar voru gerðar.

Ég vil jafnframt biðja hæstv. ráðherra, vegna þess að ég geri ekki ráð fyrir að ég eigi eftir að sætta mig við svarið, krefjast þess að horfið verði aftur til fyrra horfs og þær töflur sem hafa verið í fjárlagafrumvarpinu, fyrst og fremst varðandi skólamálin og eflaust á það við um fleiri kafla, verði áfram í frumvarpinu eftirleiðis. Þetta verði bara eitthvert flaustursfrumvarp sem verði undantekning frá reglunni.

Annað dæmi um flaustur í þessari vinnu, frú forseti, á rætur sínar í breytingartillögu. Ég ætla bara að taka það sem dæmi um fljótaskrift og illa ígrunduð vinnubrögð. Hér hef ég breytingartillögu meiri hlutans á þskj. 396 sem snertir kafla menntamálaráðuneytisins og fjárlagalið 982 Listir, framlög. Þar er gert ráð fyrir stuðningi upp á 10 millj. kr. undir fjárlagalið 1.24 Starfsemi atvinnuleikhópa. Þar er gert ráð fyrir 47 millj. kr. í frumvarpinu en framlagið á að hækka í 57 millj. kr. Þetta er 10 millj. kr. tímabundið framlag og sem er eyrnamerkt Leikfélagi Reykjavíkur, sem ekki hefur haft sjálfstæðan lið á fjárlögum í nokkuð mörg ár. Framlagið á greinilega ekki að nýtast Leikfélagi Reykjavíkur sem, ef hv. þingmenn vita það ekki, hefur í meira en 100 ár starfað innan borgarmarka og rekur Borgarleikhúsið. Það á ekki að nýta þá fjármuni til rekstrar leikfélagsins heldur á það að veita þá fjármuni til áhrifaleikhópa, trúlega innan Bandalags íslenskra leikfélaga, sem hefur sjálfstæðan fjárlagalið sem á að standa straum af kostnaði við skrifstofu bandalagsins og starfsemi áhugaleikfélaga sem starfa vítt og breitt um landið.

En hvað á Leikfélag Reykjavíkur að gera með það að fjármagna áhugaleikhópa undir fjárlagalið sjálfstæðu atvinnuleikhópanna sem starfa vítt og breitt um höfuðborgarsvæðið — framlagið til þeirra, 47 millj. kr., fer allt saman til leiklistarráðs og er úthlutað til hópanna eftir úthlutunarreglum sem stjórn þess hefur sett sér. Á leiklistarráð núna að fá þessar 10 millj. kr. og er búið að setja merkimiða á það hvernig eigi að úthluta því til Leikfélags Reykjavíkur svo það geti stutt áhugaleikhópa? Fyrirgefið, frú forseti, hvaða rugl er hér í gangi? Þetta er dæmi um flaustur og fljótaskrift sem verður að leiðrétta, það er ekki hægt að vinna á þennan hátt.

Ég hef grun um að ástæðan sé sú að í orði kveðnu reyni fjárlaganefnd að hafa einhverja samvinnu við fagnefndir en hlusti svo ekki á þau ráð sem þær gefa. Þegar fagnefndirnar hafa gefið sín ráð segir fjárlaganefnd: Þá hækkum við fjárlagaliðina svo að við höfum svo og svo mikið umleikis til að úthluta sjálf í okkar nafni. Úthlutun fjárlaganefndar í þetta verkefni — fyrst og fremst er þetta menningarverkefni en ekki eingöngu — stefnir í óefni og ég hef svo sem rætt svipaða hluti áður í tengslum við fjárlög úr þessum stól, hæstv. forseti.

Ég held að einnig sé ástæða til að nefna, í þessari leit minni í gegnum fjárlagafrumvarpið, þá fjármuni sem hæstv. menntamálaráðherra vill setja í það að skerða nám til stúdentsprófs. Það kemur upp úr kafinu, þegar maður hefur fengið aðstoð þeirra sem hafa starfað hér lengi við að lesa þingskjöl, að á einum fjórum stöðum í frumvarpinu er að finna einhverjar smáupphæðir, samanlagt 90 millj. kr., sem eru vegna skerðingar náms til stúdentsprófs. En það er ekki einfalt fyrir þingmenn, jafnvel þó að þeir hafi starfað sex ár í menntamálanefnd, að finna þennan farveg, finna þessar leiðir, rekja þessa þræði sem í frumvarpinu eru. Ég fullyrði að frumvarpið er afar illa samið, það er ruglingslegt, og ég spyr hvort það sé gert með ásetningi.

Frú forseti. Ég stend hér að tveimur álitum, álitum fagnefnda sem ég starfa með, þ.e. menntamálanefndar annars vegar og umhverfisnefndar hins vegar. Í menntamálanefnd stend ég að áliti ásamt öðrum þingmönnum stjórnarandstöðunnar í nefndinni en í umhverfisnefnd fylgdu fulltrúar Samfylkingarinnar meiri hlutanum og ég er ein með minnihlutaálit. Ég mun nú gera grein fyrir nokkrum þeim atriðum sem þar ber á góma og byrja á áliti mínu sem varðar menntamál og menntamálanefnd.

Getið hefur verið um Háskólann á Akureyri í þessari umræðu en í því frumvarpi til fjárlaga sem við hér ræðum vantar um 130 millj. kr. upp á að hann fái þá fjármuni sem stjórnendur hans eiga rétt á. Við teljum það verulegt áhyggjuefni, við sem skipum 2. minni hluta menntamálanefndar í þessu áliti, að ekki skuli komið til móts við háa húsaleigu sem krafist er fyrir nýja aðstöðu í Borgum en hún er um 80 millj. kr. á ári og einungis 10 millj. sparast á móti vegna niður fallins rekstrarkostnaðar í Glerárgötu 36. Þeir áttu orðaskipti um þessi atriði áðan hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og hv. varaformaður menntamálanefndar, Einar Oddur Kristjánsson, og hv. þm. Einar Oddur viðurkenndi í orði kveðnu að einkaframkvæmdin hefði í þessu tilfelli nánast farið út um allar trissur því það væri ekki hægt að skuldbinda Alþingi á þessum nótum um tugi milljóna, ég held að hann hafi reyndar sagt hundrað millj. kr. á ári, án þess að það færi í gegnum Alþingi. En það var ekki Alþingi sem ákvað þessa einkaframkvæmd á rannsóknarhúsinu norður á Akureyri. Það var ákveðið hjá framkvæmdarvaldinu af hæstv. fyrrv. menntamálaráðherra, Birni Bjarnasyni. Þar skuldbindur hann Alþingi og skólann, setur skólann um leið í þá klemmu sem hér um ræðir því það er skólans að greiða þessa háu húsaleigu, 80 millj. kr. á ári. Það er náttúrlega ósvífið að koma fram á þennan hátt við menntastofnun sem hefur verið í mikilli uppsveiflu. Menn hafa notað tækifærið og hælt þessari stofnun á hvert reipi þegar tækifæri hefur gefist, þar með taldir einir þrír menntamálaráðherrar í mínu minni, og svo koma þeir svona fram. Þegar Háskólinn á Akureyri reynir eftir fremsta megni að grípa til einhvers konar ráðstafana þá ákveður hann að leggja niður deildir, sameina deildir og fara í verulegan niðurskurð. Það má sjá í áliti okkar að þegar það var í vinnslu bárust þær fréttir að Háskólinn á Akureyri hefði samþykkt tillögur starfsfólks um hagræðingu í starfseminni, sem fól m.a. í sér fækkun deilda. Það er alveg ljóst að þær aðgerðir ganga verulega nærri ákveðnum þáttum í starfsemi skólans. Þeim er ætlað að skila 50 millj. kr. í sparnaði og jafnvel þó það markmið náist er staða skólans samt sú að 80 millj. kr. standa út af og ekki virðist eiga að koma til móts við þær þarfir. Í fréttum Ríkisútvarpsins þann 11. þessa mánaðar er hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, spurð um þessar niðurskurðarráðstafanir háskólaráðs. Hún segir að þær beri vott um mikla framsýni og hún segir ákvörðunina styrkja skólann til langs tíma. Mig langar til að fá að vitna beint í orð hæstv. ráðherra í fréttaviðtali Ríkisútvarpsins frá 11. þessa mánaðar:

„Þetta er allt þegar á heildina er litið til þess að efla og styrkja Háskólann á Akureyri og til lengri tíma litið er þetta, ja það mikil framsýni fólgin í því hjá háskólaráði hvernig þeir eru að taka á þessum málum. En ég vil undirstrika það, framlög, fjárframlög til Háskólans á Akureyri þau hafa verið aukin töluvert, við erum sérstaklega að reyna að gera það sem að hægt er að gera til þess að mæta þessu átaki þeirra til þess að taka á hallarekstrinum, við munum halda áfram að standa vörð um og efla Háskólann á Akureyri, bara þannig að það sé alveg skýrt.“

Hæstv. forseti. Mér finnst ekki boðlegt að hæstv. menntamálaráðherra þjóðarinnar tali á þennan hátt, að sparnaðaraðgerðir og niðurskurður í menntastofnun á háskólastigi horfi til mikilla framfara og það beri að fagna því sparnaðarátaki sem einhvers konar aðgerð sem eigi að efla háskólann. Hvernig fær það staðist? Er verið að efla skólann með því að skera framlög til hans niður? Ekki í minni orðabók. Til að efla háskólann, sem er alltaf að stækka, þurfum við að standa straum af kostnaðinum sem hlýst af því að fá inn aukinn fjölda nemenda og aukinn fjölda deilda. Þessar ráðstafanir eru ekki til þess að efla skólann, hæstv. forseti, og það þyrfti að taka hæstv. menntamálaráðherra í tíma í þessum efnum. En hún er ekki stödd hér, eins og gert hefur verið að umræðuefni. Ég ætla ekki að gera athugasemd við það í sjálfu sér. En hún er ekki til að svara fyrir þessi orð sín né heldur nokkuð annað sem í frumvarpinu eða breytingartillögunum er og er það mjög miður. Það er sannarlega tilefni til að ræða hér við hæstv. ráðherra um menntamálin í tengslum við þetta fjárlagafrumvarp. Það er verulega miður að hún skuli ekki vera til staðar en við látum okkur hafa það og höldum áfram.

Mig langar að ræða næst um Háskóla Íslands en við í 2. minni hluta menntamálanefndar tökum í áliti okkar undir með stjórnendum þar og fögnum þeirri hækkun sem lögð er til á framlagi til skólans. Við vekjum þó athygli á því að hún nægir ekki til að greitt verði með öllum nemendum sem stunda nám við skólann. Og maður spyr: Hvað á það að fyrirstilla? Af hverju er ekki hægt að greiða með öllum nemendum sem stunda nám við Háskóla Íslands? Hvað er því til fyrirstöðu? Það vantar 80 millj. kr. upp á að skólinn fái greitt með öllum nemendum sem stunda þar nám. Við viðurkennum engu að síður að viðleitnin sem felst í auknu fjárframlagi er umtalsverð og hún skiptir auðvitað sköpum fyrir afkomu skólans í nánustu framtíð. En við teljum ekki að það firri stjórnvöld ábyrgð á þeim rannsóknarsamningi sem er í gildi við Háskóla Íslands.

Hvað vantar upp á að staðið sé við þann samning sem undirritaður er af stjórnendum háskólans og hæstv. menntamálaráðherra? Jú, það vantar um 200 millj. kr. til að framlagið samkvæmt frumvarpinu nægi fyrir því sem samningurinn kveður á um. Á sama tíma hafa einkaskólarnir það mikinn forgang að Háskólinn í Reykjavík fær 200 millj. kr. til rannsókna án þess að hafa nokkurn rannsóknarsamning. Ég ætla ekkert að skammast yfir því þó Háskólinn í Reykjavík fái eitthvert framlag til rannsókna en það er ekki forsvaranlegt að ríkisstjórnin standi ekki við þann samning sem hefur verið gerður við þjóðskólann, Háskóla Íslands. Það er ekki forsvaranlegt að það skuli vanta 200 millj. kr. upp á að staðið sé við þann samning. Hvers vegna er ekki hægt að standa við gerða samninga? Af hverju hafa hæstv. menntamálaráðherrar dásamað þá aðferð að gera samninga við menntastofnanirnar en standa svo ekki við fjármunaþáttinn? Svona á auðvitað ekki að stjórna og ekki að koma fram. Án skýringa eru hlutirnir á þennan veg og, hæstv. forseti, það er ekki forsvaranlegt að skilja við þetta hér. Það er nauðsynlegt að hv. fjárlaganefnd Alþingis gefi út einhvers konar sjónarmið varðandi það ástand sem er til staðar.

Minni hluti menntamálanefndar, við fulltrúar stjórnarandstöðunnar í henni, teljum auðvitað að styrkja eigi Háskóla Íslands sem rannsóknarháskóla á heimsmælikvarða. Hann á að fá að fjölga doktorsnemum. Þeir eru um það bil 12 núna, held ég, en áætlun stjórnenda skólans er metnaðarfull. Hún hljóðar upp á að fjölga doktorsnemum í 60 á næstu fimm árum. Til þess þarf fjármuni og minni hluti menntamálanefndar, stjórnarandstöðuþingmenn í menntamálanefnd, styðja þær áætlanir stjórnenda háskólans.

Það kemur fram í úttekt Evrópusamtaka háskóla að Háskóli Íslands er í fjárhagskreppu. Sú úttekt hefur verið mikið í umræðunni upp á síðkastið og hún virðist afar greinargóð og skýr. Sama niðurstaða fékkst raunar í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á Háskóla Íslands frá því í apríl 2005. Háskóli Íslands fær næstlægst framlög allra sambærilegra skóla í Evrópu. Enda þótt sýnd hafi verið ýtrasta ráðdeild í rekstri, sem staðfest er í þessum úttektum, er staðan alvarleg og við teljum brýnt að brugðist verði við með auknum fjárframlögum. Það er eina leiðin. Að öðrum kosti er rekstri skólans stefnt í tvísýnu og framtíð hans í óvissu.

Hæstv. forseti. Við fjöllum aðeins almennt um opinberu háskólana og á hvern hátt þeir hafa þurft að bregðast við fjárskorti með fjöldatakmörkunum. Kennaraháskóli Íslands vísar frá hundruðum nemenda á hverju einasta ári og Háskóli Íslands raunar einnig. Við teljum ekki forsvaranlegt að hægt sé að þvinga skólana til fjöldatakmarkana með því að svelta þá peningalega. Hæstv. menntamálaráðherra segir í orði kveðnu að við ætlum að standa okkur í samkeppninni en þá er nauðsynlegt að taka á annan hátt á málunum. Við verðum að feta í fótspor Norðurlandaþjóðanna í þessum efnum. Ef við gerðum það og legðum svipað hlutfall landsframleiðslu og aðrar Norðurlandaþjóðir til háskólastigsins væri árlegt framlag til háskólanna 4–8 milljörðum kr. hærra en það er núna. Norðurlandaþjóðirnar verja 35–80% hærra hlutfalli af landsframleiðslu sinni til háskólastigsins en við gerum.

Þá er ég komin að framhaldsskólanum, virðulegi forseti. Frá fulltrúum framhaldsskólanna heyrum við enn kvartanir um reiknilíkanið sem menntamálaráðuneytið notar til að áætla fjárþörf skólanna. Þar vantar enn að tölur vegna lífeyrisskuldbindinga séu réttar. Einnig eru gerðar athugasemdir við lága áætlun vegna afskrifta á tækjum og eignum skóla. Það verður til þess að verkmennta- og starfsnámsskólar búa gjarnan við óboðlegan og úr sér genginn tækjakost en það er á engan hátt í samræmi við yfirlýsingar stjórnvalda um að efla eigi starfs- og verknám á framhaldsskólastigi. Við tökum því undir kröfur stjórnenda framhaldsskólanna um að ljóst þurfi að vera við upphaf fjárlagaárs úr hvaða fjármunum skólarnir hafa að spila þannig að ekki sé úthlutað í lok skólaárs af þessum stóra lið Framhaldsskólar, almennt. Við teljum að þarna þurfi að koma til breytingar þannig að skólarnir geti betur skipulagt sig og gert áætlanir um sín mál.

Við erum með sérstakan kafla um fræðslu- og símenntunarmiðstöðvarnar. Ég hóf mál mitt á því að ræða aðeins um þær. Það er alveg ljóst að þær 9,8 milljónir sem stöðvarnar eiga að fá hver og ein samkvæmt fjárlagafrumvarpinu nægja ekki fyrir grunnstarfsemi þeirra. Það vantar um 5 milljónir upp á að grunnstarfsemi þeirra verði sinnt. Þær þurfa hver og ein um 15 milljónir í heildina til þess að grunnþörfunum sé sinnt. Þó að þetta 100 milljóna framlag hafi komið til Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins sem símenntunarmiðstöðvarnar taka verulegan þátt í þá held ég, eins og ég sagði í upphafi máls míns, að það þurfi að gá að þeim þætti sem varðar háskólamenntun og fjarnám.

Við fögnum því að Þjóðleikhúsið skuli nú fá fjárveitingar sem gefa til kynna að það eigi að taka vel á varðandi endurbyggingu en hnykkjum eingöngu á því að kné verði þar að fylgja kviði. Við verðum að búa til áætlun um að ljúka því verki. Það er fjárfrek framkvæmd. En úr því að byrja á á henni verður að sjá fyrir endann á henni og þess vegna þarf að gera fyrr en seinna tímasetta áætlun þar að lútandi.

Safnliðirnir hafa verið hér til umræðu. Hv. þm. Drífa Hjartardóttir gerði í löngu máli grein fyrir tillögum meiri hlutans í þeim efnum. Ég hef löngum sagt að þessar úthlutanir fjárlaganefndarinnar til menningarverkefna séu vægast sagt ámælisverðar og undarlegar. Ég held að þessi leið við að úthluta fjármunum til menningarverkefna sé afar gölluð. Við erum með sjóði, jafnvel sem starfa samkvæmt lögum, í okkar kerfi sem ætlað er að sinna verkefnum af þessu tagi. Við getum nefnt t.d. safnasjóð, tónlistarsjóð, Kvikmyndasjóð, þýðingarsjóð, húsafriðunarsjóð auk ýmissa samninga sem ráðuneyti menntamála hefur gert við ólíka landshluta um starf í menningargeiranum. Ég hef gagnrýnt það að fjárlaganefnd skuli úthluta hér hundruðum milljóna. Ég hugsa jafnvel að þessar úthlutanir til ýmissa menningarverkefna, íþróttaverkefna og æskulýðsverkefna, sem eru bara einhvers konar „vílingar“ og „dílingar“ fjárlaganefndar Alþingis, séu farnar að nálgast milljarðinn. Ég fullyrði það úr þessum stóli, hæstv. forseti, að þeir sjóðir sem ég nefndi sem starfa samkvæmt úthlutunarreglum og sjóðstjórnir þeirra sinna sínu verki af vandvirkni og natni, mundu sannarlega geta þegið þær hækkanir á fjárframlögum sínum sem fjárlaganefndin tekur til sín og úthlutar fram hjá þessum sjóðum. Hæstv. forseti. Þetta er ekki faglegt og það sem verra er, þetta býður upp á spillingu. Þetta býður upp á ásakanir um spillingu. Ég tel því að ekki sé eftir neinu að bíða með að koma þessum úthlutunum í þann farveg að sjóðirnir sem til þess eru ætlaðir fái þessa fjármuni og geti úthlutað þeim og vegið og metið allar umsóknir í geiranum en að ekki sé verið að taka, eins og ég segi, hundruð milljóna fram hjá sjóðunum sem úthlutað er af alþingismönnum sem hafa hvorki tíma né getu til að koma sér vel inn í verkefnin og geta alls ekki borið þau saman við aðrar umsóknir sem eru í viðkomandi sjóðum.

Ég vil ekki hætta að fjalla um menntamálin, hæstv. forseti, án þess að ræða aðeins um framlög í tengslum við styttingu námstíma til stúdentsprófs. Það er að mínu mati afar óraunhæft og mér finnst það fullkomlega — óraunhæft er allt of veikt orð — mér finnst það dónaskapur af hæstv. menntamálaráðherra að setja í fjárlagafrumvarpið 90 millj. kr. framlag til grunnskólans sem á að standa straum af kostnaði við það að koma á einhverjum framhaldsskólaáföngum niður í grunnskólann og það er ekki búið að semja frumvarp um skerðingu náms til stúdentsprófs. Við sem sitjum hér og setjum lög í þessu landi höfum ekki hugmynd um hvað er að gerast í kollinum á hæstv. menntamálaráðherra að þessu leyti. Samt eru hér 90 milljónir í beinhörðum peningum beinlínis inn í þessa hugmyndafræði hennar og einhverjar fléttur sem eru bara til í hennar kolli um það hvernig hún ætli sér að skerða nám til stúdentsprófs.

Frú forseti. Hæstv. menntamálaráðherra hefur alla elítuna, alla skólamenn, allt skólasamfélagið upp á móti sér í þessu. Framhaldsskólanemar eru búnir að stofna hagsmunasamtök gegn skerðingu náms til stúdentsprófs. Framhaldsskólakennarar skrifa nú eina grein á dag í dagblöðin, a.m.k. eina grein á dag og þær eru mjög yfirvegaðar. Þær eru afar fróðleg lesning. En tónninn í þeim er náttúrlega alveg gassalegur. Ég mundi ekki vilja fá þessar einkunnir frá framhaldsskólanemum ef ég væri hæstv. menntamálaráðherra. Það nægir að stikla á fyrirsögnunum: „Ódýrar lausnir í menntamálum“, „Rangar áherslur í menntamálum“, „Í leit að glötuðum tíma“, „Eigi skal höggva“, „Sósíalismi andskotans“, skrifar nú einn. „Að eiga réttlætinguna í sjálfum sér“, segir annar. „Að byrja á þakinu“, segir einn. „Enn tækifæri til að snúa við“, segir annar. „Á að breyta því sem vel hefur reynst?“ spyr einn. „Nýju fötin keisaraynjunnar“ skrifar einn.

Frú forseti. Hér tala þeir sem starfa á þessum akri, þeir sem hafa verið að mennta unga fólkið okkar á framhaldsskólastigi og framhaldsskólanemar eru þeim hjartanlega sammála. Þetta fólk hefur sent okkur kröftug mótmæli, vel ígrunduð, vel formuð. En hvað gerum við? Við eigum að samþykkja hér í einhverju fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar tugi milljóna í þetta verkefni sem við vitum ekki hvernig á að líta út. Hvaða vitleysisgangur er þetta, frú forseti? Er ekki hægt að leiða hæstv. ráðherrum fyrir sjónir að svona vinnubrögð geta ekki verið ásættanleg?

Ég mótmæli þessari forgangsröð, hæstv. forseti, þ.e. að hér skuli verið að lauma í gegnum fjárlög einhverjum hugrenningum og spuna úr höfðinu á hæstv. menntamálaráðherra á sama tíma og þúsundir framhaldsskólanema og kennara mótmæla þeim aðgerðum. Ég segi bara: Vér mótmælum allir. Vér hér inni mótmælum. Við mótmælum, stjórnarandstaðan í menntamálanefnd. Svona á ekki að vinna.

Annað er hæstv. menntamálaráðherra að gera af sér í þessu fjárlagafrumvarpi. Hún er að leggja niður Listdansskóla Íslands. Það er líka forkastanlegt. Það gerir hún bara hér í gegnum fjárlögin sisona. Við fengum tækifæri til að að ræða það við hana í einhverri utandagskrárumræðu sem auðvitað hefur farið hér fram þar sem við áttum orðastað við hæstv. ráðherra. En við fáum ekki að ræða málin faglega. Hæstv. ráðherra gerir þetta algerlega án alls samráðs. Hún hefur ekkert samráð við nokkurn mann, enga fagmenn í dansinum, ekki við kennara skólans og svo flytur hún einhverja endemisræðu í þessari utandagskrárumræðu þar sem hún fjallar um sérskóla á listasviði sem geti bara starfað með sjálfstæðum hætti án þess að þeir lúti forræði opinberra aðila. Sem sagt, það á bara að heimila hæstv. menntamálaráðherra að einkavæða listdanskennslu á Íslandi án þess að setja við það spurningarmerki. Ég mótmæli svona vinnubrögðum, frú forseti. Það er ekki forsvaranlegt að koma svona fram, hvorki við foreldra sem eiga börn í dansnámi né þá listamenn sem hafa hingað til stundað þetta nám og eru núna að bera hróður okkar út um heiminn vítt og breitt. Það sama er uppi á teningnum í þessu máli og því fyrra sem ég nefndi varðandi skerðingu náms til stúdentsprófs. Blöðin eru full af greinum foreldra og aðstandenda þeirra sem stunda listdansnám og fyrirsagnir þeirra greina eru jafnlýsandi og í hinum sem ég tíundaði áðan. Þar er skrifað: „Til varnar Listdansskóla Íslands.“ „Erum við að tapa glórunni?“ spyr skólastjóri úr einkageiranum. „Heggur sá er hlífa skyldi“ skrifa tveir feður. „Fellibylurinn Þorgerður“ skrifar forseti Bandalags íslenskra listamanna. Hæstv. menntamálaráðherra er ekki öfundsverð og ég er ekki hissa þó að hún sé ekki hér til staðar til að taka við þessari gagnrýni og svara fyrir áform sín.

Hæstv. forseti. Nú er langt liðið á þann tíma sem ég ætlaði mér að eyða í þessa ræðu og ég er eflaust komin fram yfir þann tíma sem ég ætlaði mér. Ég skynja óróleikann í salnum. Fleiri vilja komast að. Ekki nennum við að tala hér til klukkan sex í fyrramálið. (Gripið fram í: Við erum róleg.) „Við erum róleg“, segja einhverjir hv. þingmenn. En ég get ekki látið hjá líða — ég bara verð — að fara nokkrum orðum um störf umhverfisnefndar núna að þessu fjárlagafrumvarpi. Í áliti mínu má lesa mikla óánægju um vinnutilhögun nefndarinnar. Það er vegna þess að hv. formaður nefndarinnar, Guðlaugur Þ. Þórðarson, lét undir höfuð leggjast í þetta skiptið að kalla á forstöðumenn þeirra stofnana sem heyra undir umhverfisráðuneytið á fund nefndarinnar þrátt fyrir að óskað væri eftir því að þessir forstöðumenn kæmu. Við þingmenn í nefndinni vorum látnir halda að þeir ættu að koma til okkar á fund á mánudagsmorgni. En þegar fundarboðið barst seint á föstudagskvöldi kom í ljós að bara einn þessara forstöðumanna yrði til staðar á fundinum á mánudegi. Síðan var bara sagt að tíminn væri útrunninn og ekki væri hægt að biðja um minnisblöð frá þeim eða umsagnir um fjárveitingar til stofnananna og að ekki væri hægt að halda annan fund. Það var því bara rubbað upp einhverju áliti sem mig meira að segja minnir að hafi legið fyrir á fundinum sem þessi eini forstöðumaður mætti á. Sá var Jón Gunnar Ottósson forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands. Hann gerði náttúrlega grein fyrir sínum málum og sinni stofnun og það kemur fram í minnihlutaáliti mínu sem birt er bæði með nefndaráliti meiri hlutans og nefndaráliti frá hv. þm. Jóni Bjarnasyni hver sjónarmið forstjóra Náttúrufræðistofnunar eru varðandi fjárveitingar til stofnunarinnar.

Ég vil bara árétta eitt. Ég spurði forstjóra stofnunarinnar hvað liði vinnu við að koma á laggirnar náttúruminjasafni, einu af höfuðsöfnunum sem samkvæmt safnalögum á að starfa hér á landi. Forstöðumaðurinn situr í nefnd um málið og hann tjáði okkur að nefndin hefði ekki hist í tvö ár. Ég spyr því: Hvað dvelur orminn langa? Enn er fullt tilefni til að flytja þá breytingartillögu við fjárlög sem við þingmenn úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði flytjum hér um að setja 20 milljónir í undirbúning að stofnun nýs náttúrminjasafns og við setjum það undir hatt menntamálaráðuneytisins. Um þetta er getið í breytingartillögum okkar á þskj. 407.

Frú forseti. Ég ætla þá kannski að draga hér niður að punkti. Ég gæti þó sagt nokkuð mörg orð í sambandi við stöðuna í geðlækningum. Morgunblaðið í morgun og allir fjölmiðlar hafa verið fullir af umfjöllun um barna- og unglingageðdeild Landspítala – háskólasjúkrahúss, BUGL og sömuleiðis um þær aðstæður sem sjálfstætt starfandi barna- og unglingageðlæknum er boðið upp á. Það stefnir í að þeir hætti að starfa núna um næstu mánaðamót og allt er þetta vegna þess að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur ekki enn getað rekið samningamanninn sinn, sem er í nefndinni sem semur við þessa sérfræðinga, til þess að tala við þá. Það er ekki verið að eyða orði á fólk. Það er eins og þessi ríkisstjórn telji að hún geti bara komið alltaf sínu fram úr sínu glerbúri og það þurfi ekki að eyða orði á það fólk sem starfar á akrinum og þarf að starfa eftir þeim fjárveitingum sem ákveðnar eru í fjárlögum. Það er bara ekki hægt að sýna því fólki sem starfar í þessum viðkvæma geira þá framkomu sem því er boðið upp á. Hæstv. heilbrigðisráðherra verður auðvitað að gera eitthvað annað en lýsa yfir góðum vilja til að gera eitthvað, góðum vilja til að breyta einhverju. Hér verða bara að sjást einhver átök til verka. Menn verða að bretta upp ermarnar og sýna fram á að þeir séu vanda sínum vaxnir, starfi sínu vaxnir og geti tekist á við það sem að þeim steðjar.

Hæstv. forseti. Ég ætla að láta máli mínu lokið með því að ítreka þá kröfu mína að vinnan við fjárlög verði endurskoðuð og fjárlagafrumvarpið verði fært aftur í það horf sem það hefur verið í þannig að þingmönnum og öðrum sem starfa eftir þessu fjárlagafrumvarpi sé ekki vísvitandi gert erfitt fyrir að þræða sig í gegnum það til þess að finna hvar þessi eða hin upphæðin er eða hvernig hlutirnir eru hugsaðir til enda. Töflur sem vantar verða að koma aftur inn í frumvarpið á næsta ári. Það er algjörlega nauðsynlegt. Annars er verið að gera okkur lífið hér enn leiðara en það þarf að vera.