132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[22:08]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ekkert ofsagt í nefndaráliti 1. minni hluta fjárlaganefndar að efnahagsforsendur fjárlagafrumvarpsins séu ótraustar og það er sívaxandi áhyggjuefni hvað forsendur bæði á gjalda- og tekjuhlið eru veikar. Þetta frumvarp virtist því ekkert frábrugðið fjárlagafrumvörpum síðari ára, fjárlög næsta árs eru á brauðfótum og undir því veikar stoðir sem geta hrunið áður en við er litið og má þá benda á þá veikleika sem greiningaraðilar eins og greiningardeildir bankanna, ASÍ og Seðlabanki Íslands benda á varðandi efnahagsstjórnina. Það er t.d. athyglisvert að það kom fram í meðferð efnahags- og viðskiptanefndar sem fjallaði m.a. um tekjuforsendur fjárlaga að Seðlabankinn gagnrýnir þær aðferðir og forsendur sem fjármálaráðuneytið setur fram þegar því er haldið fram að gengið muni veikjast og verðbólga í verðbólgumarkmiðum Seðlabankans en vextir eigi samt sem áður að lækka þó að verðbólgan sé miklu meiri en verðbólgumarkmið Seðlabankans.

Tekjuafgangur sem hér hefur verið rætt um í dag á að verða nálægt 20 milljörðum eða innan við 2% af landsframleiðslu. Mér fannst það mjög sérkennilegt í dag — og ágætt að heyra álit hæstv. fjármálaráðherra á því — að varaformaður fjárlaganefndar, Einar Oddur Kristjánsson, hafði ekki mikla trú á þessum afgangi í fjárlögunum. Hann taldi að það væri nær lagi að afgangurinn væri 1% en ekki 2% og hv. varaformaður fjárlaganefndar er því þegar búinn að gengisfella frumvarp ráðherrans um hvorki meira né minna en 10 milljarða kr. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé sammála þessu áliti varaformannsins að veikleikinn sé svo mikill á fjárlagahlið og þá væntanlega kannski einnig á gjaldahlið. Kannski er hann frekar að tala um gjaldahliðina, það verði aldrei neinn 20 milljarða afgangur vegna þess að það verði spenna í útgjöldunum sem kom ekki fram núna í fjárlagafrumvarpinu. Alla vega virtist hann ekki hafa trú á því að tekjuafgangurinn yrði 10 milljarðar kr. Auðvitað hefur hv. varaformaður fjárlaganefndar fyrir framan sig reynsluna bæði af gjaldahlið og tekjuhlið á undanförnum árum. Við ræddum það í síðustu viku, ég og hæstv. fjármálaráðherra, hvernig veikleiki fjárlaganna hefur verið á umliðnum árum bæði á tekju- og gjaldahlið þegar frávikin á gjaldahlið eru 10% að meðaltali á árunum 2000–2004 og veikleikinn einnig mikill á tekjuhliðinni, var t.d. 8,3% á árinu 2004 og 2,5% að meðaltali á árunum 2000–2004. Við þá umræðu nefndi hæstv. fjármálaráðherra að vera mætti að inn í þessar tölur vantaði lífeyrisskuldbindingar og afskriftir af skattkröfum þannig að ég gerði mér far um að kynna mér það sérstaklega hvort svo væri. Ef við tökum t.d. árið 2004 fyrir þá koma fram liðirnir Lífeyrisskuldbindingar upp á 13,4 milljarða en í fjárlögum var áætlað að það yrðu 4,7 milljarðar kr. og síðan voru afskriftir skattkrafna 10,1 milljarður en í fjárlögum eru áætlaðir 4 milljarðar kr. þannig að það var áætlað fyrir hvoru tveggja inni í þessum tölum en var bara vanmetið á fjárlögum eftir því sem ég kemst næst.

Þetta er vissulega mikið áhyggjuefni að fjárlagavaldið sé flutt í svo miklum mæli til framkvæmdavaldsins þannig að ekki sé óalgengt að verið sé að ráðstafa að meðaltali um 20 milljörðum kr. í útgjöld umfram það sem fjárlög heimila og við höfum auðvitað farið yfir það hér að fjárreiðulögin eru þverbrotin þegar þessi vinnubrögð eru viðhöfð.

Ef við reynum þá í ljósi þessarar reynslu að kíkja á hvað skeður núna fyrir árið 2005 og áætlun 2006 þá var það þannig, virðulegi forseti, í plöggum sem við fengum í efnahags- og viðskiptanefnd varðandi yfirstandandi ár, að heildartekjur í fjárlögum árið 2005, án eignasölu, voru áætlaðar 305 milljarðar kr. og í september á þessu ári voru þessir 305 milljarðar komnar í 339 milljarða eða 34 milljörðum þar yfir og síðan tveim mánuðum síðar, eða frá september til nóvember á þessu ári, hafa bæst við 10 milljarðar kr. þannig að við erum að tala um 44 milljarða fyrir utan peningana af eignasölu Símans sem kemur til viðbótar því sem hæstv. ríkisstjórn áætlaði fyrir ári síðan og borið var á borð fyrir þingheim að því er varðar yfirstandandi ár.

Það virðist stefna í það sama núna. Ég er ekki að segja að það verði kannski svona hrikalegt eins og ég nefni hér, svona miklar sveiflur í tekjum, en sporin hræða og við sjáum bara núna frá frumvarpinu 2006 að þar er gert ráð fyrir 327 milljörðum í tekjur. Áætlun nú í nóvember er 334 milljarðar, þarna munar 7,2 milljörðum kr. Maður er ekkert hissa á því þótt varaformaður fjárlaganefndar hafi vantrú á forsendum fjárlaga að því er virðist bæði á tekju- og gjaldahlið.

Spár eru vissulega misvísandi fyrir næsta ár. Það er mikil óvissa í efnahagsmálunum almennt. Ég hef t.d. verulegar áhyggjur af því að við skulum ekki fá nákvæmari mynd af einkaneyslunni þegar við skoðum þann mismun sem Seðlabankinn og fjármálaráðuneytið setja fram í því efni og reyndar greiningardeildir bankanna einnig. Munur á einkaneysluspá Seðlabankans og Landsbankans er verulegur. Mig minnir að 8,2% séu áætluð í einkaneyslu hjá Seðlabankanum en 4,3% — ef ég fer rétt með. Ég er ekki með tölurnar við höndina — hjá fjármálaráðuneytinu. Þarna er því mismunur í spá upp á tæp 4%. Maður spyr: Hvað þýðir það ef spá Seðlabankans gengur eftir? Samkvæmt upplýsingum fjármálaráðuneytisins þýðir það að ef einkaneysla eykst um 1% þá vex tekjuafgangur ríkissjóðs um 0,1% af landsframleiðslu. Ef spá Seðlabankans gengur eftir gæfi það um 4 milljörðum meira í ríkissjóð. Það er vissulega óvarlegt að ráðstafa þeim fjármunum eða gera ráð fyrir þeim í tekjuafgangi fjárlaga einfaldlega vegna þess hve miklar skekkjur og frávik eru ávallt á gjaldahlið fjárlaga, eins og ég nefndi, eða 10% að meðaltali fyrir árin 2000 og 2001.

Umhugsunarefni er líka sú mikla aukna einkaneysla sem verið hefur á þessu ári og við sjáum að nærri helmingi munar í spá ráðuneytisins og Seðlabankans. Það gekk eftir á þessu ári að því er varðar einkaneysluna, og kemur það fram í áliti minni hlutans, að einkaneyslan var áætluð á fjárlögum 5% en áætlun 2005 segir 9,5%. Skekkjan þarna er því 4,3% á þessu ári og við erum að tala um svipaða skekkju á næsta ári. Ég veit ekki hvort fjármálaráðuneytið spáir vísvitandi þannig um einkaneysluna. Eitt væri þó fróðlegt að fá að vita. Ég hef reyndar lagt fram fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra um það. Ég ætlast auðvitað ekki til þess að hann svari því núna. Hann hefur engin tök á því. En forvitnilegt væri að fá að vita hversu mikið af einkaneyslu undanfarinna ára hafi verið fjármagnað með lánum vegna þess að hér er verið að eyða skatttekjum framtíðarinnar sem koma af aukinni einkaneyslu. Þessi ríkisstjórn er að eyða þeim skatttekjum sem koma í framtíðinni þegar mikil einkaneysla heimilanna er fjármögnuð með lántöku. Það væri líka fróðlegt að fá að vita það sem ég spurði um í fyrirspurn minni, þ.e. hvaða áhrif það hefði haft á skatttekjur hins opinbera ef einkaneysla á umliðnum árum hefði eingöngu verið fjármögnuð með rauntekjum heimilanna.

Virðulegi forseti. Ég sé út af fyrir sig ekki ástæðu til þess að eyða fleiri orðum í þessar stóru línur fjárlaganna. Við hæstv. fjármálaráðherra fórum yfir þetta fyrr í vikunni. Ég fór þá yfir það hvernig hagvaxtarspá t.d. á árinu 2004 og verðbólguspár hafa gengið fram, t.d. á árinu 2004 miðað við spár, og þar er um verulega skekkju að ræða miðað við spár fjármálaráðuneytisins. Það kom reyndar fram í efnahags- og viðskiptanefnd, og ég vil ítreka það, að verulegur missir er að Þjóðhagsstofnun. Það er mjög vont fyrir okkur innan þings að þurfa bara eingöngu að treysta á þær spár sem við fáum frá fjármálaráðuneytinu en geta ekki leitað til óháðra aðila eins og Þjóðhagsstofnunar.

En maður horfir töluvert á spár ASÍ sem er búið að koma upp sæmilega góðri hagdeild. Þar er t.d. verulegur munur miðað við það sem er grundvallaratriði í fjárlagafrumvarpinu, þ.e. verðlagsforsendurnar sem eru 3,8% hjá fjármálaráðuneytinu en 4,2% hjá Alþýðusambandinu (ÖS: 6,8% hjá Íslandsbanka í dag.) og 6,8, segir hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem grípur hér fram í, hjá Íslandsbanka í dag. Þó að maður horfi bara á þessar breytingar sem eru 0,4% miðað við spár ASÍ og fjármálaráðuneytisins þá hefur það veruleg áhrif t.d. bara á lífeyrisgreiðslur og persónuafslátt og fleiri undirstöðuatriði í fjárlagafrumvarpinu. Fjármálaráðherra þarf ekki að undra þó að maður staldri aðeins við þær tölur sem hér eru settar fram. Það er ekki ofsagt að segja að jafnmiklar skekkjur og frávik sem verið hafa grafa undan sjálfstæði þingsins. Þessum vinnubrögðum verður að breyta. Ég vil gefa hæstv. nýjum fjármálaráðherra tækifæri til þess að breyta þessum vinnubrögðum. Hann hefur ekki nema kannski að litlu leyti komið nálægt undirbúningi fjárlaga og haft kannski lítinn tíma til þess að breyta þeim vinnubrögðum sem verið hafa. En ég held að við ættum að sammælast um að reyna að gera betur í þessu efni vegna þess að það er framkvæmdarvaldinu, fjármálaráðuneytinu og ráðuneytunum til vansa að svona miklar skekkjur skuli vera. Það er líka til vansa fyrir þingið að þurfa að taka við slíku fjárlagafrumvarpi og afgreiða það með þessari miklu óvissu í hinum stóru útlínum og stóru þáttum sem skipta öllu fyrir tekju- og gjaldahlið fjárlaga.

Virðulegi forseti. Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta. Ég ætla aðeins ræða um breytingartillögur sem 1. minni hluti flytur. Ekki síst vil ég nefna ýmis atriði sem lúta að félagsmálaráðuneytinu. Þar sem ég á sæti í félagsmálanefnd hef ég sérstaklega farið yfir kafla félagsmálaráðuneytisins. Þar kemur ýmislegt í ljós, virðulegi forseti, sem snertir hæstv. fjármálaráðherra sem hér gengur úr sal vegna þess að þar er um að ræða ýmsar vanáætlanir. Ég er mjög sátt við að hæstv. fjármálaráðherra fái sér sæti í hliðarsal af því að ég veit að hann hlýðir grannt á mitt mál.

Virðulegi forseti. Ljóst er að fjárlög og skattastefna ríkisstjórnarinnar hefur stuðlað að ójöfnuði í þjóðfélaginu. Það hefur ekkert skort á að hæstv. ríkisstjórn hafi ekki haft úr nógu að spila. Við höfum sýnt fram á það í minni hlutanum að bara þegar horft er til þess tekjuauka sem ríkisstjórnin hefur haft úr að spila þá hefur hún á hverjum einasta degi — ég man nú ekki nákvæmlega töluna en alla vega er hún yfir 800 milljónir á hverjum einasta degi samanborið við það að þetta var rúmlega 400 milljónir á árinu 1995. Við erum því að tala um að tekjuaukinn hefur tvöfaldast hvern dag frá því að þessi ríkisstjórn tók við. En hún hefur ekki nýtt þessa fjármuni til þess að jafna kjörin. Hún hefur dregið fjármagnið frá þeim sem verr hafa það í þjóðfélaginu eins og öryrkjum, öldruðum, atvinnulausum, t.d. með verulegri skerðingu á skattleysismörkum. Hún hefur fengið verulega fjármuni þaðan til þess að flytja til þeirra sem betra hafa það, fjármagnseigenda og stórfyrirtækja. Þannig hefur þessi ríkisstjórn unnið. Ríkisstjórnin talar hér í öðru hvoru orði um stöðugleika í þjóðfélaginu en hún veit, ef hún horfir ekki á allt úr sínum fílabeinsturni, að ekki er stöðugleiki hjá mörgum heimilum í landinu í dag, hjá atvinnulausum, lífeyrisþegum, tekjulausum einstaklingum og fleiri tekjulágum hópum. Þeir hafa ekki fengið sinn eðlilega hlut af tekjuskiptingunni og því sem úr hefur verið að spila. Við sáum nú bara nýlega í Blaðinu 21. október 2005 að hér hafa aldrei verið fleiri milljónamæringar. Þar segir að mikill fjöldi Íslendinga eigi gríðarlega fjármuni í fasteignum, fyrirtækjum og hlutabréfum. Síðan segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Á þriðja þúsund íslenskra fjölskyldna á skuldlausar eignir upp á 100 milljónir eða meira.“

Síðar í þessari grein segir, með leyfi forseta:

„Mikil umræða hefur verið í þjóðfélaginu um vaxandi tekjumun á milli manna og þau ofurlaun sem sum fyrirtæki eru að greiða starfsmönnum sínum. Þessar tölur gætu verið vísbending um það að hér á landi sé að myndast djúp gjá milli annars vegar eignafólks og hins vegar fólks sem þarf að draga fram lífið á lágmarkslaunum. Þetta gæti jafnvel verið“ — stendur hér, virðulegi forseti — „fyrsti vísir að meiri háttar stéttaskiptingu í íslensku samfélagi.“

Virðulegi forseti. Við í Samfylkingunni gerum ekki athugasemdir við þó að þeir ríku verði ríkari og þótt hér verði til fleiri milljarðamæringar bara ef það er ekki á kostnað þeirra sem minna hafa milli handanna og meðaltekjufólks. Það er þannig sem við viljum sjá jafnaðarsamfélagið, þ.e. að hið opinbera, að ríkisvaldið vinni þannig úr sínum hagstjórnartækjum að þeim sé beitt þannig að ekki sé verið að taka — mér liggur næstum við að segja, virðulegi forseti, stela — frá þeim sem minna hafa til þess að flytja til þeirra sem meira hafa. Þannig á ekki að stjórna þessu landi. Það á ekki að gera, virðulegi forseti.

Það er þetta sem við gagnrýnum þegar fjármagnið í ríkiskassann hefur tvöfaldast þannig að þeir hafa ekki núna 400 milljónir úr að spila á hverjum degi eins og þeir höfðu á árinu 1995 heldur yfir 800 milljónir á hverjum einasta degi. Ég fullyrði að tekjulágt fólk eins og lífeyrisþegar hefur það verra í dag en það hafði á árinu 1995. Ég skal bara draga eina tölu upp úr mínum hatti því til stuðnings, þ.e. þær skattgreiðslur sem fólk með undir 110 þús. kr. hefur. Það borgaði lítinn sem engan skatt, 2–3% af sínum tekjum, á árinu 1995 en borgar nú nærri því 14%. Ég spyr: Er það meðvitað hjá hæstv. ríkisstjórn að taka frá þeim sem lítið hafa og færa til þeirra sem meira hafa? Í hugum okkar jafnaðarmanna er það alveg klárt að það er ekki stöðugleiki. Það er ekki stöðugleiki að fara þannig með samfélagið og það sem til skiptanna er í þjóðfélaginu.

Ég get farið yfir, virðulegi forseti — ég ætla bara ekki að eyða tíma þingsins í það enda langt liðið á kvöld og margir á mælendaskrá — þær háu fjárhæðir sem skipta tugum milljarða sem skattleysismörkin, sem helst gagnast þeim sem minnst hafa og meðaltekjufólki, hafa verið skert um og flutt til þess að bæta afkomu þeirra betur settu.

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að fara yfir það sem snýr að félagsmálaráðuneytinu af því að ástæða er til þess að hafa áhyggjur af því hvað er í gangi þar í ýmsum stórum málaflokkum sem skipta verulega miklu máli fyrir fólkið í landinu, ekki síst fyrir t.d. ungbarnafjölskyldur. Þá er ég að tala um fæðingarorlofssjóðinn. Ríkisvaldið var með góð áform uppi þegar fæðingarorlofssjóður var stofnaður og þegar fæðingarorlofinu var breytt og það er kannski eitt besta verk ríkisstjórnarinnar. Þess vegna skil ég ekki af hverju ríkisstjórnin hafði ekki metnað til þess að standa vörð um fæðingarorlofsréttinn. Hún er skipulega að grafa undan fæðingarorlofslögunum. Hún breytti viðmiðunartímanum með þeim hætti að hann var lengdur verulega þannig að tekjur fólks í fæðingarorlofi hafa skerst verulega. Nú eru það ekki 80% af tekjum síðustu tólf mánaða eins og lagt var upp með heldur er þetta komið kannski niður í 70%.

Virðulegi forseti. Margir hafa haft samband við mig út af þessu sem hafa fundið á eigin skinni hvernig greiðslurnar í fæðingarorlofi eru allt aðrar en þeir héldu í upphafi og það er ekki allt komið fram í því efni. Ég spái því að á næstu vikum munum við þingmenn finna fyrir því að fólk mun kvarta mjög yfir því sem er að gerast í fæðingarorlofsmálunum þar sem verið er að grafa hreinlega undan þeim sjóði. Þar er vanmat á tekjunum vegna þess að í áætlunum félagsmálaráðuneytisins er gert ráð fyrir að í árslok 2006 muni fæðingarorlofssjóður skulda ríkissjóði milli 1.500–1.600 millj. kr. Í áliti sem fylgir hjá minni hlutanum er þetta sundurliðað lið fyrir lið. Ég ætla því ekki að tefja tíma þingsins með því að fara yfir þetta. En það er alveg ljóst að ekki hefur ekki verið veitt nægilegt fjármagn af þessum átta hundruð og eitthvað milljónum sem ríkisstjórnin hefur á hverjum degi. Hún þarf nú ekki einu sinni að taka af því vegna þess að þetta er tekið af sérstöku tryggingagjaldi til að standa vörð um þennan sjóð. Það vantar hvorki meira né minna en 500 millj. kr., virðulegi forseti, á næsta ári til þess að hægt sé að greiða fæðingarorlof til fólks sem er að taka fæðingarorlof til þess að það halda sama hlut og það hafði í fæðingarorlofi þegar lagt var upp með það.

Við jafnaðarmenn viljum standa vörð um fæðingarorlofsgreiðslurnar þannig að ekki fjari svo undan að fólk hætti kannski að taka fæðingarorlof eða taki styttra fæðingarorlof en ella. Kannski mundu feðurnir gera það ef jafnt og þétt er grafið undan sjóðnum og dregið úr fæðingarorlofsgreiðslum til foreldra. Þess vegna flytjum við tillögu um 500 millj. kr. aukaframlag í sjóðinn, en áætla má að ef greiðslurnar eigi að halda raungildi sínu miðað við 80% af tekjum þá þurfi að bæta við 500 millj. kr. í sjóðinn.

Ég harma það líka við þessa umræðu að félagsmálaráðherra hefur ekki staðið við það sem hann ræddi hér um fyrir einu og hálfu ári síðan og sem við í minn hlutanum gagnrýndum þá, þ.e. að umönnunar- og lífeyrisgreiðslur falla niður við töku fæðingarorlofs. Það er afar ósanngjarnt og getur leitt til verulegs tekjutaps lífeyrisþega ef þeir taka fæðingarorlof. Það er óréttlátt að mínu viti að blanda umönnunargreiðslum og fæðingarorlofsgreiðslum saman þannig að þær gangi ekki upp samtímis.

Í Ábyrgðarsjóð launa hefði ég viljað fara en ætla að bíða með það til morguns af því að hæstv. ráðherra hefur boðað frumvarp þar að lútandi, en þar er um verulega vanáætlun að ræða. Ég ætla líka að minna á það varðandi stöðu Vinnueftirlitsins að hæstv. þáverandi fjármálaráðherra og félagsmálaráðherra gáfu sameiginlega yfirlýsingu, loforð, þegar breytt var fjármögnun til Vinnueftirlitsins sem áður hafði fengið hluta af tryggingagjaldi og átti eftir það að koma beint af fjárlögum, um það að við þessa breytingu yrði fjármagn til Vinnueftirlitsins ekki skert. Á þessu ári og næsta ári munu tekjur Vinnueftirlitsins skerðast um 72,5 millj. kr. sem það hefði ella fengið af óbreyttum tekjustofni eins og hann var árið 2004. Minni hlutinn og við sem höfum sett fram þetta álit teljum að ekki hafi verið staðið við þetta loforð og minnum á hve mikilvægt sé að efla og treysta starfsemi Vinnueftirlitsins og almennar kröfur um aukna vinnuvernd vegna nýrra og aukinna verkefna stofnunarinnar.

Ég ætla að halda til haga starfsmenntasjóði. Þótt fáist aukið fjármagn inn í þennan mikilvæga málaflokk nú í tengslum við kjarasamningana, en hann er mjög mikilvægur ekki síst ófaglærðu fólki, þá hefur fjármagn sem til þessa sjóðs hefur verið varið staðið óbreytt í mjög langan tíma. Til þessa sjóðs var stofnað í minni tíð sem félagsmálaráðherra. Nú er sennilega á annan áratug síðan. Þá voru þetta um 50 eða 55 millj. kr. en eru í dag 60 millj. kr. Þetta hefur því ekkert breyst. Þetta hefur ekki haldið verðgildi sínu. Samt eru umsóknir í starfsmenntasjóð alltaf að aukast. Núna er samtals verið að sækja um 152 millj. kr. í starfsmenntasjóð. Sama gildir um atvinnumál kvenna. Til þeirra er einungis varið um 25 millj. kr. sem er óbreytt krónutala í sennilega sama árafjölda, en á árinu 2005 bárust t.d. 146 umsóknir um fjármagn vegna atvinnumála kvenna að fjárhæð 175 millj. kr. en sjóðurinn hefur einungis til ráðstöfunar 25 millj. kr. Reynslan af úthlutun úr þessum sjóði er afar góð og hefur nýst mjög vel og gert mörgum konum kleift að koma á fót atvinnurekstri og verið mikilvægt framlag í frumkvöðlastarf meðal kvenna. En ekkert er gert til að efla þennan sjóð eins mikilvægur og hann er atvinnulífinu og eins mikilvægur og hann er til að fjölga störfum og auka skatttekjur ríkissjóðs. Það væri gott ef stjórnvöld hefðu þá forsjálni að sjá mikilvægi þessara sjóða, starfsmenntasjóðs og atvinnumálasjóðs kvenna og auka verulega fjármagn til þeirra.

Ég vil nefna eitt sem mér finnst mikill blettur á þessum fjárlögum, það eru fjármunir sem varið er til málefna barna. Í fjárlögum kemur fram að heildarframlög til málefna barna endurspegla mjög vel, virðulegi forseti, forgangsröð þessarar ríkisstjórnar. Það er dregið úr fjármunum og ekkert horft til Barnaverndarstofu sem gerir t.d. tillögur um viðbótarframlög til nýrra verkefna, m.a. til að geta tekist á við meðferð síbrotaunglinga. Það er ekki ein króna til nýrra meðferðarúrræða þó að mikil þörf sé á meðferðarúrræðum fyrir síbrotaunglinga.

Ég nefni líka Greiningarstöð ríkisins. Þó nokkuð hafi verið gert til þess að bæta þar úr þá vantar verulega þar á til þess að Greiningarstöðin geti sinnt verkefnum sínum. Þar lengist sífellt biðlistinn og er skömm að því að þannig skuli vera farið með Greiningarstöðina vegna þess að auðvitað vita það allir sem þekkja þar til starfseminnar að afar mikilvægt er fyrir þroskamöguleika barna að aðstæður þeirra séu kannaðar eins fljótt og mögulegt er eftir að tilvísun hefur borist þangað þannig að barn fái sem fyrst frumgreiningu. En nú eru langir biðlistar og til vansa er að ekki skuli vera hlúð betur að þessari stöð.

Aðrir þingmenn Samfylkingarinnar sem hér hafa talað á undan hafa gert grein fyrir þeim breytingartillögum sem við flytjum og lúta fyrst og fremst að því að færa meira fjármagn til velferðarmála. Við setjum fram tekjutillögur á móti og skilum reyndar, eins og hér hefur komið fram, eilítið betri niðurstöðu í tekjuafgang en stjórnarflokkarnir gera.

Hér hefur verið farið vel yfir vaxtabæturnar og skal ég ekki orðlengja það frekar. Ég vil þó segja að á þessu og síðasta ári voru 900 millj. kr. teknar af vaxtabótum. Um það voru þær skertar og á næsta ári verða þetta 500 eða 600 millj. kr. þannig að hér er um verulega fjármuni að ræða. Það er rangt sem a.m.k. fyrrverandi fjármálaráðherra heldur fram — ég veit ekki hvort núverandi fjármálaráðherra heldur því fram — að óhætt sé að gera þetta vegna þess að vextir hafi lækkað svo mikið hjá fólki. En ég skal þá halda því til haga sem kom fram í svari félagsmálaráðherra við fyrirspurn minni um það að af 73 þúsund lántakendum hjá Íbúðarlánasjóði eru nærri 50 þúsund með hærri en 5,1% vexti. Vextir hjá þessum stóra hópi, þ.e. nærri 50 þúsunda af 73 þúsund lántakendum eða tveimur þriðju, hafa ekkert lækkað. Þarna er beinlínis, virðulegi forseti, verið að koma í bakið á þessu fólki sem hefur verið að gera greiðsluáætlanir og treyst á að fá vaxtabætur á móti vöxtunum. Það er beinlínis komið í bakið á þessu fólki ár eftir ár. Það er alveg ljóst að sjálfstæðismenn með alveg ágætum stuðningi framsóknarmanna ætla sér með góðu eða illu að ganga að vaxtabótakerfinu dauðu. Það mun segja til sín, virðulegi forseti, í pyngju margra heimila.

Hér er líka flutt mikilvæg tillaga um vasapeninga ellilífeyrisþega. Við leggjum afar mikla áherslu á að hún verði samþykkt. Það er mjög lítið sem ellilífeyrisþegar hafa í vasapeninga og ekki liggur fyrir að kjör þeirra verði bætt neitt með einhverjum greiðslum nú í desember eins og hjá öðrum. Því leggjum við til verulega aukningu á vasapeningum ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega.

Ég sé ekki ástæðu til að tefja þessa umræðu lengur þó ég gæti farið yfir ýmsa þætti enn frekar. Ég hefði viljað ræða við hæstv. heilbrigðisráðherra um málefni lífeyrisþega betur en ég hef gert. Ég held að það sé afar mikilvægt og þoli raunar enga bið að taka á því sem reyndar kemur fram í þingmáli okkar þingmanna Samfylkingarinnar um afkomutryggingu aldraðra og öryrkja. Vil ég þar sérstaklega draga fram þáttinn sem snýr að því að minnka skerðingarhlutfall grunnlífeyris og tekjutryggingar þannig að það verði rýmkað verulega til að auka svigrúm til atvinnuþátttöku. Sláandi upplýsingar hafa komið fram um þá skerðingu sem fólk verður fyrir vegna þess hve skerðingin er brött bæði í grunnlífeyri og tekjutryggingu. Samtök aldraðra hafa nefnt að við 10 þús. kr. aukningu atvinnutekna á mánuði hjá hjónum þá hækkar ráðstöfun þeirra í mörgum tilvikum aðeins um 1.556 kr. á mánuði. Þegar skerðingunni hefur verið beitt og skattar teknir af þá hafa verið tekin í skatta og skerðingu tæp 85% af tíuþúsundkallinum. Það er ekki við það búandi að litlar atvinnutekjur sem fólk vinnur sér inn skuli lenda svona í skattinum og í mikilli skerðingu. Ég held, virðulegi forseti, að ekki sé hægt að bíða mikið lengur með að taka á þessu máli og auðvitað lífeyrisgreiðslum aldraðra í heild sinni eins og við höfum lagt til.

Virðulegi forseti. Ég ítreka að ég tel að þetta frumvarp standi á brauðfótum og engan þarf að undra þó að við höldum því fram í stjórnarandstöðunni. Við höfum fært fram rök máli okkar til stuðnings um að skekkjur eru bæði á gjalda- og tekjuhlið. Við höfum vitnað þar til fortíðarinnar og fært fram rök fyrir okkar máli með því að vísa í misvísandi spár sem koma fram hjá Seðlabanka, fjármálaráðuneytinu og ASÍ þannig að þar munar verulegu.

Það skulu vera mín lokaorð að varaformaður fjárlaganefndar hefur ekki meiri trú á fjárlagafrumvarpinu en svo að hann sagði í umræðu fyrr í dag að líklegt væri að afgangurinn yrði ekki 2% heldur 1%. Hann er því þegar búinn að gengisfella frumvarp fjármálaráðherra um hvorki meira né minna en 10 milljarða kr. Er von til þess, virðulegi forseti, að við höfum trú á því fjárlagafrumvarpi sem hér á að fara að afgreiða þegar varaformaður fjárlaganefndar og hægri hönd hæstv. fjármálaráðherra í fjármálum ríkisins hefur enga trú á frumvarpinu sem hér á að fara að afgreiða?