132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[22:06]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á málefnum geðfatlaðra. Það mun verða skipuð nefnd til að útfæra það mál núna og ég efast ekki um að staðið verði við þetta. Ég held að um það sé víðtæk samstaða, enda er þetta mjög gott mál.

Varðandi þá reglugerð sem hefur verið til umræðu undanfarið og Öryrkjabandalagið skrifaði mér um vil ég taka það fram að reglugerðin er eingöngu starfsreglur. Það eru lögin sem skipta máli og túlkun á þeim og ég vil einbeita mér að því að túlka þau lög sem voru samþykkt fyrir tveimur árum með samþykki allra þingmanna, nema hv. þingmaður var með fyrirvara, ef ég man rétt. Ég vil einbeita mér að því að túlka þau lög þannig að ekki fari á milli mála hvað þau fela í sér, því vil ég einbeita mér að og taka mér örfáa daga í það. En ég vona að niðurstaða mín liggi fyrir í því innan mjög skamms tíma enda er ekki úr miklum tíma að spila í þessu.

En ég vil taka fram varðandi þá sem búa við skertar bætur að það er fólk sem er skert vegna annarra tekna, þannig að það er ekki þar með sagt að þetta fólk hafi engar tekjur, þó að ég sé ekki að gera lítið úr því í sjálfu sér. Þetta er fólk sem hefur aðrar tekjur og ég vil taka fram í sambandi við tekjuskerðingar að þær hafa minnkað á undanförnum árum, minnkað niður í 45% frá því að það var skert króna á móti krónu.