132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[21:49]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Magnússyni fyrir ræðu hans. Ég vil sérstaklega þakka honum fyrir það að ræða hans er málefnaleg og efnisleg. Mér þykir vænt um að hann minntist á þann samning sem ég gerði við Öryrkjabandalagið á sínum tíma og talaði um hann með jákvæðum hætti. Ég þakka honum sérstaklega fyrir það. Mér þykir vænt um þau orð hans.

Varðandi svo þau efnisatriði sem hann fór hér yfir þá er það einfaldlega þannig að ég gerði grein fyrir ráðstöfunum okkar varðandi bensínstyrk við 1. umr. málsins, en bensínstyrkurinn var orðinn almennur styrkur. Hann hafði vaxið mjög síðustu árin. Það er ekki vegna öryrkja heldur vegna þess að mjög margir aðrir en öryrkjar höfðu þennan styrk. Hann var upphaflega hugsaður sem styrkur fyrir hreyfihamlaða. En það var horfið frá þessu. Það var horfið frá þessu með því að bakfæra þær aðgerðir sem voru í tengslum við bensínstyrkinn, sem voru að hækka tekjutryggingarauka og leggja fram fjármagn til endurhæfingar. Þetta var núllstillt aftur, ef svo má segja, þannig að þetta er ákvörðun sem hefur verið tekin til baka og er eiginlega liðin tíð. Þessar aðgerðir voru núllstilltar.

Ég er alveg sammála því að mjög áríðandi er að efla starfsendurhæfingu og efla öryrkja til þess að taka þátt í atvinnulífinu. Samningar sem voru gerðir við verkalýðshreyfinguna miða að þessu m.a. Þó að teknir hafi verið til baka þeir fjármunir sem voru í tengslum við bensínstyrkinn þá eru auknir fjármunir til starfsendurhæfingar í frumvarpinu. Ég hefði þó gjarnan viljað að það væri meira og ég hefði gjarnan viljað að þær 100 milljónir sem voru bakfærðar væru þar inni enn þá því mjög áríðandi er að efla starfsendurhæfingu. Ég er sammála hv. þingmanni um það.

Varðandi lyfjakostnaðinn hefur hlutdeild sjúklinga í lyfjakostnaði ekki verið hækkuð núna í þessu frumvarpi. Í þessu frumvarpi eru engar hækkanir á komugjöldum eða gjöldum fyrir sérfræðiþjónustu. Ég tel því að ekki sé hægt að ganga lengra í því efni. Sjúklingurinn borgar núna eða notendur heilbrigðisþjónustu borga 20% úr eigin vasa eins og þar stendur en ríkið 80%. Ég tel að ekki verði gengið lengra í því efni þannig að ekki er reiknað með neinum kostnaðarhækkunum núna.

Ég rengi ekki tölur hv. þingmanns um hér séu færri öryrkjar en á öðrum Norðurlöndum. En fjölgunin er meiri. Sérstökum áhyggjum veldur fjölgun öryrkja í hópi ungs fólks og við verðum að horfa auðvitað á það. Ég endurtek að nauðsynlegt er að fjölga endurhæfingarúrræðum í því sambandi.

Það er rétt að þjóðin hefur efnast. Sem betur fer höfum við möguleika á að gera hluti núna sem við höfðum ekki möguleika á kannski fyrir tíu árum eða hvað þá tuttugu árum þegar ég byrjaði á Alþingi. Það er alveg ljóst. Af því að minnst var á Símann hér verð ég að geta þess að 1 milljarður af söluandvirði Símans fór í búsetuúrræði fyrir geðfatlaða. Ég tók þátt í að undirbúa það með félagsmálaráðuneytinu og ég met það mjög mikils. Það er gífurlega mikilvægt mál í þágu þeirra sem minna mega sín í samfélaginu og það met ég mjög mikils.

Ég tel að full þörf sé á því að endurskoða almannatryggingalögin. Það er gríðarlegt verkefni sem menn hafa gert atrennur að, annaðhvort endurskoða þau í heild eða endurskoða einhverja hluta þeirra. Ég tel einboðið að Öryrkjabandalagið hafi aðkomu að því ef við förum í slíka endurskoðun. Ég tel að það verði ekki gert án aðkomu Öryrkjabandalagsins.

Nefna má deilu sem upp hefur komið núna síðustu dagana um fólk sem hefur verið skert vegna annarra tekna og missir bætur í desember. Ég hef skoðað það mál sérstaklega. Ég hef fengið erindi frá Öryrkjabandalaginu um það mál. Ég mun kappkosta að skoða allar hliðar þess máls og svara því erindi. Þarna er um að ræða fólk sem hefur ekki gefið upp tekjuáætlanir. En ég vil lýsa því hér yfir að ég vil skoða það mál mjög vandlega og mun svara Öryrkjabandalaginu erindi þeirra.

Ég mun koma til skila til forsætisráðherra því sem hv. þingmaður beindi til mín um neyslustaðal. Ég get því miður ekki svarað fyrirspurninni. En ég mun koma henni til skila og lýk þá máli mínu að sinni.