132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[23:17]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Frú forseti. Við erum að ræða fjárlögin og það er orðið nokkuð liðið kvölds og allmargir félagar mínir úr þingflokki Samfylkingarinnar, hv. þingmenn, hafa tekið til máls á undan mér og farið yfir þær breytingartillögur sem við leggjum til við 2. umr. fjárlaga. En eins og komið hefur fram leggjum við jafnaðarmenn mikla áherslu á velferðarmálin og mun meiri en hæstv. ríkisstjórn gerir og þess vegna leggjum við til auknar greiðslur til ákveðinna þátta velferðarþjónustunnar.

Hér á undan mér talaði hv. þm. Össur Skarphéðinsson um barna- og unglingageðdeildina og ég fagna því að hæstv. ráðherra lýsti því yfir í umræðunum að hann ætlaði að leysa vanda barna- og unglingageðdeildarinnar á næstunni. Virðulegi forseti. Ég ítreka að mér finnst það hafa verið mistök að barna- og unglingageðdeildin skyldi ekki hafa fengið inni í Barnaspítalanum á sínum tíma. Því auðvitað eiga öll börn sem eru veik að eiga þar aðkomu. Það er ekki eðlilegt að börn með ákveðna sjúkdóma, svo sem geðræna sjúkdóma, fái þjónustu annars staðar.

Ég furða mig í raun á því að það skuli vera 15 ára bið á því að börn með geðræna sjúkdóma skuli fá inni á Landspítalanum eins og önnur veik börn. Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra, ef hann er enn þá í húsinu, hvort ekki sé hægt að breyta þessum áherslum þannig að forgangurinn verði sá að börn með geðræna sjúkdóma fái aðstöðu á barnaspítalanum nú þegar setja á mörg hundruð milljónir í að byggja upp aðstöðu sem er virkilega þörf á, og hún verði þá höfð með annarri þjónustu fyrir börn inni á barnaspítalalóðinni eða við Landspítalann.

Síðan vil ég nefna Greiningarstöðina þar sem þörfin fyrir viðbótarfé er mjög mikil. Það er óviðunandi að börn skuli þurfa að bíða eftir greiningu í 3–4 ár og á þeim tíma fái börnin ekki þann stuðning og þjónustu sem þau ættu að fá, t.d. í skólakerfinu, og við vitum alveg hvað hvert ár er mikilvægt í þroskaferli barns. Það er ekki boðlegt að biðin sé svona löng á Greiningarstöðinni og það þurfa að koma viðbótarfjárveitingar og við leggjum til að það verði gert þannig að hægt verði að koma enn frekar til móts við þau börn sem þurfa greiningu að halda hjá Greiningarstöð ríkisins.

Síðan ætla ég að nefna Barnaverndarstofu þar sem við leggjum einnig til aukna fjárveitingu til nýrra verkefna en hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gerði ágæta grein fyrir því þannig að ég ætla ekki að eyða tíma í það.

Mig langar aðeins að gera stöðu lífeyrisþega að umræðuefni. Ljóst er að við það að bilið milli ríkra og fátækra hefur aukist í tíð núverandi ríkisstjórnar þá hefur staða margra lífeyrisþega versnað, þ.e. bilið milli þeirra og launþega hefur aukist, sérstaklega þeirra sem eru á bótum. Því viljum við ekki una og leggjum því til viðbótarfjárframlög til þeirra.

Mig langar til að nefna vegna umræðna fyrr í kvöld þá nýju framkvæmd á almannatryggingalögunum að hætta að greiða fólki sem væri búið að nýta rétt sinn, þ.e. að um næstu mánaðamót ætti að stöðva greiðslur til fólks sem hefði fengið ofgreitt hjá Tryggingastofnun. Ég er vissulega ekki á þeirri skoðun að það eigi að ofgreiða fólki úr almannatryggingakerfinu og það er rétt sem hæstv. ráðherra sagði í þeirri umræðu að þetta er fólk sem er búið að fá tekjur umfram það sem það upplýsti í Tryggingastofnun. En það sem við gagnrýnum er að þessi stöðvun greiðslna frá Tryggingastofnun kemur fólki að óvörum og margir hverjir eru búnir að eyða þeim peningum sem þeim hafa verið ofgreiddir og það er hastarlegt að stöðva greiðslurnar frá Tryggingastofnun eins og þarna er gert með nýrri reglugerð ráðherra. Ég heyrði á hæstv. ráðherra í umræðunni áðan að hann hygðist taka á þessu máli og ætli að svara erindi Öryrkjabandalagsins á næstu dögum. Ég ætla því ekki að gera þetta frekar að umræðuefni en fagna því að hæstv. ráðherra ætli að koma til móts við þennan hóp og minni á að almannatryggingakerfið er orðið það flókið og það er margt sem spilar inn í þegar bætur til einstaklinga eru endurreiknaðar og það hefur líka komið fram að margir hafa fengið vangreitt og fá þess vegna viðbótargreiðslu. Það spila líka ýmsir þættir inn í eins og t.d. ýmis réttindi sem eru tengd ákveðnum bótaflokkum, bæði greiðslur vegna tannlæknakostnaðar og vegna ýmissa annarra þátta í velferðarkerfinu. Þetta er því mjög snúið og sýnir svo vel hvað það er orðin mikil þörf á því að endurskoða almannatryggingarnar og sérstaklega lífeyriskaflann og svo tengslin við sjúkratryggingarnar, eins og ég nefndi áðan í andsvari við hæstv. ráðherra.

Eins og við ræddum fyrr í dag þá er líka orðið mjög brýnt að breyta og minnka tekjutengingarnar í almannatryggingunum, sérstaklega hvað varðar grunnlífeyri að tekjutryggingu, vegna þess hve þær eru farnar að bitna á fólki sem vill geta bætt við sig smá tekjum eða tekið einhvern þátt í atvinnulífinu. Mig langar til að lesa bréf sem ég fékk í gærkvöldi frá ellilífeyrisþega en það er kona sem lýsir því hvernig tekjutengingin kemur niður á henni og sendi mér „litla sögu frá ellilífeyrisþega“. Hún segir, með leyfi forseta:

„Ég er ein af ellilífeyrisþegum þessa lands, finnst ég vera enn í fullu fjöri þótt ég sé hætt að vinna og er ekki tilbúinn til að setjast á rúmstokkinn og bíða. Fyrir skömmu frétti ég af því að það vantaði einhvern til að bera út Fréttablaðið í mínu hverfi og hugsaði mér gott til glóðarinnar. Þarna gæti ég fengið góða heilsubótargöngu á hverjum morgni og smápening. Fyrir þetta átti ég að fá 15 þúsund kr. á mánuði. Ég hringi í Tryggingastofnun til að grennslast um hver útkoman yrði og viti menn. Fyrst eru teknar af rúmar 5 þúsund kr. í skatt og síðan lækkuðu tekjurnar mínar frá Tryggingastofnun um rúmlega 10 þús. kr. Útkoman yrði 1.000 kr. í mínus við það að bera út blöð á morgnana.“ Þessi ellilífeyrisþegi spyr: „Er ekki hægt að gera eitthvað til að við gamlingjarnir gætum unnið okkur inn nokkrar krónur í viðbót við eftirlaunin? Kannski mundi líka sparast eitthvað ef við héldum lengur bæði andlegri og líkamlegri heilsu sem mér finnst ekki ólíklegt ef við yrðum ekki dæmd úr leik.“

Þetta segir þessi ellilífeyrisþegi við mig í bréfi í gær og auðvitað er þetta dæmigert um það hvernig þetta kerfi er farið að virka. Ef viðkomandi ætlar að fara út í atvinnulífið og fá sér heilsubótargöngu til að halda heilsu og bera út nokkur blöð þá kostar það viðkomandi 1.000 kr. af lífeyri þótt hún fái 15 þús. kr. í laun fyrir viðvikið. Svona er þetta og á þessu þarf að taka og við í Samfylkingunni leggjum það til í þingmáli okkar um afkomutryggingu sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir er 1. flutningsmaður að og við flytjum öll í þingflokki Samfylkingarinnar.

En það eru nokkur fleiri atriði varðandi lífeyrisþegana sem mig langar til að nefna, sérstaklega kjör þeirra sem eingöngu lifa á almannatryggingabótunum og hafa minnst, en þeirra kjör eru mjög slæm. Sem betur fer eru það ekki nema 1% lífeyrisþega eða innan við 400 manns sem eru í þeirri stöðu og það sýnir náttúrlega hvernig lífeyrissjóðakerfið tekur yfir almannatryggingarnar, en sú var hugsunin alltaf. En engu að síður er það svo að þriðji hver ellilífeyrisþegi fær 110 þús. kr., eða minna í tekjur og borgar af þeim 14% skatt þannig að staða þess fólks er ekki öfundsverð og við teljum að þetta þurfi að bæta.

Þá langar mig aðeins að víkja að hjúkrunarmálunum og hjúkrunarheimilunum. Þar viljum við bæta í og leggjum til auknar fjárveitingar til hjúkrunarheimila en það hefur komið fram á fundum heilbrigðis- og trygginganefndar, hjá forstöðumönnum hjúkrunarheimilanna, að daggjöldin til hjúkrunarheimilanna séu orðin það naum — þeir tóku þá líkingu að þar væri allt kjöt búið á beinunum og þeir væru komnir inn í bein, enda hefur komið í ljós að þarna er ekki verið að veita alla þá þjónustu sem þyrfti, því miður. Þar þarf auðvitað að leysa vanda. Ég get ekki látið hjá líða að nefna einn hóp sem þyrfti mjög nauðsynlega að fá viðbótarþjónustu og það eru heilabilaðir, sem þurfa sérstaka aðstöðu og sérstaka þjónustu inni á hjúkrunarheimilum, að ógleymdum yngri alzheimersjúklingum sem ég gerði að umtalsefni í gær í fyrirspurnatíma. Það er búið að koma því kerfi á að ekki er lengur unnt að sækja um fyrir þá á hjúkrunarheimilum sem er auðvitað til háborinnar skammar. Ég treysti því að hæstv. heilbrigðisráðherra skoði þær reglur sem búið er að setja og hann er búinn að setja um þann hóp.

Málið er þannig að þeir sem eru illa farnir þurfa að bíða, jafnvel í hjúkrunarrýmum á Landspítalanum, eftir að verða 67 ára til að geta sótt um hjúkrunarpláss, sem á náttúrlega alls ekki að eiga sér stað því að þó að þetta sé ekki gamalt fólk er það með öldrunarsjúkdóm og þarf sína hjúkrun.

Hvað varðar hjúkrunarheimilin þá þarf líka að ráða bót þar og fjölga þeim, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, í Reykjavík því að þar er langstærstur hópur aldraðra sem bíður eftir hjúkrunarrýmum í brýnni þörf. Þetta kemur reyndar fram í áliti stjórnarliða til fjárlaganefndar. Þeir taka undir áhyggjur okkar í Samfylkingunni af því hversu margir sjúklingar bíða á Landspítalanum eftir því geta útskrifast af spítalanum, fólk sem lokið hefur allri meðferð en kemst ekki út. Það gerir það að verkum að aðrir komast ekki inn og þurft hefur að fresta aðgerðum á sjúkrahúsinu vegna þess að ekki er hægt að útskrifa þá sem búnir eru að fá þjónustu. Þetta er auðvitað kostnaðarsamt.

Hér hafa aðeins verið rædd loforð ríkisstjórnarinnar til ákveðinna hópa og menn hafa gert að umræðuefni að ekki hafi verið staðið við öll þau loforð eins og t.d. við öryrkja og aldraða þar sem hæstv. ráðherra sagði fyrr í dag að loforðin við aldraða hefðu verið efnd nema að því leyti að ekki hefur verið staðið við sveigjanleg starfslok, minni ég á að lofað var 20 skammtímarýmum fyrir heilabilaða en þeim hefur fækkað síðan það loforð var gefið. Ég held því að skoða þurfi aðeins betur loforðin og hvernig þau hafa verið efnd.

Vegna þess að ég er að tala um hjúkrunarheimilin þá vil ég nefna kjör þess fólks sem er á stofnunum og er með vasapeninga. Það eru um 1.700 aldraðir og 230 öryrkjar sem eru með vasapeninga og búa á stofnunum. Það eru innan við 22 þús. kr. á mánuði sem þetta fólk fær til að standa straum af helstu nauðþurftum. Þetta eru mjög litlar upphæðir og ég veit að þær duga ekki hjá mjög mörgum. Það getur vel verið að þær dugi fólki sem ekki getur vegna heilsufars veitt sér nokkurn skapaðan hlut en þeir sem eru við þokkalega heilsu en eru samt vistaðir á stofnun þurfa hárgreiðslu, klippingu, fótsnyrtingu og jafnvel sígarettur, þeir sem reykja. Þar nefni ég sérstaklega hina geðsjúku því að flestir af þeim 230 öryrkjum sem enn eru á vasapeningum eru vistmenn t.d. á geðsjúkrahúsum eins og Kleppi og eru langveikir og hafa dvalið þar allt upp í 30 ár. Þetta fólk á ekki peninga til að kaupa sér föt til skiptanna. Það er ömurlegt að hlusta á félagsráðgjafana sem sinna vistmönnum á þessum stofnunum, þ.e. öryrkjunum, að það á alls ekki föt til skiptanna, það er algjörlega upp á aðra komið með að fá föt og þó að sótt hafi verið til sveitarfélaganna um fatastyrk fyrir jólin er það ekki innan heimilda sveitarfélaganna að veita slíkt. Þessar upphæðir fyrir þennan hóp eru til háborinnar skammar. Til að bæta þessum hópi þá ömurlegu stöðu sem hann er í leggjum við til að 188 millj. kr. verði varið til að hækka vasapeningana um helming en við þurfum að leggja þetta kerfi niður, þetta ölmusukerfi sem vasapeningarnir eru. Það þarf að breyta því og horfa til nágrannalandanna. Hvað varðar aldraða þurfum við að horfa til þess hvaða háttur er hafður á gagnvart fötluðum sem búa á sambýlum. Þar hefur annað kerfi leyst af vasapeningagreiðslur. Þær eru niðurlægjandi og ömurlegt að þurfa að sækja um þær eins og aldraðir hafa margoft bent á í ræðu og riti.

Ég ætla ekki að dvelja lengur við vasapeningana heldur koma aðeins að öðrum þáttum eins og rafrænu sjúkraskránni sem orðið er mjög brýnt að koma hér á. Það verður að setja fé í að byggja upp rafræna sjúkraskrá. Það mun örugglega skila okkur heilmikum hagnaði og meira öryggi í heilbrigðisþjónustunni. Þarna verður að taka á. Það er hneisa að ekki skuli vera settir verulegir fjármunir í að byggja upp rafræna sjúkraskrá. Það á að koma á rafrænum lyfseðlum og bólusetningarskrám en það þarf einnig að byggja upp þessa rafrænu sjúkraskrá. Það er mikilvægt að auka upplýsingaflæðið þannig að hægt sé að fletta því upp hvar sem sjúklingur kemur inn á hvaða lyfjum hann hefur verið eða hvaða þjónustu hann hefur fengið. Þetta kemur í veg fyrir tvíverknað. Við höfum séð svo mörg dæmi um að verið er að margendurtaka ýmis verk í heilbrigðisþjónustunni vegna þess að ekki var vitað að búið væri að framkvæma þau annars staðar. Þetta mun því auka skilvirknina í kerfinu.

Varðandi heilsugæsluna þarf að tryggja að hún verði fyrsti viðkomustaður sjúklinga í kerfinu. Það verður að segjast eins og er að ég fagnaði þeim áfanga sem náðist í vikunni þegar komið var á eftirfylgni við geðsjúka þegar opnuð var starfsemi í Bolholti á vegum heilsugæslunnar í Reykjavík. Það var langþráð verkefni og má eiginlega þakka það ötulum baráttukonum í iðjuþjálfastétt að það verkefni komst á. Sú þjónusta þyrfti að vera mun víðar í heilsugæslunni að slík teymi væru að störfum. Síðan þarf auðvitað að auka unglingamóttökur. Eitt vil ég nefna sem komið hefur fram í vinnu sem ég hef tekið þátt í fyrir hæstv. heilbrigðisráðherra um heilsufar kvenna og það er að tryggja þarf símenntun heilbrigðisstétta í að greina hvenær fólk hefur orðið fyrir heimilisofbeldi. Þar skortir mikið upp á. Og það er ekki bara í heilbrigðiskerfinu sem þarf að koma slíku á, það þarf að koma því inn í menntakerfið alls staðar, bæði í skólunum og í símenntun innan heilbrigðisstétta að menn læri að meta merki um heimilisofbeldi því þetta er stór heilsufarsvandi.

Af því að ég er að tala um heilbrigðisþjónustuna vil ég nefna eitt mikið forgangsverkefni sem við í þingflokki Samfylkingarinnar teljum að verði að koma á og það er hágæsludeild á Barnaspítala Hringsins. Slíkri deild þarf að koma á því ekki er hægt að bjóða upp á þá löngu vegalengd sem er á gjörgæsluna þegar börn eru mikið veik. Það að hlaupa þurfi með þau langar leiðir, fara upp og niður stiga og í lyftu til að koma þeim inn á gjörgæslu. Við vitum að upp hafa komið mjög alvarleg tilvik vegna þessa. Ég hvet þingmenn til að samþykkja þá fjárveitingu sem við leggjum hér til, 40 millj. kr. til að koma á þessari hágæslu, þannig að börn inni á Barnaspítala Hringsins geti búið við örugga heilbrigðisþjónustu.

Mig langar aðeins í lokin að nefna þjónustuþörf við geðsjúka. Henni þarf að mæta. Þar er víða pottur brotinn þó svo að komin sé þessi eftirfylgni þarf miklu meira til. Þetta eru mjög viðkvæmir sjúklingar sem þurfa að fá mun meiri þjónustu án þess að ég ætli að fara ítarlega út í það. Hjá aðstandendum geðsjúkra kom fram á fundi sem þeir héldu í þessum mánuði þegar þeir stofnuðu samtök sín að á milli 70 og 100 einstaklingar með geðrænan vanda væru taldir heimilislausir. Ég tel það vera mjög alvarlegt mál. Þessir einstaklingar eru oft skráðir hjá ættingjum en þeir hafa ekki sitt eigið húsnæði þó að þeir ættu að hafa það. Þarna þarf auðvitað að ráða bót á. Símapeningarnir eiga að koma í þetta eins og hæstv. ráðherra nefndi en það er þó nokkur bið eftir því og það er mjög erfitt að bíða fyrir sjúklinga með geðsjúkdóma.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra. Ég gæti náttúrlega nefnt mjög margt en ítarlegar upplýsingar koma fram, bæði í áliti frá okkur fulltrúum í hv. heilbrigðis- og trygginganefnd til fjárlaganefndar og sömuleiðis í áliti okkar hv. samfylkingarþingmanna í fjárlaganefnd. Ég læt nú máli mínu lokið við 2. umr. en mun meta það hvort ég tek til máls við 3. umr.