132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[21:58]
Hlusta

Guðmundur Magnússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svörin og hlý orð í minn garð. Samningurinn er einmitt til fyrirmyndar og ætti að vera öllum ráðuneytum til fyrirmyndar um samráð þegar fjallað er um okkar mál. Ég fagna því að Öryrkjabandalagið mun koma að endurskoðun laganna.

Ég get vel skilið að bensínstyrkurinn hafi vaxið og að fleiri hafi kannski verið farnir að fá hann svona sem sporslu í stað þess að hann hafi verið nýttur betur þar sem hann virkilega átti rétt á sér. En þá þurfti bara að endurskoða hann en ekki fella hann niður. Það er aðalatriðið.

Svo er það neyslustaðalinn. Þar sem ég er að hverfa af þingi strax aftur þætti mér mjög vænt um að þetta yrði skriflegt svar til Öryrkjabandalagsins frá forsætisráðherra.

Ég fagna þessum milljarði í búsetuúrræðin. En ég hefði líka gjarnan viljað eiga Símann enn þá og geta mokað meiri peningum í þetta.