132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[23:12]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef satt best að segja ekki orðið var við að hæstv. menntamálaráðherra þori ekki að svara fyrir stefnu sína í menntamálum, síður en svo. Hún hefur staðið hér síðan hún tók við því starfi og svarað hv. þingmönnum, þar á meðal hv. 1. þm. Reykv. n. (Gripið fram í.) vegna atriða sem varða þann málaflokk sem hún sinnir. (Gripið fram í.)

Hv. þingmaður nefndi að opinbert framlag til háskóla væri ekki nægilega hátt á Íslandi og að fjármagn skorti til Háskóla Íslands. Hann er eins og aðrar ríkisstofnanir — og ég bið hv. þingmann um að nefna mér eina ríkisstofnun á Íslandi sem ekki telur sig skorta meira fjármagn. Það er alltaf hægt að tala svona, það er ofboðslega ódýr málflutningur að segja að það vanti meiri peninga í þetta og hitt. Ég veit ekki um neina ríkisstofnun sem vill ekki fá meiri peninga, það er bara þannig. En tölurnar tala sínu máli. Það liggja fyrir skýrslur frá OECD sem sýna fram á að er ekkert land í heiminum ver hærra hlutfalli af landsframleiðslu sinni til menntamála en Ísland. Þannig er það. Það er alveg sama í hversu marga hringi hv. þingmaður snýst, hann kemst ekki fram hjá því að viðurkenna þær staðreyndir og þær mælingar og rannsóknir sem fremstu menn á þessu sviði í heiminum hafa komist að. Þær liggja fyrir. Það verður hv. þingmaður að taka til athugunar þegar hann kemur hingað upp í umræðu um fjárlög og heldur því fram að það skorti fé í menntakerfið á Íslandi og skorti stefnu í menntamálum af hálfu ríkisstjórnarinnar og Sjálfstæðisflokksins. Þetta er einfaldlega ekki rétt hjá hv. þingmanni.